Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:07:06 (6295)

2000-04-10 18:07:06# 125. lþ. 96.39 fundur 385. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (metangas- eða rafmagnsbílar) frv. 38/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er verið að stýra neyslu með því að veita vissum tegundum bifreiða afslátt af vörugjaldi. Það hefur reyndar verið réttlætt þannig að þessar bifreiðar væru eðli málsins samkvæmt dýrari en venjulegar bifreiðar vegna þess að þær eru í þróun og það má svo sem vel vera. En hins vegar hef ég ekki þá bjargföstu trú eins og sumir aðrir að metangas eða vetniseldsneyti muni yfirtaka orku heimsins vegna þess að hér er ekki um að ræða nýfundna orku heldur felst þetta í því að breyta orku af einni tegund yfir í aðra. Eins og þekkt er úr eðlisfræðinni verður engin ný orka til við það. Ég hef því vissar efasemdir um hvort rétt sé að stýra neyslu í þessa veru og hvort þetta sé þá ekki í rauninni bara styrkur til þeirra aðila sem eru að þróa slíkar bifreiðar og hef vissar efasemdir. Ég stend samt ekki á móti áliti efh.- og viðskn. og hef eingöngu þann fyrirvara að ég hef dálitlar efasemdir um þessa skýringu.