Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:03:00 (6230)

2000-04-07 17:03:00# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algerlega rangt. Þegar ég var í iðnrn. samdi ég frv. um þjóðareign á landi og landgæðum og auðlindum hafsbotns þar sem gert var ráð fyrir því að þjóðin fengi réttmætt endurgjald fyrir það þegar einstaklingar nýta þessar auðlindir. (Iðnrh.: En olíuleit?) Það var líka í því. Hins vegar tókst ekki að ná stuðningi frá þáv. samstarfsflokki mínum til að málið yrði flutt. Þetta var að ég held fyrsta þingmál mitt og félaga minna eftir stjórnarslit þannig að það er ekki rétt að sá sem hér stendur hafi ekkert gert í málinu.

Það er líka rétt að verði þetta frv. samþykkt og komi ekki aðrar lagabreytingar til hefur iðnrh. heimild til þess að semja við hvern sem er um hvað sem er um nýtingu auðlinda hafsbotnsins fyrir hvaða verð sem er, þar á meðal vegna olíuleitar. Hæstv. iðnrh. viðurkenndi réttmæti þess sjálfur hér áðan því að hún sagði að frv. væri í smíðum til að takmarka þennan rétt hennar. En það frv. verður ekki að lögum á þessu þingi. Það sem verður að lögum á þessu þingi er það frv. sem er verið að leggja fram. Miðað við að það verði samþykkt eins og það er, hefur iðnrh. hvað sem hann heitir, hvort sem hann heitir Valgerður Sverrisdóttir eða Sighvatur Björgvinsson, þann rétt að semja við hvaða fyrirtæki sem er um olíuleit við Ísland á hvaða verði sem er. Til þess að koma í veg fyrir það þarf að samþykkja önnur lög sem hafa ekki enn verið smíðuð þannig að hvert einasta atriði sem ég hef sagt í þessum umræðum er rétt. Hvert einasta atriði.