Samvinnufélög

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 16:55:43 (6273)

2000-04-10 16:55:43# 125. lþ. 96.23 fundur 531. mál: #A samvinnufélög# (rekstrarumgjörð) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[16:55]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 22/1991, um samvinnufélög, með síðari breytingum, sem er á þskj. 832. Samhliða þessu frv. mun ég mæla fyrir öðru frv. til laga um breytingu á lögum um samvinnufélög og snertir það frv. innlánsdeildir félaganna. Þá mun fjmrh. í tengslum við frv. þetta mæla fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Með frv. eru í stuttu máli gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum sem snerta rekstrarumgjörð samvinnufélaganna. Markmið þess er að auka möguleika samvinnufélaga á að bregðast við breyttum aðstæðum.

Meginefni frv. er að heimila hækkun séreignahluta félagsaðilanna til að stofnsjóðir samvinnufélags endurspegli betur eigið fé félagsins og jafnframt að heimila lækkun A- eða B-deildar stofnsjóðs samvinnufélags þannig að opnað verði fyrir möguleika til að greiða út fé. Einnig er í frv. kveðið á um breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag og þá hvernig ákvörðun um breytinguna skuli taka.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða á vettvangi samvinnufélaga um skipulagsmál og framtíð félaganna. Þróun byggðar og atvinnurekstrar hefur sniðið samvinnufélögum þrengri stakk en áður og heimildir núgildandi laga til að afla fjármagns á markaði með útgáfu B-deildarhluta hafa ekki reynst samvinnufélögunum eins vel og ætlunin var. Nokkur samvinnufélög hafa þegar ákveðið að stofna hlutafélög um einstaka þætti í rekstri sínum til að bregðast við breyttum aðstæðum.

Nauðsynlegt hefur verið talið að færa samvinnufélögum auknar heimildir í lögum til að bregðast við þessum breyttu aðstæðum og auka samkeppnishæfni sína. Var skipuð nefnd til að gera tillögur um breytingar á ýmsum ákvæðum samvinnufélaganna varðandi rekstrarumgjörð félaganna. Jafnframt var tækifærið notað til að bæta við ákvæði um möguleika til slita á samvinnufélagi vegna vanskila á sendingu ársreikninga til samræmis við hlutafélagalöggjöf, leiðrétta millivísanir í lagagreinum og taka upp aðgreiningu endurskoðanda og skoðunarmanna.

Til að byggja upp eigendavitund í samvinnufélögum er í frv. gert ráð fyrir að félögunum verði heimilt að gera breytingar á stofnsjóði til hækkunar og lækkunar en jafnframt þarf að gera breytingar á skattalögum til að þetta verði kleift, m.a. þannig að hækkun séreignahluta félagsaðila teljist ekki til skattskyldra tekna.

Í þessu sambandi má benda á að í hlutafélagalöggjöf eru svipuð ákvæði um heimildir til hækkunar og lækkunar hlutafjár. Í frv. þessu er jafnframt gert ráð fyrir því, eins og áður segir, að unnt sé að breyta samvinnufélagi í hlutafélag og ákvæði eru sett til að auðvelda slíkt. Þótt samvinnufélagi yrði breytt í hlutafélag gæti það varðveitt ýmis einkenni samvinnufélags, t.d. í tilgangsákvæði samþykkta hlutafélags. Það er á valdi samvinnufélaga hvort þau nýta sér heimildir samkvæmt ákvæðum frv. ef það verður að lögum. Í fyrsta lagi er heimild til lækkunar fjár sem nokkuð hefur verið nýtt í hluta- og einkahlutafélögum ef ekki hefur verið talin þörf á eins miklu eigin fé og til er vegna rekstrar. Í öðru lagi er heimild til hækkunar fjár, t.d. vegna aukinna umsvifa. Í þriðja lagi heimild til að breyta samvinnufélagi í hlutafélag. Allt yrði þetta á valdi samvinnufélaganna. Reynt yrði að tryggja réttindi þeirra sem væru andvígir breytingu samvinnufélags í hlutafélag en þessu er öllu nánar lýst í frv.

[17:00]

Að því er varðar einstakar greinar frv. má taka fram að samkvæmt 1. gr. yrði samvinnufélagi sem breytt yrði í hlutafélag samkvæmt XII. kafla laganna um samvinnufélög heimilað að halda orðinu ,,kaupfélag`` óstyttu í nafni sínu þar eð slíkt getur tengst viðskiptavild félagsins. Í 2. gr. er einungis umskrifuð tilvísun í lagagrein.

