Bifreiðagjald

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 17:51:27 (6289)

2000-04-10 17:51:27# 125. lþ. 96.31 fundur 219. mál: #A bifreiðagjald# (gjaldskylda, innheimta) frv. 37/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum brtt. hv. efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um bifreiðagjald.

Eitt atriði vildi ég gjarnan koma inn á, herra forseti, og ég vildi leyfa mér að lesa upp úr brtt:

,,A-liður orðist svo: Bifreiðar í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrks, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins. Jafnframt eiga þeir öryrkjar sem notið hafa niðurfellingar skv. 1. málsl. rétt á niðurfellingu ef þeir hafa öðlast rétt til ellilífeyrisgreiðslna eða dveljast á stofnun. Sama rétt eiga foreldrar langveikra og fjölfatlaðra barna sem vistuð eru utan heimilis ef réttur til umönnunargreiðslna héldist óskertur væri barnið heima`` o.s.frv.

Herra forseti. Við erum ekki að ræða lög um almannatryggingar eða lög um aðstoð sveitarfélaga við þá sem eiga bágt. Við erum ekki að ræða um lög sem varða velferðarkerfið, herra forseti. Við erum að ræða lög um skatta. Við erum að ræða um skattheimtu og ég gagnrýni það að lög um skattheimtu hafa inni að geyma ákvæði sem varða velferðarkerfið svo sterkt sem hér er. Bæði er að þeir aðilar sem vilja leita réttar síns vegna þess að þeir telja sig eiga rétt á bótum eða greiðslum úr velferðarkerfinu munu síst af öllu leita í skattalögum að slíkum bótum, greiðslum eða rétti til slíks.

Auk þess er annar vankantur á þessu. Hann er sá að þessar greiðslur fjalla um niðurfellingu á skatti og koma þar af leiðandi ekki fram sem greiðslur velferðarbóta. Niðurfelling á þessu bifreiðagjaldi kemur ekki fram sem örorkulífeyrir, umönnunargreiðslur eða því um líkt þó að þær séu það í reynd. Á þennan máta eru þessar greiðslur duldar í andstöðu við ný samþykkt lög um fjárreiður ríkisins sem einmitt gengu út á að reyna að halda því aðgreindu hvað væru bætur og hvað væru skattar. Ég hafði efasemdir um þessa grein, um að setja ákvæði um velferðarmál inn í skattalög. Ég hefði mikið frekar viljað að Tryggingastofnun fengi þessa heimild í lögum um almannatryggingar þannig að hún greiddi þennan skatt fyrir þá sem eiga rétt á því að fá þetta niðurfellt. Þannig kæmi í ljós hve stórar upphæðir þetta eru. Þannig kæmi í ljós að þetta væru greiðslur frá velferðarkerfinu og þannig ættu þeir sem teldu sig eiga rétt á því auðveldara með að ná þeim rétti. Að sjálfsögðu leita menn til almannatrygginga þegar menn ætla að fá einhverjar bætur úr velferðarkerfinu. Það liggur beinast við, til almannatrygginga, lífeyrissjóða eða sveitarfélags en síst af öllu til skattstjóra.

Herra forseti. Ég féllst á þessar brtt. hv. efh.- og viðskn. og skrifa undir án fyrirvara þrátt fyrir efasemdir mínar um að dylja velferðarkerfið inni í skattalögum.