Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:11:01 (6217)

2000-04-07 16:11:01# 125. lþ. 95.39 fundur 556. mál: #A vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum# (hreindýr) frv. 100/2000, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Segja má að um sé að ræða mál sem er eingöngu austfirskt mál og því ekki að undra þó þingmenn Austurlands vilji hafa skoðun á þessu máli. Ég tel þetta frv. vera að mestu leyti til bóta og heyri það t.d. á sveitarstjórnarmönnum að þeir eru ánægðir með að frá þeim skuli vera tekinn sá kaleikur að sjá um úthlutun arðgreiðslna og skiptingu arðs af veiddum dýrum og afurðum felldra dýra. Ég held að því sé vel fyrir komið hjá hreindýraráði.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni og Einari Má Sigurðarsyni að ég hefði talið eðlilegra að hlutverk Náttúrustofu Austurlands væri ótvírætt inni í lagatextanum þannig að skýrt kæmi fram að það væri Náttúrustofa Austurlands sem ætti að sjá um vöktun og rannsóknir á hreindýrastofninum og þar færi ekkert á milli mála. Eins og kemur fram í greinargerðinni hefur veiðistjóraembættið gert samning við náttúrustofuna. Fyrir því er engin trygging að Náttúrustofa Austurlands hafi áfram það hlutverk þó svo nú hafi verið gerður samningur um það þannig að ég teldi mun öruggara að hafa inni í lagatextanum ákvæði þess efnis að það skuli vera Náttúrustofa Austurlands sem sér um þessar rannsóknir.

Eitt atriði finnst mér skjóta svolítið skökku við í frv. og það er að veiðistjóri og ,,fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands eigi seturétt á fundum hreindýraráðs með málfrelsi og tillögurétt``. Ég get ekki alveg fundið rökin fyrir því af hverju fulltrúar beggja þessara stofnana skuli sitja á fundum ráðsins. Það er auðvitað svo að þegar hreindýraráð fundar, á það að geta kallað til þessa sérfræðiaðila, sem er veiðistjóri og fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun ef þess þykir þurfa við umfjöllun um mál sem eru hjá hreindýraráðinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að væntanlega í hvert skipti sem hreindýraráð heldur fundi, og vonandi á Austurlandi, þurfa menn að fljúga sunnan úr Reykjavík og norðan af Akureyri til þess að vakta það sem fram fer á fundum ráðsins. Ég get ekki séð rök fyrir þessu og tel þetta einungis vera til kostnaðarauka og það verði þá minna eftir af því fé sem kemur inn fyrir veiðileyfin til þess að úthluta til bænda og þeirra sem fá arð af þessum veiðum.

Ég bið hv. umhvn. að íhuga mjög gaumgæfilega hvort ástæða sé til þess að auka þennan kostnað sem fylgir augsýnilega þessari ráðstöfun.

Ég tek undir að hugsanlega þurfi að skoða betur vinkil varðandi ferðaþjónustuna og reikna með því að umhvn. geri það. Þar hafa gjarnan verið mál sem menn vilja skoða í tengslum við ferðaþjónustu. Ég reikna með því að umhvn. bregðist ekki í þessu máli frekar en öðrum málum sem hafa komið til hennar. Að síðustu vil ég leggja áherslu á það við umhvn. að hún fari yfir það að umfangið varðandi stjórnsýsluna í þessum málaflokki verði ekki það mikið að kostnaðurinn taki upp þann arð sem er annars af þessum veiðum.