Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 16:49:35 (6226)

2000-04-07 16:49:35# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[16:49]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hvernig getur hæstv. ráðherra haldið því fram að gjaldtaka vegna efnisnáms á efnum í sameiginlegri eigu þjóðarinnar sé ekki auðlindagjald? Hvað er það annað? Hvað er það annað en auðlindagjald að rukka einstakling fyrir aðgang að auðlind í eigu þjóðarinnar? Skiptir þá sköpum hvort um er að ræða auðlind t.d. eins og orku fallvatna, orku jarðhita eða menn eru að ræða um námur á landi eða sjó? Það skiptir ekki nokkru máli. Öll gjaldtaka fyrir nýtingu slíkra auðlinda í eigu almennings eru að sjálfsögðu auðlindagjald. Menn geta ekki sagt að eitt sé auðlindagjald en annað ekki sem lagt er á nýtingu fiskimiðanna, lifandi skelfisks. Það er ekki auðlindagjald að leggja gjald á nýtingu á dauðum skelfiski en það er auðlindagjald að leggja gjald á nýtingu á lifandi skelfiski. Þetta er hundalógík, hæstv. ráðherra. Þetta eru ekki rök. Þetta er rugl.

Ég var satt að segja að vona að þessi setning í athugasemdum við lagafrv. sem ég vitnaði í, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hlýtur það að teljast eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar`` --- væri til vitnis um það að framsóknarmenn væru að byrja að skilja málið. Mér datt hins vegar aldrei í hug að skilningurinn takmarkaðist við það að viðkomandi auðlind væri dauð og hún væri á hafsbotni. Ég hélt að skilningurinn næði lengra en þetta og ég skil ekki hvernig fólk getur fært fram slík rök eins og hæstv. ráðherra reyndi að nota hér áðan. Ég harma það satt að segja að skilningur framsóknarmanna skuli enn þá vera hnepptur í þá hugsanafjötra sem þeir hafa hnepp sig í í sambandi við nýtingu sameiginlegra auðlinda.

En það er annað atriði í sambandi við frv. sem mér finnst ástæða til að víkja að, og leyfi ég mér að gagnrýna það. Það er hvernig á að koma því fyrir að innheimta þetta auðlindagjald af auðæfum í sameign þjóðarinnar sem finnast kunna á botni hafsins. Í 3. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Iðnaðarráðherra er heimilt að ákvarða eða semja um endurgjald (leigu) fyrir töku eða nýtingu sem hann heimilar ...``

Með öðrum orðum, Alþingi er að framselja vald til gjaldtöku til fagráðherra án þess að hafa nokkuð um það að segja hvernig það skuli ákvarðað. Ráðherra hefur samkvæmt þessari lagagrein fulla heimild til þess að velja hvaða aðila sem honum dettur í hug til að nýta auðlindir á hafsbotni án þess að spyrja kóng eða prest og ákvarða það leigugjald sem honum dettur í hug. Ekkert tillit þarf að taka til þess að það kunni að vera aðrir aðilar í samfélaginu sem hafi hug á að nýta sömu auðlind né heldur er beitt einhverjum ákveðnum aðferðum eins og uppboðs- eða útboðsaðferð til þess að velja þá. Ráðherra hefur enga leiðbeiningu frá Alþingi um það hvernig verðleggja eigi þessi verðmæti.

Menn tala oft um einkavinavæðingu í sambandi við breytingu á rekstri fyrirtækja í ríkiseigu í einkaeigu. Þetta er ekki einkavinavæðing sem hér á sér stað. Um er að ræða valdaafsal til ráðherra þannig að ráðherra getur ef honum dettur í hug gert slíka samninga við aðila sem hann velur án þess að nokkur hafi hugmynd um fyrr en samningunum er lokið.

Hæstv. forseti. Ég er ekki að gera því skóna að þetta sé vilji þess hæstv. ráðherra sem nú situr. Ég er heldur ekki að gera því skóna að hún muni beita þessu valdi með þessum hætti. Um það hef ég ekki hugmynd. En þarna er verið að setja lög sem væntanlega munu eiga við fleiri iðnrh. en þann iðnrh. sem nú situr í stólnum. Með þessu er verið að opna fyrir mjög varhugaverða spillingarhættu í meðferð þessa valds sem felst í því að Alþingi er að ákvarða að selja iðnrh. sjálfdæmi um hvernig hann ber sig að við á útleigu á heimildum til nýtingar á sameiginlegum auðlindum á hafsbotni. Hann þarf ekki að auglýsa það. Hann þarf ekki að leita eftir umsóknum. Hann þarf ekki að fara í útboð og taka hagkvæmasta eða lægsta tilboði. Honum er ekki uppálagt að setja nein skilyrði um eitt eða neitt til þess aðila sem hann kann að semja við. Honum eru engar reglur settar. Hann hefur einfaldlega sjálfdæmi um það hvaða aðila hann velur, hvaða leyfi hann veitir og á hvaða verði hann leigir umræddar heimildir. Þetta er ekki lagasetning, hæstv. forseti, sem stenst kröfu í nútímasamfélagi. Það hefur enginn ráðherra og enginn stjórnmálaflokkur gott af því að fá slíkt vald í hendur og ég veit ekki til þess að í öðrum stjórnvaldsathöfnum hafi ráðherrar svona frjálsar hendur um beitingu valds eins og þarna er verið að gera ráð fyrir.

Þetta leyfi ég mér að gagnrýna, herra forseti. Þetta gengur ekki. Það gengur ekki að Alþingi veiti svo opið vald til ráðherra til að gera það sem honum dettur í hug, við það sem honum dettur í hug, fyrir þá sem honum dettur í hug og á því verði sem honum dettur í hug. Slíkt valdaframsal og vald til skattlagningar samrýmist ekki reglum í nútímaþjóðfélagi og slíkt valdaafsal Alþingis til ráðherra, að gefa ekki einu sinni leiðbeiningar um hvernig með skuli fara á ekki við á þeirri öld, sem við lifum á núna, svona gera menn ekki, hæstv. forseti.