Ábúðarlög

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:37:38 (6282)

2000-04-10 17:37:38# 125. lþ. 96.28 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál er um breytingu á ábúðarlögum og er nú til 3. umr. Ég vísa til brtt. hv. þm. Þuríðar Backman við frv. þar sem lögð er áhersla á að í fyrsta lagi sé ekki verið að gera íþyngjandi lagaákvæði við ábúðarskipti og sett séu mörk fyrir því hvað má miklu til kosta við að gera slíkar úttektir. Eins og frv. liggur nú fyrir af hálfu meiri hluta landbn. þá er þar alveg opinn reikningur varðandi kostnað og auk þess er verið að færa þetta mat á hendur tveggja manna sem eiga að sjá um það um allt landið. Það þýðir verulegan ferðakostnað og kostnaðarauka, það er alveg ljóst, og auk þess sem þetta er alveg opinn reikningur.

Ég tel að þetta sé afturför. Í fyrri lögum voru settar skorður við því hvað slíkt mat mætti kosta. Reynslan er sú að þegar þetta er orðið svona opið geta reikningarnir líka orðið opnir.

Í öðru lagi finnst mér það vera í litlu samræmi við þá stefnu gagnvart landsbyggðinni að færa þetta mat á hendur tveggja manna sem þá væntanlega yrðu staðsettir (Gripið fram í: Á Hólum.) --- já, það væri ágætt ef þeir yrðu staðsettir á Hólum en það liggur eiginlega miklu frekar fyrir að þeir verði staðsettir í Reykjavík. En hvað um það, þeir eru a.m.k. staðsettir á einum stað með miklum tilheyrandi ferðakostnaði í kringum landið. Það eru úttektarmenn og úttektarstarf er fyrir hendi víða úti um land á vegum sýslumannsembætta þar sem þeir gera m.a. landskipti og úttektir á jörðum með hæfni og hefði kannski frekar verið ástæða til að styrkja það.

Þriðja athugasemdin sem ég vil gera er að landbrh. setur reglurnar um hvernig meta skuli eignirnar til fjár, hann skipar úttektarmennina, bæði úttektarmennina sem gera úttektina og síðan líka yfirdóminn. Það hefði verið ástæða til að skoða að eitthvert annað stjórnsýslustig kæmi inn.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að mér finnst þetta frv., eins og hv. þm. Þuríður Backman hefur bent á, hefði átt að vinna mun betur og þá í samhengi við þær breytingar sem annars er verið að gera og þarf að vinna á bæði ábúðarlögum og jarðalögum.