Stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:11:32 (6247)

2000-04-07 18:11:32# 125. lþ. 95.27 fundur 530. mál: #A stofnun hlutafélags um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum# frv. 98/2000, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem viðbrögð við því sem kom núna fram síðast hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hvort mér finnist eðlilegt að einn tiltekinn ráðherra fari með þetta vald að ákveða hverjum væri selt, hvernig og á hvaða verði þá er málið reyndar ekki þannig í framkvæmd að einn ráðherra ákveði þetta allt saman. Eins og kom fram í framsöguræðu minni talaði ég um ríkisstjórnina í þessu sambandi. Hv. þm. sem er nokkuð áhugasamur um einkavæðingu eða a.m.k. að fylgjast með einkavæðingu hlýtur að vera minnugur þess að starfandi er nefnd innan ríkisstjórnar sem fjallar um mál sem þetta. Auk þess lét ég þess getið að einkavæðingarnefnd mundi koma að málinu ef selt yrði á hefðbundinn hátt.

Ég vil halda mig við það sem ég hef sagt áður að mér finnst koma til greina að selja bátaábyrgðarfélögunum fyrirtækið á lægra verði ef félögin koma sér saman um að gera tilboð vegna sögunnar. Það hefur þótt eðlilegt áður þegar þetta mál hefur verið til umfjöllunar á Alþingi að taka tillit til bátatryggingafélaganna á þennan hátt og ég er alveg sammála því.