Rafræn eignarskráning á verðbréfum

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:44:59 (6287)

2000-04-10 17:44:59# 125. lþ. 96.30 fundur 163. mál: #A rafræn eignarskráning á verðbréfum# (breyting ýmissa laga) frv. 32/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna tilkomu rafrænnar eignaskráningar á verðbréfum. Frv. þetta fjallar um breytingu á einum þrennum lögum.

Nefndin sendi málið til umsagnar og fékk umsagnir frá nokkrum aðilum sem getið er um í nál. Nefndin gerir tillögur um nokkrar breytingar á frv. og eru þær í fjórum liðum. Mun ég nú gera grein fyrir þeim tillögum sem nefndin gerir til breytinga á frv.

Í 1. lið brtt. er gert ráð fyrir að tvær nýjar greinar bætist við frv. Annars vegar er að hugtakið ,,efndalok`` verði skýrt og er skýringin sett fram á þskj. 966.

Í öðru lagi að inn komi ný grein sem segir: ,,Stjórn verðbréfamiðstöðvar skal veita hlutafélögum aðgang að upplýsingum í verðbréfamiðstöð um skráða eigendur hlutabréfa í viðkomandi hlutafélagi sem þar er eignarskráð.``

Í 2. lið brtt. er endurorðun á 1. gr. Þar er gert ráð fyrir að: ,,Seðlabanka Íslands er samkvæmt samningi við reikningsstofnun heimil veðtrygging í rafbréfum reikningsstofnunar til tryggingar á efndalokum er lúta að greiðsluuppgjöri í greiðslukerfum, sem viðurkennd eru ...``

Í 3. lið brtt. er gert ráð fyrir að komi ný grein sem hljóði svo: ,,Verðbréfamiðstöð er heimilt í aðildarsamningi, svo og reglum sem stjórn félagsins setur, að ákveða takmörkun eða lokun aðgangs að eignarskráningu þar vegna brota á aðildarsamningi eða reglum sem gilda um starfsemina. Telji stjórn verðbréfamiðstöðvar þess þörf getur hún í aðildarsamningi jafnframt kveðið á um refsiviðurlög í formi févítis standi reikningsstofnun ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt aðildarsamningi, enda varði brot ekki við 34. gr.``, þ.e. þessara laga.

Síðan er smávægileg orðalagsbreyting vegna skilgreiningar á húsbréfum. Er með henni kveðið skýrt á um að í auglýsingu um yfirfærslu eldri flokka húsbréfa í áþreifanlegu formi í rafbréf skuli koma fram hvaða húsbréfaflokka eigi að yfirfæra hverju sinni.

Hæstv. forseti. Nefndin skrifar öll undir þetta nál. og stendur að þessum brtt. og vonar að þær hljóti brautargengi.