Sjúklingatrygging

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 16:15:13 (6267)

2000-04-10 16:15:13# 125. lþ. 96.19 fundur 535. mál: #A sjúklingatrygging# frv. 111/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þetta frv. skuli komið fram, frv. til laga um sjúklingatryggingu. Ég hef í tvígang, ásamt hv. þm. Margéti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni, flutt hér þáltill. um endurskoðun á reglum um sjúklingatryggingu. Hún var fyrst flutt á 122. löggjafarþingi og síðan aftur á 123. löggjafarþingi. Sem fskj. með þeirri þáltill. var frv. sem hæstv. ráðherra vitnaði til að verið hefði grunnurinn að vinnunni að frv. því sem hér er til umræðu.

Á 113. löggjafarþingi kynnti þáv. heilbr.- og trmrh., Guðmundur Bjarnason, frv. til laga um sjúklingatryggingu sem Arnljótur Björnsson, þáv. prófessor, hafði samið að beiðni ráðherra. Hann hafði byggt það á danska lagafrv. um sjúklingatryggingu sem síðan varð að lögum þar. Eins og fram kemur í þessu þingskjali eru ákvæði um sjúklingatryggingu á hinum Norðurlöndunum, þær gengu í gildi í Noregi 1988, í Danmörku 1992 o.s.frv. En samkvæmt upplýsingum í þessu þingskjali hefur í þessu frv. verið fetað í fótspor Svía og Finna en sjálfsagt byggt að einhverju leyti á löggjöfinni á Norðurlöndum.

Við sem töldum að sjúklingatrygging væri löngu tímabær hér á landi lögðum í tvígang til að heilbr.- og trmrh. gerði úttekt á reglum um sjúklingatryggingu hér á landi og í kjölfarið yrðu lagðar fram tillögur sem miðuðu að réttarbótum á þessu sviði. Þær mundu lúta að því að skaða- og miskabætur væru greiddar þeim sem yrðu fyrir líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, dvalarstofnun fyrir sjúklinga eða heilsugæslustöð. Leið sjúklinga til að sækja rétt sinn átti að einfalda og koma þannig í veg fyrir fjölda dómsmála.

Það hefur komið fram á undanförnum árum að málefni þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir læknamistökum hafa ekki verið í nógu góðu horfi, sérstaklega þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir tímabundinni eða varanlegri örorku vegna rannsókna eða meðferðar á heilbrigðisstofnunum. Það hefur mikið verið kvartað yfir seinagangi í kerfinu, erfiðleikum við að afla gagna, erfiðri sönnunaraðstöðu, lágum bótum o.s.frv.

Ákvæðið í almannatryggingalögunum, í 24. gr. í lögum nr. 117/1993, um slysatryggingu sjúklinga sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum, var eins og hæstv. ráðherra sagði bráðabirgðaákvæði í lögunum áður en komið var á sérstakri sjúklingatryggingu. Það verður að segjast eins og er að þetta ákvæði hefur ekki tryggt nægilega réttarstöðu þeirra sem undir það hafa fallið. Það var löngu tímabært að taka á þessum þætti.

Við kynntum okkur hvernig þessum málum var komið í Danmörku áður en við lögðum fram okkar þingmál á sínum tíma. Við töldum að í Danmörku væru þau mál til fyrirmyndar og lögðum til að þau yrðu höfð að leiðarljósi við lagasetninguna. Í þeim lögum sem fyrst tóku gildi 1992 í Danmörku og gerðar hafa verið nokkrar breytingar á síðan er tryggt að sjúklingur eða aðstandandi látins sjúklings eigi rétt á skaðabótum vegna afleiðingar rannsóknar eða meðferðar á sjúkrahúsum. Þau lög taka einnig til þeirra sem hafa tekið þátt í tilraunum, blóð, sæðis og líffæragjöf og orðið fyrir líkamstjóni við meðferð á sjúkrahúsi. Síðan hafa Danirnir víkkað út löggjöfina og aukið rétt sjúklinga til skaðabóta vegna afleiðinga rannsóknar og meðferðar á sjúkrahúsum. Þar er nú unnt að fá greiddar skaðabætur án þess að sannað sé að um mistök læknis hafi verið að ræða. Að sjálfsögðu þarf ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögunum að vera fullnægt til að bótarétturinn verði virkur.

