Suðurnesjaskógar

Föstudaginn 07. apríl 2000, kl. 18:27:00 (6254)

2000-04-07 18:27:00# 125. lþ. 95.49 fundur 390. mál: #A Suðurnesjaskógar# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 125. lþ.

[18:27]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Málið sem hér er hreyft er mjög áhugavert. Ásamt frsm. og öðrum standa tveir þingmenn Samfylkingarinnar að því, hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir og Lúðvík Bergvinsson. Þetta mál nýtur vitanlega stuðnings í Samfylkingunni og ég vil taka það sérstaklega fram.

Þetta mál er hins vegar mjög sérstakt. Þessi tillaga um Suðurnesjaskóga, landshlutabundið verkefni um landgræðslu og skógrækt á Suðurnesjum, er öðruvísi en önnur skógræktarverkefni. Ég kem kannski að því síðar. Fyrir utan að vera öðruvísi en á þeim svæðum sem hingað til hefur verið ákveðið að ráðast í landshlutabundin verkefni um skógrækt þá tengist það jafnframt öðru máli sem verið hefur vandamál hér á svæðinu, svæðinu sem við köllum oft landnám Ingólfs. Það er lausaganga búfjár.

Lausaganga búfjár hefur verið vandamál hér, torveldað uppgræðslu og haft þau áhrif að þyngra hefur verið undir fæti með landgræðslu og uppgræðslu en vera þyrfti. Sjálf hef ég nokkrum sinnum flutt hér á þingi tillögu um bann við lausagöngu búfjár í landnámi Ingólfs ásamt nokkrum þingmönnum úr öðrum flokkum. Það mál náði ekki stuðningi til að verða afgreitt héðan af þinginu og þá má segja að nokkur okkar hafi gripið til annarra ráða og ákveðið að gera tilraun frá öðrum sjónarhóli, ef hægt er að orða það svo. Við tókum þátt í að búa til uppgræðsluverkefni með samtökunum Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs. Hugsunin þar var að hvetja til umbóta í landnáminu, sérstaklega þá á Reykjanesinu. Við þingmenn Reykjaness vitum að þetta merkilega kjördæmi spannar eiginlega alla atvinnuhætti í landinu og er eins og smækkuð útgáfa af landinu öllu hvað atvinnuhætti varðar. Við höfum sjávarsíðuna suður með sjó og norður úr og síðan sveitina í norðri og gerum okkur grein fyrir því að staðan er ekki sú sama á Reykjanesinu og norðar í landnáminu.

[18:30]

Þess vegna höfum við ákveðið að reyna að hvetja til þess að menn hætti sjálfviljugir að vera með lausagöngu búfjár og verði fyrir hvatningu til þess af hálfu allra þeirra sem hafa bundist böndum til þess að gera átak í skógrækt og gróðurmálum svæðisins. Þess vegna hafa samtökin ,,Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs`` náð fádæmaárangri, leitað samstarfs við sveitarstjórnir, hjá fyrirtækjum í öllu kjördæminu og meðal einkaaðila og einstaklinga og mikill fjöldi styður þetta verkefni og leggur því lið. Það er mikill árangur strax á þeim svæðum sem þar sem Gróður fyrir fólk hefur beitt sér. Það er hins vegar þannig að á ákveðnum svæðum í kjördæmi okkar er enn þá lausaganga og það verður að vinna bráðan bug á henni til að ná árangri eins og talað er um.

Af því ég er að nefna Gróður fyrir fólk þá hafa þeir myndað net milli aðila, milli sveitarfélaga, atvinnulífs, einstaklinga og umhverfisgeirans og sem er mjög mikils virði og sem gagnast mjög í verkefni eins og því sem þarna er á ferðinni. Þeir hafa yfir að ráða sérþekkingu og það er mjög mikilvægt að draga þá inn í eða jafnvel fela þeim verkefni af þessum toga. Þetta vil ég endilega taka fram í framsögu minni og þátttöku í umræðu um þetta mál.

Segja má að Gróður fyrir fólk sé dæmigert áhugafélag, eða eins og oft er kallað NGO og bæði í Ríó-samkomulaginu og Agenta 21, þá er lagt mikið upp úr því að svona NGO-samtök komi inn í verkefnin á umhverfissviði og að það sé ekki bara ríkið, heldur séu virkjaðir allir fyrir utan sem vilja gera átak í þessum efnum. Samtökin hafa bæði kraft og kunnáttu. Það er mjög mikilvægt að í öllu sem við erum að leggja til þá pössum við að búa ekki til samkeppnisfyrirbæri við það sem þegar er heldur eitthvað sem byggir saman, tengist eða jafnvel fá þessa aðila til þess að koma og vera með eða leiða verkefni eins og þetta, sérstaklega af því þessi samtök Gróður fyrir fólk hafa innan raða sinna feikilega hæfa sérfræðinga. Þar er fólk sem vinnur fyrst og fremst sem áhugafólk en hefur sérþekkingu og er að vinna í sínu starfi og út á sérþekkingu sína að málum af svipuðum toga.

Ef einhver von er til þess að tillaga af þessum toga gæti verið samþykkt, hún er að vísu seint fram komin, aðeins mánuður til þingloka, en ef það færi svo að við vinnu í landbn. kæmust menn að þeirri niðurstöðu að vilja samþykkja tillöguna þá finnst mér að landbn. eigi að hafa skoðun á því hvernig starfshópurinn eigi að vera og það sé afdráttarlaust þannig að það eigi að nýta þessa þekkingu samtakanna og það eigi tengja saman það sem verið er að gera.

Í greinargerðinni er bent á hvað landsvæði, sem græða þarf upp, þarf mikið til að ná þeirri gróðurþekju sem áður var á Suðurnesjum, að svæðið allt nemur tugum þúsunda hektara og þarna yrðu ræktuð skjólbelti, kjarrgróður og nytjaskógar, allt eftir aðstæðum. Þá vil ég taka sérstaklega fram að það er mjög mikilvægt í átaki af þessu tagi að reyna ekki að búa til útlönd, að halda okkur við það sem er íslenskt og það sem styður undir þá stórkostlegu fegurð í landslagi okkar og eins og hún er á Suðurnesjunum, fremur hrá og hrikaleg, með mikið aðdráttarafl, að það sem verður gert, byggi undir það.

Það er mjög fátt sem hefur gengið að rækta á Reykjanesi og það er rétt sem hér kemur fram að það er helst íslenskt birki. Það eru þessar harðgerðu kjarrplöntur og þess vegna verða aldrei stórir skógar hér eins og menn sjá þá fyrir sér. Svo er það líka mjög mikilvægt sem bent er á varðandi landgræðslu og skógrækt, í tengslum við loftslagssamninginn, að menn hafa of lítinn gaum gefið að því að öll ræktun skiptir þarna máli, það er ekki bara skógur eins og menn hafa séð fyrir sér, heldur ræktun, bara jafnvel lágvaxinn gróður vegur feikilega þungt í því efni að binda koltvísýring og styðja við það verkefni sem við eigum fram undan varðandi loftslagssamninginn.