Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:36:07 (6221)

2000-04-07 16:36:07# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 825 sem er 524. mál þingsins, um breytingar á lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73 18. maí 1990.

Einn helsti tilgangur frv. þessa er að taka af öll tvímæli um að iðnrh. sé heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir töku eða nýtingu ólífrænna eða lífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Sambærilega heimild forsrh. er að finna í lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998, varðandi nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendu. Til að koma í veg fyrir ósamræmi og óeðlilega ásókn í þær auðlindir hafsbotnsins sem lögin ná til er æskilegt að tekinn sé af allur vafi í þessu efni.

Með lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, nr. 73/1990, var lögfestur eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum á, í eða undir hafsbotninum. Frá þeim tíma hefur margt breyst. M.a. hefur ásókn í efni á hafsbotni stóraukist og afstaða til umhverfisverndar er önnur en var við setningu laganna fyrir áratug síðan.

Annar helsti tilgangur frv. er að bregðast við þeirri nauðsyn að koma betri stjórnun á fyrirkomulag efnisleitar og efnisvinnslu, svo og útgáfu leyfa til þeirra athafna. Fram til þessa hefur efnistaka á hafsbotni fyrst og fremst verið malarnám og taka skeljasands til sementsframleiðslu. Einnig hefur verið leitað að málmum þótt þeir hafi ekki fundist í vinnanlegu magni.

Lögin um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins taka til allra lífrænna og ólífrænna auðlinda hafsbotnsins annarra en lifandi vera. Í þessu felst að lögin taka einnig til olíu sem kynni að finnast innan lögsögunnar. Lögin og þær breytingar sem felast í frv. eru þó engan veginn fullnægjandi fyrir leit að olíu eða vinnslu hennar. Það mál er mun umfangsmeira og verður væntanlega sett sérstök löggjöf um leit og vinnslu olíu þegar fram líða stundir.

Helstu breytingar sem felast í frv. þessu eru tvenns konar. Önnur helsta breytingin er ákvæði 3. gr. frv. að heimila iðnrh. að ákvarða eða semja um endurgjald fyrir töku eða nýtingu efna á, í eða undir hafsbotninum utan netalaga sem eru til samræmingar við ákvæði annarra sambærilegra laga. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að efnistaka á landi er undantekningalítið aðeins heimiluð gegn endurgjaldi til landeiganda og er mikilvægt að ekki skapist ójafnvægi á milli efnistöku á landi og í sjó sem skapar óeðlilega ásókn í sjávarefni eins og nú þegar ber nokkuð á.

Lagt er til að tekjum af útgáfu leyfa verði varið til hafsbotns- og landsgrunnsmála, svo sem almennra rannsókna, sérstakra olíuleitarverkefna o.fl. Þetta er gert þrátt fyrir að almennt hafi verið litið svo á að ekki séu miklar líkur á því að verðmætar auðlindir sé að finna innan lögsögu Íslands. Sú skoðun byggist þó á takmörkuðum rannsóknum og er að svo komnu máli ekki hægt að útiloka að t.d. olía eða málmar kunni að finnast þar í vinnanlegu magni. Í þeim tilgangi að ýta undir frekari rannsóknir á auðlindum hafsbotnsins er lagt til að tekjur af leyfum vegna nýtingar efna á hafsbotninum renni til þessara rannsókna.

Hin helsta breytingin eru ákvæði 4. gr. frv., að kveða skýrar á um þau efnisatriði sem fram eiga að koma í reglugerð um framkvæmd laganna bæði hvað varðar leyfi til rannsókna og vinnslu. Í þessu sambandi má benda á að mikilvægt er að þeim sem sækja um leyfi hjá stjórnvöldum sé fyrir fram ljóst hvaða gögn þurfi að fylgja umsóknum og hver séu meginefnisatriði leyfisbréfa.

Þá er og mikilvægt að leyfishöfum sé fyrir fram ljóst hvaða gögn þeir þurfi að afhenda á leyfistímanum og við lok hans, m.a. til að upplýsa um efnistökustaði, efnismagn og efnisgerð á hverjum stað, svo nokkuð sé nefnt. Slíkar upplýsingar eru t.d. grundvallaratriði til að unnt sé að fylgjast með að skilyrðum leyfisins sé fylgt, m.a. vegna umhverfissjónarmiða. Önnur ákvæði frv. eru til stuðnings þessu.

Í 2. gr. frv. er ráðherra heimilað að veita leyfishafa fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi í allt að tvö ár eftir að gildistíma leyfis til leitar er lokið og að öðrum aðila verði ekki veitt leyfi til leitar á þeim tíma. Þetta ákvæði tekur mið af því að rannsóknir á auðlindum hafsbotnsins eru kostnaðarsamar og krefjast oftast beitingar dýrs og sérhæfðs tækjabúnaðar. Rétt þykir að sá sem leggur út í slíkar rannsóknir fái nokkurn umþóttunartíma til að meta niðurstöður rannsókna sinna og gera áætlanir um vinnslu á grundvelli þeirra. Tveggja ára forgangstími að afloknum rannsóknatíma er talinn hæfilegur hámarkstími miðað við þá nýtingu efna hafsbotnsins sem stunduð hefur verið undanfarin ár og eingöngu hefur verið bundin við jarðefnatöku.

Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að þeir sem hafa leyfi til leitar og hagnýtingar efna á, í eða undir hafsbotni skuli halda þeim leyfum sínum í tvö ár frá gildistöku laganna. Þessi er umþóttunartími er fyrir þá sem hafa gildandi leyfi til að sækja um endurnýjun þeirra á forsendum þessara breytinga.

Herra forseti. Að lokinni umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.