Eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:14:58 (6234)

2000-04-07 17:14:58# 125. lþ. 95.25 fundur 524. mál: #A eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins# (gjaldtökuheimild o.fl.) frv. 101/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:14]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði fyrr á fundinum og ég vil hvetja iðnn. til þess að fara vandlega yfir málið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvort hún telji sig hafa heimildir samkvæmt þessum lögum til að bjóða út framkvæmdir af þessu tagi, t.d. rannsóknir eða nýtingu á einhverjum auðlindum á hafsbotni. Mér finnst mjög mikilvægt að fá svar við þessu vegna þess að það hafa ekki fundist aðrar leiðir til að finna út hverja eigi að velja þannig að menn geti verið sáttir við það að val á þeim aðilum sem taka sér verkefni hafi farið eðlilega fram. Ef það er niðurstaðan, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði, að ekki væri hægt að láta fara fram slíkt val á grundvelli þessara laga þarf nefndin að skoða það mjög vandlega hvort ekki beri að breyta þessum ákvæðum.

[17:15]

Ég hjó eftir því sem hæstv. ráðherra sagði að það þyrfti að samræma og þetta væri gert til þess að samræma gjöld, það yrði að vera hægt að innheimta gjöld af hafsbotninum eins og gert er á landi, og ég skal taka undir það. En þegar kom að samræminu í því að innheimta gjöld af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar þar sem þær væru niður komnar annars staðar yfir hafsbotninum, í lífríkinu, þá var ég ráðherranum ekki sammála og það var kannski það sem fékk mig til að biðja um orðið.

Hæstv. ráðherra svaraði því til í andsvari að afkoma útgerðarinnar væri ekki þannig í dag að hægt væri að tala um einhvern auðlindaskatt eða veiðileyfagjald eða eitthvað slíkt á útgerðina. Mér verður á að spyrja: Hvað hafa menn verið að gera allan þennan tíma með besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi ef ekki er hægt að innheimta neitt gjald af útgerðinni í dag? Og hvað varð til þess að Hæstiréttur kvað upp þann dóm sem birtur var í gær og var rökstuddur með því að stjórnvöld þyrftu á því að halda að geta komið þeim málum útgerðarinnar fyrir með tilliti til þess að sem mestur hagnaður og arður yrði af þessari auðlind og þar með af útgerðinni? Útgerðin er ekki umkomin neins í dag. Hún hefur ekki verið þess umkomin að borga neins konar gjöld undanfarin ár. Þetta er atvinnuvegur sem hefur verið á framfæri ríkisins hvað varðar rannsóknir og annað því um líkt og aðgang að þessari auðlind alveg fram á þennan dag. Það vita menn. En menn hafa lifað í voninni með að það kæmi að þeim degi að það snerist við.

Það hefur verið þvílíkt tap á útgerð á undanförnum árum að það hefur allt nýst til þess að koma í veg fyrir að skattar rynnu í ríkissjóð af útgerð á síðustu árum og mun gera það áfram og hæstv. ráðherra virðist enga von sjá. En svona er ástandið. Útgerðin hefur ekki efni á að borga fyrir aðgang að auðlindinni. Gott og vel. Tillögur okkar í Samfylkingunni í þessu máli eru þær að útgerðin muni aldrei borga meira en hún hefur efni á vegna þess að útgerðin mun ákveða sjálf hve hátt gjaldið verður á markaði. Þannig þyrfti það líka að vera hvað varðar þær auðlindir sem verið er að tala um hér og þá leysa menn bæði vandamálin, það vandamál hver eigi að fá að nýta sér auðlindina og líka hve hátt gjaldið eigi að vera. Það þarf að gera breytingar á þessu frv. sem verða til þess að hæstv. ráðherra geti látið fara fram útboð á þeim réttindum og auðlindum sem þarna er um að ræða. Það er bara eðlilegt og það er aðferð sem allir atvinnurekendur á Íslandi kunna og hafa tekið þátt í allan tímann sem þeir hafa verið í atvinnurekstri. Það er ekki eins og hægt sé að líta á þetta sem einhvers konar arðræningjatæki. Þetta er viðskiptaaðferð sem menn hafa þróað og notað í gegnum tíðina og er ekkert að því að nýta sér slíka hluti.

Ég tel að það eigi fullan rétt á sér í umræðunni að benda á þetta og ég fer fram á það, því að ég tek svo sannarlega undir þau orð sem standa hérna neðst í athugasemdum við lagafrv. ,,Hlýtur það að teljast eðlilegt að ríkisvaldið krefjist gjalds fyrir nýtingu þessara sameiginlegu auðlinda þjóðarinnar.`` Svo sannarlega. En það á líka við um allar auðlindir þjóðarinnar að mynda þarf jafnan rétt þeirra sem vilja taka að sér að nýta auðlindirnar til að fá þessi verkefni, til að verða fyrir valinu og þeir hæfustu eiga að fá tækifærin. Það á ekki að leggja það á hæstv. ráðherra að velja úr einhverjum hópi manna eftir öðrum aðferðum eða leiðum.

Ég tel að hæstv. ráðherra ætti að velta því vandlega fyrir sér hvort þetta eigi nú ekki við um allar auðlindir og ekki bara skelina eftir að hún er dauð heldur líka á meðan hún er lifandi.