Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:11:05 (6232)

2000-04-07 17:11:05# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal nefndi að enginn hefði hag af því að kanna hafsbotninn. Ég er þessu fullkomlega ósammála. Auðvitað hefur ríkið hag af því að skoða hvort e.t.v. sé um ríkan hafsbotn að ræða, ríkan í meiningunni að þangað megi sækja olíu og verðmæti eins og hefur gerst í lögsögu Norðmanna og er verið að búast við að unnt sé í lögsögu Færeyja. Skyldi okkur veita af með öll þau verkefni sem við sífellt erum að ræða um að við þurfum að fjármagna?

Ég kem hins vegar hingað upp út af orðum hv. þm. um að eyða öllu í rannsóknir. Auðvitað snúast viðhorf manna til gjalda um það hvort menn reikna með svo takmörkuðum tekjum að þær dugi varla eða eingöngu til tengdra rannsókna eða hvort verið er að fjalla um að um þau verðmæti sé að ræða að hægt sé að gera ráð fyrir meiri tekjum en eingöngu að standa undir rannsóknum og þá erum við farin að tala um gjald í allt annarri meiningu.

Ég ætlaði bara að koma upp og nefna að auðvitað er sjálfsagt hjá okkur í nefndinni að skoða þessi mál vel, ekki síst ábendingar hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem var talsmaður Samfylkingarinnar í umræðunni, og um sjálfs\-ákvörðunarrétt ráðherra og fara yfir það og aðra þá þætti sem upp kunna að koma. Að sjálfsögðu höfum við hag af því að kanna hafsbotninn og kanna hvort það eru möguleikar á að gera samninga við þá aðila sem geta unnið þau verðmæti sem kunna að finnast á hafsbotni okkar.