Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:43:09 (6300)

2000-04-10 18:43:09# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nokkur atriði. Í fyrsta lagi hafa eigendur vörubíla úti á landi kvartað mjög mikið vegna þess að þeir hafa talið sig búa við mjög rýra samkeppnisstöðu gagnvart þeim sem hafa verið í reglulegum vöruflutningum. Mjög margir af þessum aðilum eiga bíla sem eru búnir til margvíslegra verkefna og menn hafa getað rekið bílana vegna þess að þeir hafa getað farið í margs konar verkefni en þeir hafa ekki talið sig hafa sömu möguleika til að bjóða í einstaka farmflutninga, svo sem fiskflutninga, flutninga með vörur eða einstaka farma vegna þess að þeir væru að greiða hærri þungaskatt en keppinautarnir.

Annað sem fram kom er að engar þær kerfisbreytingar sem hafa verið gerðar á gjaldskrá þungaskatts á undanförnum árum hafa leitt af sér eina einustu þörf til þess að hækka gjaldskrá um 18% eða 38% eða 62%. Það eru einhverjar allt aðrar ástæður fyrir því að menn hafa þurft að hækka gjaldskrá um þær prósentur en þær kerfisbreytingar sem hafa verið gerðar á undanförnum árum.

Landvari, félag landflutningamanna, kom því miður fram með tölur um hækkaðar álögur vegna þungaskattsbreytinga á undanförnum árum upp á 700 millj. kr. sem voru settar fram í bréfi sem var ritað til efh.- og viðskn. Þær tölur eru algerlega út úr öllum kortum miðað við þær kerfisbreytingar sem hafa verið gerðar. Tekjur ríkissjóðs af þungaskatti á undanförnum árum hafa vaxið mjög verulega. Ýmsar ástæður eru fyrir því. Það hefur verið almenn hækkun á gjaldskrá vegna verðlagsbreytinga. Innheimta hefur verið bætt, það hefur verið fjölgun bíla, það hefur verið meiri akstur vegna aukinna framkvæmda og aukinna umsvifa í atvinnulífinu og síðan hefur kerfisbreytingin komið. Ég fullyrði að kerfisbreytingarnar sem slíkar skýra ekki nema þá hugsanlega eitthvert brot af þeirri aukningu tekna af þungaskatti sem hefur orðið.