Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:19:48 (6298)

2000-04-10 18:19:48# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, Frsm. minni hluta JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:19]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta efh.- og viðskn. um frv. um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sem ég flyt ásamt hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Álit okkar kemur fram á þskj. 975. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er enn verið að gera breytingar og lagfæringar á þungaskattskerfinu, en málið hefur reglulega komið til kasta Alþingis á liðnum árum, bæði vegna mikillar óánægju með fyrirkomulag á þungaskatti og eins vegna úrskurða samkeppnisráðs.

Í áliti samkeppnisráðs frá árinu 1997 kemur fram að það mismuni og raski samkeppnisstöðu atvinnubifreiðastjóra að veita stighækkandi afslátt af þungaskatti sem innheimtur er af eigendum vöruflutningabifreiða eftir því hversu mikið þeim er ekið. Afsláttarkerfið var því afnumið 1998, en þess í stað voru sett ný ákvæði um greiðslu fasts árgjalds þungaskatts af bifreiðum og eftirvögnum og gjald vegna ekinna kílómetra lækkað um 5% af ökutækjum undir 14.000 kg en um 30% af ökutækjum sem greitt var af fast árgjald. Árið 1998 var fasta árgjaldið afnumið og lögfest sérstök gjaldskrá þannig að innheimta skyldi gjald fyrir hvern ekinn kílómetra sem væri breytilegt eftir leyfðri heildarþyngd vagnanna. Einnig var heimilað að velja áður en gjaldár hæfist að greiða gjald sem samsvaraði 95.000 km akstri á gjaldári í stað gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra.``

Eins og þingmenn þekkja úrskurðaði samkeppnisráð á síðasta ári að þær breytingar sem gerðar voru 1998 mismuni samkeppnisaðilum og dragi verulega úr möguleikum nýrra keppinauta á markaði jafnframt því að takmarka aðgang sem sé andstætt markmiði samkeppnislaga. Frumvarp það sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú haft til meðferðar er lagt fram til að bregðast við þeim úrskurði.

Landssamband vörubifreiðastjóra sem barist hefur gegn þessari breytingu og kærði til samkeppnisráðs sem úrskurðaði þeim í hag hefur fagnað mjög þessari breytingu. Þeir hafa í reynd í tvígang á tveimur árum kært ákvæði laga um fjáröflun til vegagerðar vegna ákvæðanna sem lúta að afslætti í innheimtu þungaskatts. Aftur á móti hefur Landvari, Félag ísl. vöruflytjenda, mótmælt frv. og telur að það leiði til hækkunar á flutningskostnaði.

Ljóst er að þótt frumvarpið komi til móts við álit samkeppnisráðs og tryggi betur stöðu sjálfstætt starfandi einstaklinga í vöruflutningum standa enn eftir meingölluð lög um þungaskatt. Frumvarpið leysir því ekki vandann eins og hv. frsm. meiri hlutans kom inn á.

Efh.- og viðskn. leitaði til samkeppnisráðs um álit á því hvort almennt fast gjald á bifreiðar undir 4.000 kg leiði til mismunar á samkeppnisstöðu atvinnubifreiða, innbyrðis eða milli þyngdarflokka, og sé andstætt markmiði samkeppnislaga. Niðurstaða samkeppnisráðs var að það kunni að raska samkeppni á milli þeirra sem reka bifreiðar undir 4.000 kg að heildarþyngd og þeirra sem reka bifreiðar sem eru 4.000 kg og þyngri. Það er því alveg ljóst að ef ekkert verður að gert, mun þetta mál enn eina ferðina reka á fjörur þingsins aftur til þess að bregðast við úrskurði samkeppnisráðs og því er ljóst að málið verður enn í ólestri þrátt fyrir þá lagfæringu sem hér er verið að reyna að gera.

