Fjáröflun til vegagerðar

Mánudaginn 10. apríl 2000, kl. 18:45:27 (6301)

2000-04-10 18:45:27# 125. lþ. 96.32 fundur 223. mál: #A fjáröflun til vegagerðar# (afsláttur af þungaskatti) frv. 31/2000, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 125. lþ.

[18:45]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur komið fram hjá formanni efh.- og viðskn., hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, að hann telji að þær kerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á þungaskatti undanfarin ár séu ekki neinar forsendur fyrir þeim stórhækkunum sem orðið hafa á flutningsgjöldum sem ég tók hér sem dæmi. Þetta eru bara staðreyndir. Það er langbest að taka bara tölulegar staðreyndir úr reikningum frá þessum fyrirtækjum til fyrirtækja á landsbyggðinni sem þau hafa verið að greiða. Þær tölur sem ég tók hérna sem dæmi frá 1. janúar 1998, og svo aftur hækkunin eftir að síðustu breytingar voru gerðar, sýna að hækkun á flutningi á 10 kg pakka frá Reykjavík til tiltekins staðar á Norðurlandi er 62%. Þetta er um 62% hækkun á eins kúbikfeta pakka. Það er staðreynd. Er hv. þm. Vilhjálmur Egilsson að segja það hér varðandi Landvara og þessa flutningsaðila sem flytja mest vörur á landsbyggðina, vöruflutningafyrirtæki, að einhver skilyrði hafi verið notuð til þess að fara út í stórkostlegar hækkanir án þess að forsendur væru fyrir? Þessi fyrirtæki hafa öll kvartað yfir þeim breytingum sem gerðar voru á þungaskatti hér á árum áður og nefnt að þær hafi haft þessar afleiðingar, þ.e. stórhækkun á kostnaði þessara fyrirtækja sem hafi farið beint út í vöruverðið. Ég spyr bara: Er verið að gera allar þessar breytingar vegna kvartana vörubílstjóra vegna samkeppni gagnvart vöruflutningafyrirtækjum? Ég spyr bara. Þessu er ekkert saman að jafna. Það er tvennt ólíkt að tala um vöruflutningafyrirtæki --- þau eru nú ekkert mörg sem starfa hér á landi --- sem flytja vörur til velflestra staða á öllu landinu eða vörubílstjóra sem eru kannski að nota einhvern annan tíma þegar þeir eru ekki í efnisflutningum til að flytja vörur. Það er mikill munur á þessu.