Ráðuneyti matvæla

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 17:28:44 (6236)

2000-04-07 17:28:44# 125. lþ. 95.50 fundur 536. mál: #A ráðuneyti matvæla# þál., Flm. KA (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[17:28]

Flm. (Katrín Andrésdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að kannað verði hvort breyta skuli landbrn. í matvælaráðuneyti, ráðuneyti matvæla og landbúnaðar. Þetta er 536. mál þingsins á þskj. 837 og flm. ásamt mér eru Lúðvík Bergvinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigríður Jóhannesdóttir.

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að vitna í ræðu hæstv. landbrh., Guðna Ágústssonar, sem hann flutti á nýafstöðnu búnaðarþingi, með leyfi forseta:

,,Ég get ekki leynt þeirri skoðun minni að mér finnst hreinleikaímynd íslensks landbúnaðar hafa beðið hnekki síðustu mánuði. Við höfum allt frá upphafi skipulegs eftirlits í landbúnaði lagt sóma okkar í að útrýma sjúkdómum, gæta að dýravelferð og bjóða heilnæma gæðavöru. Það hefur fallið móða á þessa mynd. Hver uppákoman eltir aðra og landbúnaðurinn er kominn í vörn. Hvers vegna er þetta að gerast?

Enn fremur sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,En þessi atvik hafa vakið umræðu um eftirlitskerfi með landbúnaði og afurðum hans. Í ljós hefur komið að það er ekki nógu skilvirkt. Jafnvel höfum við orðið vitni að hinum ótrúlegustu atvikum þar sem eftirlitsaðilar bera hver annan sökum í fjölmiðlum. Þessar deilur sýndu betur en margt annað að kerfið brást. Það brást bændum og það brást neytendum. Það má ekki koma fyrir aftur.

[17:30]

Herra forseti. Það vill svo til að ég er ein af þeim eftirlitsaðilum sem staðið hafa í eldlínunni á Suðurlandi síðustu mánuði og ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að kerfið er ekki nógu skilvirkt. Hreinleikaímynd íslensks landbúnaðar verður að byggjast á einföldu og skilvirku eftirliti með öllum þáttum framleiðslunnar. Gæðastaðlar verða að vera sambærilegir því sem best gerist erlendis svo íslenskir neytendur geti treyst því að landbúnaðarafurðir okkar séu jafngóðar og helst betri en erlendar landbúnaðarafurðir.

Herra forseti. Dýraverndarmál eru viðkvæm mál sem leysa þarf bæði hratt og hljóðlega. Í dag heyra þessi mál undir tvö ráðuneyti og svo sérkennilega vill til að forðagæslulög sem heyra undir landbrn. taka þó betur á málum en dýraverndarlög umhvrn. Ef forðagæslulög taka aðeins til dýra, sem fóðruð eru til afurða, og aðili sem vanfóðrar hross, kýr og kindur sveltir hundinn líka þá heyrir hundurinn beint undir umhvrn. en allar hinar skepnunnar fara í gegnum ferli forðagæslunnar áður en kemur til kasta dýraverndarráðs umhvrn. Þessu verður að breyta svo hægt sé að meðhöndla dýraverndarmál þannig að dýrin líði ekki að óþörfu fyrir torfæra málsaðferð.

Herra forseti. Ályktunin hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort breyta skuli landbúnaðarráðuneyti í matvælaráðuneyti, ráðuneyti fyrir matvæli og landbúnað. Sérstaklega verði hugað að kostum þess og göllum að gera slíka breytingu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins með hliðsjón af þörfum fyrir samræmt eftirlit með matvælum frá haga til maga, enn fremur hvort allt eftirlit með dýrahaldi skuli færast undir sama ráðuneyti.``

Eins og fram kemur í greinargerð gaf ESB í janúar sl. út svokallaða ,,Hvíta bók`` sem fjallar um hvernig matvælaeftirliti verði best fyrir komið í ESB-löndum í framtíðinni. Áhersla er lögð á að matvælaeftirlit skuli heyra undir eitt ráðuneyti, eina stofnun og ein lög, eftirlitið skuli vera samræmt allt frá hafi og haga til maga. Danir eru að þessu leyti lengst á veg komnir með stofnun ráðuneytis matvæla, landbúnaðar og fisks, Fødevareministeriet. Í Danmörku hefur allt eftirlit á vegum sveitarfélaganna verið fært til ríkisins.

Í nýju matvælaráðuneyti yrði allt matvælaeftirlit fellt undir eina stofnun undir stjórn yfirdýralæknis. Yfirdýralæknisembættið hefur nú umsjón með miklum hluta innlendra landbúnaðarafurða og sjúkdómavörnum dýra en ýmsir dýrasjúkdómar geta verið hættulegir mönnum. Við innflutning á hráum matvælum þarf einnig að gæta að ýmsum atriðum sem varða heilbrigði fólks.

Eftirlit með dýrum og landbúnaðarafurðum heyrir nú að mestu leyti undir landbúnaðarráðuneyti en einnig undir umhverfisráðuneyti. Þetta getur valdið ýmsum vandkvæðum, nærtæk dæmi eru salmonellu- og kampýlóbakter-vandamálin, en þar hefur samstarf ýmissa stofnana ekki alltaf gengið sem skyldi. Vandamál sem þessi eiga yfirleitt upptök í landbúnaði og eðlilegast að leysa þau innan stofnunar undir stjórn yfirdýralæknis.

Það torveldar mjög meðferð mála ef grunur leikur á um illa meðferð dýra að forðagæsla heyrir undir landbúnaðarráðuneyti en dýravernd undir umhverfisráðuneyti. Málin geta jafnvel orðið svo flókin að hrossin á bænum heyra undir landbúnaðarráðuneytið en hundarnir undir umhverfisráðuneytið. Hér er brýn þörf á samræmingu í löggjöf og stjórnsýslu og eðlilegast að þessi mál séu á vegum eins ráðuneytis.

Nauðsynlegt er að koma á skipulagi sem hefur að leiðarljósi að gera eftirlit með matvælum og búfjárhaldi einfaldara og skilvirkara. Eftirlitið verður einnig að samræmast kröfum um matvælaeftirlit í helstu útflutningslöndum okkar, bæði austan hafs og vestan og njóta viðurkenningar erlendra yfirvalda.

Herra forseti. Ég treysti því að tillagan fái jákvæðar undirtektir í þeirri þingnefnd sem fær málið til umfjöllunar.