Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:28:46 (6299)

2000-04-10 18:28:46# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, KLM
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Þær breytingar sem verið er að ræða á frv. til laga um fjáröflun til vegagerðar sem hér hefur verið gerð grein fyrir af meiri hluta efh.- og viðskn. og hins vegar minni hluta er mál sem oft kemur upp og menn eru ekki á eitt sáttir um til hvers það leiðir og þær breytingar sem þar er verið að gera. Þær breytingar sem gerðar hafa verið áður á þessu kerfi hafa tvímælalaust leitt til þess að flutningsgjöld út á landsbyggðina hafa hækkað hvað varðar vöruflutninga á hverju sem er, almennum matvörum eða öðru. Þær eru íþyngjandi fyrir rekstraraðila á landsbyggðinni og íþyngjandi fyrir neytendur, fyrir fólkið á landsbyggðinni sem lendir í því að greiða hærra vöruverð og þá sérstaklega matvöruverð, en þær breytingar koma okkur mest við. Hér er á ferðinni enn ein lagfæring á þessu kerfi. Það er verið að staga í göt, ef svo má að orði komast, og reyna að bæta eitthvað það sem áður var og það sem Samkeppnisstofnun er nú farin að gera athugasemdir við. Eins og ég segi þá staldra ég sérstaklega við þær breytingar sem áður hafa verið gerðar og þau áhrif sem þær hafa haft á landsbyggðina. Nægir í því sambandi að taka undir og hlusta á það sem Landvari, félag íslenskra vöruflytjenda hefur látið koma fram í bréfum til þingmanna, í bréfum til sveitarstjórna og annarra.

[18:30]

Það er alveg ljóst að þær breytingar sem hafa áður verið gerðar á þessu og Landvari varaði við að mundu hafa stórhækkun í för með sér á flutningsgjöldum, sérstaklega út á land, hafa komið fram. En ég vil þó taka skýrt fram að vafalaust hafa komið ýmis önnur ákvæði eins og einhverjar Evrópuskuldbindingar inn í gjaldskrár þeirra og annað slíkt varðandi ökurita, vinnutíma og þess háttar.

Það er alveg ljóst að aðilar sem kaupa þessa þjónustu, flutninga þessara aðila út á land, hafa horft á mjög mikla hækkun. Sú hefur átt sér stað í framhaldi af því að á hinu háa Alþingi hefur þungaskattinum verið breytt fram og aftur. Vafalaust hefur það stundum verið í þeirri meiningu að það væri til góðs fyrir neytendur en sennilega oftar orðið til góðs fyrir ríkissjóð í auknum tekjum. Það er t.d. alveg ljóst að í flutningum út á land til einhvers tiltekins staðar sáu menn það gerast að flutningar á 10 kg pakka eða 1 kúbiks fets pakka hækkaði um ein 62% við þessar breytingar. Gjaldskrár þessara aðila hækkuðu um 62% á þessari tilteknu vöru eða úr 400 kr. í 650 kr. Hækkun á 20 kg vöru eða 2 kúbika feta var 38% og hækkun á 30 kg vöru eða 3 kúbika feta vöru var 18% og svona má lengi telja. Það er alveg ljóst að sú breyting sem þarna var gerð varð til þess að vöruverð á landsbyggðinni hækkaði, aukinn flutningskostnaður fór beint út í vöruverðið. Einmitt þetta kemur fram hjá Landvara og þeir margtaka fram að þetta muni leiða til stórhækkunar á flutningsgjöldum til landsbyggðarinnar. Ég held að rétt sé að lesa úr áliti þessara aðila í bréfi til alþingismanna frá 23. nóvember 1999, með leyfi forseta:

,,Það er afar brýnt að stöðva þegar í stað hækkun á þungaskatti á vöruflutninga til landsbyggarinnar og færa til baka af atvinnugreininni yfir á efnisflutninga og annan vörubifreiðaakstur þær 300 millj. sem millifærðar voru af vöruflutningum með lögum í árslok 1998.``

Síðan senda þeir gögn til okkar þar sem koma fram þessi almennu sjónarmið og rökstuðningur fyrir því að skattleggja vöruflutninga til landsbyggðarinnar á annan hátt en á almennan vörubifreiðaakstur í almennum atvinnugreinum eins og við vega- og mannvirkjagerð eins og gert hefur verið fram til 1998. Því vil ég spyrja hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn.: Eru þær breytingar sem hér er verið að gera og eru þær athugasemdir sem Samkeppnisstofnun er að setja fram, eingöngu vegna þess að einhver samkeppnismál eru að þeirra mati brotin með mismun milli vörubifreiðaaksturs og svo aftur landflutninga eða fraktflutninga? Er það vegna þess að menn ímyndi sér að þeir sem eru að flytja möl eða grjót eða eitthvað þess háttar á ákveðnum vörubifreiðum vilji komast í að flytja vörur út á land? Ekki trúi ég því. En í bréfi Landvara fullyrða þeir að til skemmri og lengri tíma litið muni þessi aukna skattheimta á landsbyggðaflutningana koma fram í stórhækkuðum flutningsgjöldum sem mun enn skerða framleiðsluskilyrði fyrirtækja og lífsskilyrði fólks sem þar býr.