Við bendum á að meiri hlutinn tók ekki til greina eðlileg tilmæli fulltrúa Almenningsvagna og Strætisvagna Reykjavíkur um þær breytingar sem verið er að gera með frv. en þeir hafa bent á með fullum rökum að frv. auki tilkostnað Almenningsvagna og Strætisvagna Reykjavíkur og lagt áherslu á að Almenningsvagnar og strætisvagnarnir verði jafnsettir fyrir sem eftir þá breytingu sem hér er lögð til, en samkvæmt núgildandi lögum skal þungaskattur vera 70% lægri af akstri almenningsvagna í áætlunarferðum. Þetta hlutfall þyrfti því að verða nokkru hærra miðað við þá breytingu sem við erum að fjalla um, þ.e. 73% í stað 70% að mati fjárlagaskrifstofu. En í umsögn fulltrúa Almenningsvagna kom fram að hlutfallið þyrfti að vera 75%. Það er vissulega ekki um háar fjárhæðir að ræða eða sem samsvarar 3--5 millj. kr. en fulltrúar Almenningsvagna og SVR hafa engu að síður hvorir tveggja bent á að þó að ekki sé um stórar fjárhæðir að ræða muni þessi skerðing bitna á þjónustu við notendur almenningsvagna.

Þeir benda einnig á að almenningssamgöngur í þéttbýli séu ekki eitt af lögboðnum skylduverkefnum sveitarfélaga heldur hafi þau litið á þessa þjónustu sem nauðsynlega og skynsamlega að teknu tilliti til heildarhagsmuna. Þá hafi ríkið talsverðar tekjur af þessari starfsemi í stað þess að leggja með henni fé, ólíkt því sem gerist í velflestum ríkjum Vestur-Evrópu. Einnig eru rök þeirra í málinu að akstur almenningsvagna fari að langmestu leyti um götur sem sveitarfélögin sjálf hafa kostað og vega þau rök þungt að mínu viti.

Við, fulltrúar minni hlutans, hefðum því gjarnan viljað sjá að meiri hlutinn hefði getað fallist á þessa breytingu. Þetta breytir ekki miklu í útgjöldum ríkissjóðs en hefur verulega þýðingu fyrir Almenningsvagna og Strætisvagna Reykjavíkur að því er varðar tilkostnað við þessa þjónustu sem þeir sjá ekki að þeir geti mætt nema með minni þjónustu.

Herra forseti. Það er ljóst að fyrirkomulag þungaskatts og síendurtekin nauðsyn þess að taka málið upp á Alþingi er orðið Alþingi til vansa og flestir umsagnaraðilar eru hlynntir því að farið verði í kerfisbreytingu og tekið upp olíugjald í stað þungaskatts. En eins og þingmenn þekkja þá var frv. um það efni lagt fyrir Alþingi fyrir tveim árum síðan en náði þá ekki fram að ganga. Í stað þess var áfram haldið að plástra upp á þetta gallaða þungaskattskerfi. Ég vil minna á og halda hér til haga, herra forseti, að í desember 1998 þegar frv. um breytingar á þungaskatti var afgreitt frá efh.- og viðskn. skiluðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar séráliti og lögðu til að tekin yrði upp vinna við undirbúning og upptöku olíugjalds sem hefur marga kosti í för með sér og mjög jákvæða með tilliti til umhverfismála. Það hefur ekki verið gert heldur er áfram lagt til að plástra upp á þetta kerfi og ekki er að sjá að tíminn frá 1998 hafi verið nýttur til þess að skoða hvernig best verði að taka upp þá kerfisbreytingu sem minni hlutinn þá lagði til og minni hlutinn nú tekur upp, þ.e. að taka upp olíugjald í staðinn fyrir það þungaskattskerfi sem við búum við. Reyndar er það svo að meiri hluti efh.- og viðskn. leggur einnig áherslu á þessa leið í sínu áliti eins og framsögumaður meiri hlutans kom inn á.

Með sama hætti og minni hlutinn, sem þá var líka skipaður fulltrúum stjórnarandstöðunnar lagði til í desember 1998, þá vísum við allri ábyrgð á málinu á ríkisstjórnina og meiri hluta hennar. Við höfum sömu afstöðu nú og þá og hvetjum til þess að þegar verði hafist handa við að taka upp olíugjaldskerfi en að lagt verði af mælagjald þungaskatts og að málið verði lagt fyrir strax í upphafi næsta þings.