Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:01:22 (6215)

2000-04-07 16:01:22# 125. lþ. 95.39 fundur 556. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (hreindýr) frv. 100/2000, EMS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:01]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir meginhluta þess frv. sem er til umræðu. Ég tel það vera til bóta að meginhluta og um leið til einföldunar og það festir í sessi ákveðna hluti sem nauðsyn ber til.

Þó eru nokkur atriði sem ég vil gera athugasemdir við. Ég vil í fyrsta lagi taka undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni um það atriði sem breytt er í þessu frv. frá því sem sú nefnd, sem hæstv. ráðherra skipaði til að gera tillögur að þessu frv., gerði tillögu um, þ.e. að Náttúrustofa Austurlands annist vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum, það ákvæði verði fest í lög en það verði ekki áfram hjá veiðistjóra, og síðan sé sett inn klásúla um heimild til veiðistjóra um að gera samning við annan aðila um að annast þetta. Mikilvægt er að hafa traustar stoðir undir stofnun eins og náttúrustofurnar. Hér er um verkefni að ræða sem er bundið við þann landshluta sem Náttúrustofa Austurlands starfar í og því eru öll rök í málinu til þess að það verði fest í lög að þetta verði hlutverk stofunnar.

Ég vænti þess að umhvn. muni skoða málið nákvæmlega, fara yfir röksemdir nefndarinnar sem komu upphaflega af samningu málsins og kanni síðan þau rök sem væntanlega liggja fyrir því að breyta frá áliti nefndarinnar. En ég treysti því að nefndin komist að sömu niðurstöðu og sú nefnd sem kom upphaflega að málinu.

Herra forseti. Það eru örfá atriði til viðbótar sem ég vildi koma að. Það er í fyrsta lagi varðandi skipun stjórnar. Mér finnst vera örlítil spurning hvort eðlilegt sé að Náttúrustofa Austurlands eigi þar fullgildan stjórnarmann vegna þess að meginhlutverk náttúrustofunnar er sérfræðiráðgjöf, rannsóknir og vöktun. Það er spurning hvort það fari saman að vera með fullgildan stjórnarmann með það hlutverk. Ég held að eðlilegt væri að umhvn. skoðaði það sérstaklega og einnig það sem ég tel eðlilegt að sé skoðað í þessu samhengi líka vegna þess að hreindýraveiðarnar eru og geta verið að mínu mati mikilvægur þáttur í ferðamennsku á Austurlandi. Þess vegna ætti að skoða hvort ekki sé eðlilegt að ferðamálasamtök Austurlands eigi jafnvel fulltrúa í stjórn hreindýraráðs.

Ég minnist þess að þegar við vorum í starfshópi fyrir margt löngu að leggja drög að tilurð hreindýraráðs var m.a. sú framtíðarsýn hjá okkur að hægt væri að tengja þetta miklu betur ferðamennsku og þá væri jafnvel innifalið í ferðapökkunum að fara á hreindýraveiðar. Ég er sannfærður um að með réttri markaðssetningu er hægt að auka þetta. Þá vil ég velta upp til athugunar fyrir umhvn. því sem segir í 1. gr. sem fjallar um hlutverk hreindýraráðs en í b-lið segir: ,,að sjá um sölu veiðileyfa og er ráðinu óheimilt að framselja þá heimild``. Ég held að nauðsynlegt sé að kanna seinni hluta þessarar setningar. Það er eðlilegt að hreindýraráðið eigi að sjá um sölu veiðileyfa en í samhengi við ferðamennsku. Þá er spurning hvort hreindýraráðið eigi ekki að hafa heimild til að framselja þetta ákveðnum völdum aðilum, m.a. í tengslum við að verið sé að selja ákveðna ferðapakka þar sem í væru heimildir til hreindýraveiða.

Herra forseti. Þetta voru þau atriði sem ég taldi nauðsynlegt á þessu stigi að koma á framfæri og ég trúi því og treysti að umhvn. muni skoða þetta gaumgæfilega og vonandi komast að þeirri niðurstöðu sem reynist okkur best til framtíðar.