Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:44:46 (6223)

2000-04-07 16:44:46# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. þm. mundi koma fram með athugasemd í líkingu við þá sem hann kom með. Ég tel ekkert athugavert við það að setja löggjöf sem þessa og tel það reyndar mjög mikilvægt vegna þess að hér erum við að tala um að samræma milli þess að auðlindin finnist á landi innan netlaga eða utan netlaga. Málið gengur fyrst og fremst út á það að samræma og meðan málum er háttað eins og raun ber vitni í dag er ásókn í að komast í efni sem eru utan netlaga og ekki þarf að greiða fyrir aðgang að, á sama tíma og innan netlaga þarf að greiða gjald. Ég tel því mjög eðlilegt að þessu sé komið í þennan farveg og tel reyndar að upp hafi komið tilvik á undanförnum árum sem geri það að verkum að þessi löggjöf sé algerlega nauðsynleg. Ég veit hins vegar að hv. þm. er náttúrlega að ýja að því að það eigi að krefjast þess að útgerðir borgi veiðileyfagjald eða gjald fyrir að veiða fisk í sjónum. Ég tel að það sé allt annað mál og er a.m.k. á þessari stundu andvíg því að tekið sé slíkt gjald, enda held ég að það sé að sýna sig núna í uppgjöri útgerðarfyrirtækja að reksturinn gengur ekki það vel að þau hafi nokkurn afgang til að greiða frekari skatt til ríkisins.