Er það svo að þær breytingar sem verið er að boða muni hafa enn eina hækkun í för með sér eða er enn einu sinni verið að breyta einhverju kerfi sem við vitum jafnvel ekki hvaða afleiðingar muni hafa gagnvart vöruflutningum til landsbyggðarinnar en þar er málið náttúrlega hvað alvarlegast?

Í könnun sem Stefán Ólafsson lektor gerði og beitti sér fyrir og oft er vitnað í, kemur fram að það sem fólk á landsbyggðinni kvartar hvað mest yfir er hátt vöruverð og þetta er auðvitað stærsti liðurinn í því. Það má fara aftur til þess er Skipaútgerð ríkisins var rekin að þar voru vafalaust niðurgreiddir flutningar út á land sem svo voru lagðir af, allt var flutt með bílum. Hefur þetta ekki verið stærsti þátturinn í því að hækka vöruverð á landsbyggðinni?

Menn segja e.t.v. að ekki megi mismuna, það megi ekki styrkja þetta og þetta vegna þess að það brjóti jafnræðisreglu og stjórnarskrána o.s.frv. Ég spyr hér og nú: Væri ekki hægt að nota það kerfi sem notað er hér og hefur verið í mjög mörg ár að almenningssamgöngur, strætisvagnarekstur skuli eingöngu borga 30% af þungaskatti eða fá 70% lægri þungaskatt en aðrir? Er ekki þarna komin forskrift fyrir því og er ekki inni í þessu kerfi leið til að nota, til þess að endurgreiða hluta af þungaskatti til flutningsfyrirtækja sem flytja þessar vörur út á land? Ég spyr. Hver er munurinn á þessu? Er ekki alveg hægt að nota þessa leið?

Vel getur verið að menn segi að til séu alls konar leiðir til þess að komast fram hjá því að einhverjar verslanir sem selja eitthvað allt annað en matvöru, ef við tökum sem dæmi, færu að færa það allt svoleiðis. Ég held að fyrir okkur sé enginn vandi að finna leiðir gagnvart því ef vilji er fyrir hendi. En það er ansi athyglisvert að 60 millj. kr., jafnvel 70 millj. kr., séu notaðar af þungaskatti til að greiða niður strætisvagnagjöld þar sem strætisvagnar eru reknir. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef ekkert á móti því og ég tel það reyndar sjálfsagt mál, ég er ekki að andmæla því. En ég vil segja aðeins og kasta því inn í umræðuna hvort við höfum ekki þarna fordæmi, hvort við höfum ekki leið til að fara inn í það að greiða niður flutninga út á land til að lækka þar vöruverð sem er, eins og ég sagði áðan, hvað mest kvartað yfir þegar menn ræða um mismun milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Dæmið sem ég tók áðan um hækkun á flutningi á þessum tilteknu vörum út á land er dæmi sem við höfum og er klárt og hefur komið fram í gögnum sem okkur hafa verið send. Breytingar á þungaskatti hafa leitt þetta af sér. Nú kann svo að vera að með þessum breytingum sé eitthvað verið að ganga í átt til þess að leiðrétta þetta.

Ég vil svo segja aðeins í lokin, herra forseti, að ég er mjög hlynntur því sem kemur fram í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. sem leggur það til að fjmrh. skipi nefnd sem tæki lögin um fjáröflun til Vegagerðar til heildarendurskoðunar. Ég held að full þörf sé á því og ég held að það sé full þörf á því að skoða þær leiðir sem hægt er að fara. Ég nefni rétt í lokin nýlegt dæmi sem hefur komið fram á hv. Alþingi að endurgreiðslur á þungaskatt til sérleyfishafa á Íslandi eru reglur sem eru í raun og veru mjög furðulegar. Þar kemur fram að Kynnisferðir í Reykjavík, sem hafa sérleyfi milli Reykjavíkur og Keflavíkur og eru 80% í eigu Flugleiða, veltu í kringum 450 millj. á síðasta ári og skiluðu 45 millj. í hagnað. Það fyrirtæki fær með hæstu styrkjum sem sérleyfishafar í landinu fá eða tæpar 8 millj., jafnmikið og ýmis fyrirtæki sem halda uppi samgöngum út á land á mjög fáförnum og erfiðum leiðum. Er eitthvað sanngjarnt við þetta kerfi? Ég segi hiklaust nei. Full þörf er á að taka öll þessi samgöngumál til gagngerðrar endurskoðunar, líka í ljósi þeirra staðreynda að samkeppni í flugi er að leggjast af og flug á ýmsa staði úti á landi er að leggjast af. Flugi til ýmissa staða úti á landi verður ekki haldið við nema styrkir frá hinu opinbera komi til líkt og gert er við strætisvagnaaksturinn þar sem hann er, líkt og gert er við sérleyfisbílahafana þar sem þeir eru og önnur þess háttar atriði. Ég vil segja það aðeins í lokin, herra forseti, að mér sýnist það besta sem kemur fram í tillögunum vera það að lagt er til að allt þetta verði endurskoðað. Ég vildi sjá að endurskoðunin tæki þá mið af því sem ég hef gert að umræðuefni, vöruflutningum og þeim breytingum sem hið háa Alþingi hefur gert undanfarin ár sem hefur tvímælalaust leitt til hækkunar á flutningsgjöldum út á land og sérstaklega á lengri leiðirnar og hækkun vöruverðs á landsbyggðinni.