Orkunýtnikröfur

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:30:04 (6220)

2000-04-07 16:30:04# 125. lþ. 95.24 fundur 523. mál: #A orkunýtnikröfur# frv. 51/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:30]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um orkunýtnikröfur sem er á þskj. 824 og er þetta 523. mál þingsins. Frv. þetta er þáttur í samræmingu íslenskrar löggjafar að evrópskum rétti í tengslum við aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Frv. byggist að meginhluta á tilskipun Evrópusambandsins sem er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og okkur ber að taka upp í íslenskan rétt.

Evrópusambandið hefur á undanförnum árum í samráði við framleiðendur reynt að ýta undir framleiðslu tækja með aukna orkunýtni, ýmist með samningum eða tilskipunum. Ákvæði fyrstu tilskipunarinnar á þessu sviði er um orkunýtni kæli- og frystiskápa. Í farvatninu eru fleiri tilskipanir sem kveða á um orkunýtni annarra tækja. Verði frv. þetta að lögum er iðnrh. heimilt að innleiða ákvæði slíkra tilskipana í íslenskan rétt með setningu reglugerða.

Á 117. löggjafarþingi setti Alþingi lög um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72 11. maí 1994. Í þeim lögum sem einnig byggja á tilskipunum Evrópusambandsins er kveðið á um að neytendur hafi greiðan aðgang að samræmdum upplýsingum um orkunotkun, hávaðamengun og fleira frá heimilistækjum. Á grundvelli þeirra laga hafa þegar verið settar nokkrar reglugerðir um slíkar merkingar og geta neytendur því borið saman orkunotkun þegar þeir kaupa kæli- eða frystiskápa, þvottavélar, þurrkara eða uppþvottavélar.

Tilgangur þessa frv., eins og áður nefndra laga, er að stuðla að því að orka verði notuð á skynsamlegan og hagkvæman hátt, að dregið verði úr áhrifum orkunotkunar á umhverfið með þróun og notkun orkusparandi búnaðar. Með frv. er hins vegar lagt til að gengið verði lengra í því efni en áður hefur verið gert og settar kröfur um orkunýtni tækja. Rétt er að taka fram að frv. er ekki ætlað að taka til notaðra tækja eða farartækja, svo sem bifreiða. Frv. sjálft kveður ekki á um orkunýtnikröfur einstakra tækja heldur er iðnrh. ætlað að kveða á um orkunýtni einstakra tækja í reglugerð.

Orkunýtnikröfur þessar geta verið hámarkskröfur um orkunotkun, kröfur um ákveðna hönnun eða jafnvel kröfur er varða einstaka hluta búnaðar. Kröfurnar skulu miða að því að auka nýtni á orku og koma í veg fyrir að tæki eða búnaður sem nýtir orku illa sé settur á markað. Þegar ráðherra setur kröfur um orkunýtni skal horfa til hagrænna sjónarmiða jafnt sem umhverfissjónarmiða. Kröfurnar skulu mótaðar út frá tæknilegum og efnahagslegum möguleikum á að draga úr orkunotkun.

Ég tel ekki ástæðu til að gera grein fyrir einstökum ákvæðum frv. en vísa þess í stað til skýringa í einstakar greinar þess.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.