Bifreiðagjald

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:48:30 (6288)

2000-04-10 17:48:30# 125. lþ. 96.31 fundur 219. mál: #A bifreiðagjald# (gjaldskylda, innheimta) frv. 37/2000, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:48]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. vegna frv. til laga um breyting á lögum um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

Nefndin hefur sent þetta mál til umsagnar nokkurra aðila og þeirra er getið í nál. Nefndin gerir tillögu til breytinga á frv. sem eru í 4 liðum:

Í fyrsta lagi er lagt til að felld verði niður gjaldskylda vegna fjórhjóla sem eru undir 400 kg að eigin þyngd, en slík ökutæki munu í öllum tilvikum vera skráð sem torfærutæki.

Í öðru lagi er umorðaður a-liður 4. gr. Þar er fyrst og fremst skilgreint betur hverjir eigi rétt á niðurfellingu á bifreiðagjaldi. Enn fremur er rétturinn rýmkaður út frá því sem lagt er til í frv. þar sem tekið er tillit til foreldra langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis. Lagt er til að hann verði sá sami og réttur foreldra langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru heima.

Í þriðja lagi er lagt til að fjmrh. feli tilteknum skattstjóra eða ríkisskattstjóra að annast álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna. Með þessu er opnað fyrir að framkvæmd laganna og álagning bifreiðagjalds geti að einhverju eða öllu leyti flust frá ríkisskattstjóra til einhvers skattstjóra. Nefndin vill að þetta mál verði skoðað þannig og helst yrði niðurstaðan sú að álagning gjaldsins flyttist til einhverrar skattstofu úti á landsbyggðinni til þess að styrkja starfsemina þar.

Loks er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins.

Enginn nefndarmanna skrifar undir þetta nál. með fyrirvara. Nefndin vonast til að þær brtt. sem hér hafa verið settar fram geti hlotið samþykki.