Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:46:35 (6224)

2000-04-07 16:46:35# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi hugsun og röksemdafærsla gengur einfaldlega ekki upp. Það gengur ekki upp að segja, eins og hér er sagt í athugasemdum með lagafrv., að eðlilegast hljóti að teljast að ríkisvaldið krefjist gjalda fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar, ef það á bara við dauðar auðlindir í hafsbotni en ekki lifandi auðlindir í þessum sama hafsbotni.

Nú er það svo að tekið er gjald fyrir að veiða fisk innan netlaga. Einstaklingar geta og hafa tekið gjald fyrir slíkt. Það gildir ekki ef veitt er utan netlaga þannig að röksemd hæstv. ráðherra um að þetta sé bara samræming á því sem menn þurfa að greiða hvort eð er ef menn eru að nýta auðæfi í einkaeign gengur ekki heldur upp. Hvaða vit er í því, hæstv. ráðherra, að skilin á milli þess að nýta afurð skelfisks, gjaldtakan fyrir hana eigi að vera eftir því hvort skelfiskurinn er lifandi eða dauður? Hæstv. ráðherra ætlar sér að taka afgjald af því að nýta aðfurðir dauðs skelfisks við námu skeljasands en henni finnst eðlilegt og sjálfsagt að lifandi skelfiskur sé veiddur ókeypis. Menn útihluti ókeypis veiðirétti á hann. Skyldi nú ekki vera meiri sóknin eftir hinni lifandi auðlind innan fiskveiðilögsögu Íslands en hinni dauðu, a.m.k. hingað til? Þessi röksemdafærsla hæstv. ráðherra gengur ekki upp. Það að segja að eðlilegt sé að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar á að sjálfsögðu við um alla, alla íslenska ríkisborgara sem nýta slíkar auðlindir og allar auðlindir hvaða nafni sem þær nefnast.