Lífsýnasöfn

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 16:02:33 (6265)

2000-04-10 16:02:33# 125. lþ. 96.18 fundur 534. mál: #A lífsýnasöfn# frv. 110/2000, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær góðu umræður sem hér hafa orðið um frv. og almennan vilja manna til að það nái hratt fram að ganga. Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið að margir hafa komið að þessu máli og margir lagt mikla vinnu í það frv. sem hér liggur fyrir. Það er mjög mikilvægt að engin tortryggni hvíli þegar mál sem þetta er lagt fram og svo er ekki. Ég hef ekki fengið margar spurningar, aðallega varðandi þá kynningu sem ætti að verða á frv. Í 13. gr. frv. kemur fram að gert er ráð fyrir að þetta mál, ef af lögum verður, verði sérstaklega kynnt. Og í athugasemdum með frv. kemur einnig fram hver sér um það, en það er landlæknir sem mun sjá um kynningu á málinu. Það verður því allt saman lögfest ef fer sem horfir.

Mér finnst þetta svara þeim spurningum sem fram hafa komið. Það komu einmitt spurningar þessu tengt frá hv. þm. Þuríði Backman. Ég endurtek ánægju mína og þakkir fyrir góðar móttökur á málinu.

En varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur um 17. gr., að henni finnst vera slegið saman tveim lagabálkum, þá er það út af fyrir sig ekki óvenjulegt að slíkt gerist, en ef mönnum sýnist svo í hv. heilbr.- og trn. að rétt sé að hafa þetta tvískipt, þá hef ég ekki neinar athugasemdir við það.