Ákvæði 3. gr. frv. kveður á um hækkun séreignahluta í samvinnufélagi, hvers konar samþykki eigenda sé áskilið, afhendingu hækkunar með samvinnuhlutabréfum í B-deild stofnsjóðs félagsins og skiptahlutföll á hlutum. Stofnsjóðsinneignir félagsaðila í samvinnufélögum hafa rýrnað í áranna rás og eru þær nú einungis lítill hluti af eigin fé samvinnufélaga. Með þessari heimild er stefnt að því að skerpa eignarvitund félagsaðila þannig að hlutdeild í stofnsjóði endurspegli a.m.k. að einhverju marki eigin fé félagsins.

Varðandi hækkun stofnfjár er tekið mið af ákvæðum hlutafélagalöggjafar um hækkun hlutafjár m.a. um skattlagningu. Svo sem segir í athugasemdum við frv. mundi hækkun séreignahluta teljast til skattskyldra tekna hjá eigendum stofnsjóðs við endursölu samvinnuhlutabréfa sem þeim hafa verið afhent.

Í 4. gr. er fjallað um lækkun A- og B-deildar stofnsjóðs samvinnufélags, fundarboð, skilyrði fyrir töku ákvarðana í því sambandi, efni ákvörðunar og hvernig ráðstafa megi lækkunarfénu t.d. í greiðslu félagsmanna, svo og um birtingu áskorunar til kröfuhafa í Lögbirtingablaði og því um líkt. Svipuð ákvæði um lækkun eru í hlutafélagalöggjöfinni. Markmið með þessari heimild er að gefa samvinnufélögunum kost á að greiða út til félagsaðila eða eigenda hluta í B-deild fjármuni sem félagsmenn telja ekki ástæðu til að nýta í rekstri félagsins, t.d. þegar samvinnufélag hefur selt hluta af starfsemi sinni og ekki þykir ástæða til að nýta þá fjármuni sem fengist hafa við slíka sölu til annars reksturs félagsins.

Þá er með þessari heimild unnt að greiða út hlutafé í dótturfélagi samvinnufélags eða fella niður B-deild stofnsjóðs með því að greiða út alla hluti í deildinni.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir þremur nýjum greinum í samvinnufélagalögin og fjalla þær allar um breytingu samvinnufélags í hlutafélag. Kveðið er á um ákvarðanatöku í þessu sambandi, félagsfund, áætlun um breytinguna og efni áætlunarinnar þar sem m.a. er kveðið á um fjárhæð hlutafjár sem verði gagngjald fyrir endurmetinn stofnsjóð A-deildar og samvinnuhlutabréf B-deildar og reglu um skiptingu fjárins milli félagsmanna. Sérfræðiskýrslu þarf að leggja fram þar sem fram kemur mat á ýmsum fjármálalegum atriðum. Sérstök ákvæði eru sett til að tryggja hagsmuni þeirra sem greiða atkvæði gegn tillögu um breytingu samvinnufélags í hlutafélag og einnig eru ákvæði um það hvenær samvinnufélagi telst slitið og hlutafélag stofnað. Við breytingu á samvinnufélagi í hlutafélag renna öll réttindi og skyldur samvinnufélagsins til hluta félagsins.

Í 6. gr. er kveðið á um að vanskil á sendingu ársreikninga geti leitt til kröfu um slit á samvinnufélagi. Samsvarandi ákvæði eru í hlutafélagalöggjöf.

Í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir að notuð séu hugtökin endurskoðendur og skoðunarmenn eins og í lögunum um endurskoðendur og lögum um ársreikninga. Áður fyrr var talað um löggilta endurskoðendur og endurskoðendur og svo er reyndar enn í nokkrum lögum.

Í ákv. til brb. er fjallað um sérstakt endurmat sem samvinnufélagi er heimilt að framkvæma á séreignahlutum félagssaðila í A-deild stofnsjóðs fyrir árslok 2003. Komi til slíks endurmats yrði hækkun á séreignahlutum afhent félagsmönnum með samvinnuhlutabréfum í B-deild, stofnsjóðs félagsins. Þessi tillaga sækir að nokkru fyrirmynd sína til heimildar hlutafélaga og einkahlutafélaga til að gefa út jöfnunarhlutabréf og reikna út jöfnunarverðmæti útgefinna hluta og hlutabréfa.

Í kostnaðarumsögn kemur fram að ekki verði séð að frv. þetta hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.

Hæstv. forseti. Ég mæli með því að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.