Ákvæði dönsku laganna hafa það einnig í för með sér að mun einfaldara og fljótlegra er að leita réttar síns. Það er mjög algengt að menn setji fyrir sig löng og erfið réttarhöld þegar menn verða fyrir skakkaföllum eða mistökum á sjúkrahúsum eða sjúkrastofnunum. Í Danmörku eru einnig frekari úrræði ef unnt er að rekja líkamstjón til lyfja. Ég hef einmitt skoðað þetta frv. með tilliti til þess og hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. ráðherra í hvaða tilvikum menn teljast tryggðir þegar um lyf er að ræða, ef læknir hefur t.d. ávísað sjúklingi röngum lyfjum. Hvaða tryggingu hafa sjúklingar gegn slíkum mistökum? Nú þekkir maður nokkur tilvik um að fólk telur sig hafa misst heilsuna vegna rangrar lyfjagjafar. Ég hef verið aðeins að skoða þetta en átta mig ekki alveg á því í þessu frv. hvort sjúklingur telst tryggður í slíkum tilvikum.

Ýmis löggjöf hér á landi hefur verið í þá veru að bæta hlut þeirra sem leita réttar síns vegna þess að þeir telja sig hafa orðið fyrir skakkaföllum, ég minni á skaðabótalögin frá árinu 1993 og síðan auðvitað lögin um réttindi sjúklinga sem tóku gildi 1997. En í nokkrum fyrirspurnum sem lagðar voru fyrir þingið 1997, um læknamistök, þ.e. mistök við læknisverk hér á landi, kom í ljós hvernig ástandið hefur verið í þeim efnum.

Það kom fram í fyrirspurn sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir beindi til hæstv. heilbrrh. að fjöldi mála á því tímabili sem spurt var um, þ.e. frá 1990--1997 hefði aukist úr nokkrum tugum í að vera u.þ.b. 250 mál á ári. Þar eru meðtaldar allar kvartanir og kærur sem bárust landlæknisembættinu en undanþegin mál sem afgreidd voru í gegnum síma. Það kom líka fram í því svari að fjöldi þeirra sem telur sig hafa orðið fórnarlömb læknamistaka leggur ekki í málarekstur, bæði vegna mikils kostnaðar og annars álags sem því fylgir. Þess vegna er brýnt að þingmál sem þetta komi fram. Þetta er nokkuð langt og flókið mál sem fara þarf í gegnum í þingnefndinni. Þarna er nokkur nýlunda á ferðinni.

Skipulag og fjármögnun sjúklingatrygginga er útskýrð á bls. 12 í þingskjalinu og bent á að allir sem veita heilbrigðisþjónustu innan stofnana sem utan beri bótaábyrgð. Þar er gert ráð fyrir að bótaskyldir aðilar verði tryggðir með vátryggingu, þ.e. sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi. Það er sama fyrirkomulag og á Norðurlöndunum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara nánar í frv. núna, við eigum eftir að skoða þetta mál í nefndinni og fara í gegnum ýmsa þætti þess. En ég hefði gjarnan viljað fá aðeins nánari útskýringar frá hæstv. ráðherra um réttindin vegna lyfjanna. Það var nýlunda í dönsku lögunum þegar við fluttum þingmál okkar, en ég fagna því að ráðist hafi verið í þá vinnu sem við lögðum til í þáltill. okkar á síðasta kjörtímabili. Hér er sem sagt komið frv. um sjúklingatryggingu og ég get ekki séð annað en að það sé verulega til bóta fyrir alla þá sem bera skaða af veru sinni á heilbrigðisstofnun.