Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:08:10 (6322)

2000-04-11 14:08:10# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:08]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í ræðu hv. 4. þm. Reykn. hafa málefni Landsvirkjunar verið til umfjöllunar enn á ný, hvort Landsvirkjun eigi að fá heimild til þess að stofna fyrirtæki um ljósleiðara sinn eða flutningakerfi sitt. Ég vil aðeins koma því að enn einu sinni að við erum með gríðarlegt kerfi hér á ferðinni, um Sprengisand, um Þjórsár-/Tungnaársvæði, um Suðurland, vestur í Hvalfjörð, norður um til Blönduvirkjunar, norðaustur um til Akureyrar, Kröflu og Húsavíkur.

Málið snýst einfaldlega um það hvort við viljum gera fyrirtækinu Landsvirkjun mögulegt að hleypa öðrum notendum inn á kerfið. Ég tek það skýrt fram að ég hefði í sjálfu sér þegar upp er staðið núna viljað hafa annað form á þessum málum. Mér er óskiljanlegt að t.d. skuli Pósti- og síma ekki hafa verið falin þessi þjónusta við Landsvirkjun eða símanum fyrir mörgum árum, að það skuli vera komið svo að við stöndum hér, þetta opinbera fyrirtæki með stórkostlega möguleika til flutninga á boðum um landið.

En við stöndum frammi fyrir þessu núna, stórkostlegum möguleikum á flutningskerfi Landsvirkjunar, möguleikum á því að skila boðum milli landshluta. Málið snýst einfaldlega um það hvort það á að gera fyrirtækinu þetta mögulegt eða ekki.

Við getum sagt nei við Landsvirkjun og þá stendur það ljóst fyrir að Landsvirkjun mun aðeins nota þetta flutningskerfi til þess að reka virkjanir sínar, þjóna fyrirtæki sínu víðs vegar um landið, hvort sem það er varðandi uppbyggingu á mannvirkjum eða varðandi rekstur virkjananna.

Við getum líka sagt já við einhverjum möguleika til að aðrir komi að notkun á kerfinu. Ég hef sagt það áður í ræðu að mér er það mjög mikið í mun og ég hef nú styrkst í þeirri trú að við eigum að skapa fyrirtækinu þennan möguleika. Eins og kom fram í ræðu hv. 4. þm. Reykn., Rannveigar Guðmundsdóttur, eru TNet- kerfið og Irju-kerfið, hvort tveggja opinber kerfi, sem sagt kerfi sem eru búin til og rekin af opinberum aðilum eins og málin standa í dag. Hér er stuðst við veitukerfi Reykjavíkurborgar og er hér um opið kerfi að ræða. Hér er alls ekki um samkeppni frjálsra eða einkafyrirtækja að ræða.

Það sem truflar mig og sannfærir mig um að Landsvirkjun eigi að hafa þennan möguleika er það, að eins og þetta Public Safe-kerfi er í dag svo maður sletti nú enskunni, eða almannahagsmunakerfi, og þá er átt við lögregluna, það er átt við slökkviliðið, það er átt við sjúkraflutninga og það er átt við almannavarnir, eins og þetta kerfi er í dag, og þá er gjarnan talað um TNet-kerfið og Irju-kerfið, þá er bara verið að tala um höfuðborgarsvæðið eins og það er núna. Ef við tökum bara t.d. almannavarnirnar, þá eru almannavarnirnar með sínum fimm starfsmönnum í Reykjavík inni á þessu kerfi eins og það er núna.

Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því að við erum með 103.000 ferkílómetra land og við eigum að nota allar boðleiðir sem við mögulega höfum til þess að auka öryggi í landinu. Ég hef sannfærst um að það er nauðsynlegt fyrir okkur að gera innkomu Landsvirkjunar á þetta kerfi mögulega út frá þessum sjónarhóli, að þjóna öllu landinu. Það ræður afstöðu minni.

Það er e.t.v. álitamál hvernig á að gera það og hvort á að gera það með miklum takmörkunum að leyfa Landsvirkjun að búa til þetta hliðarfyrirtæki eða dótturfyrirtæki. En eftir heimsóknir í nefndina þá er ég nú sannfærðari um að þeir möguleikar eru ekki í stöðunni. Þetta snýst um það hvort fyrirtækinu er gert kleift að búa til þetta fyrirtæki. Ég geri mér grein fyrir því að miðað við stöðuna í dag getur það síðan farið á markað. En við sem vorum á aðalfundi Landsvirkjunar á föstudaginn áttum okkur náttúrlega á því hver stefna fyrirtækisins er eins og hún er lögð upp þar. Stjórnarformaðurinn dró enga dul á að verið er að vinna að uppbyggingu skipulags og skipurits fyrirtækisins á þá lund að hægt er að selja eða taka inn nýja hluthafa á rekstrareiningar sem eru innan fyrirtækisins í dag. Í því sambandi var nefnd t.d. verkfræðideild og það var nefnd línudeild o.s.frv. Við gerum okkur grein fyrir því hvernig landið liggur. Fyrir mína parta dreg ég ekkert fjöður yfir það að ég aðhyllist opinberan rekstur og hefði kosið óbreytt fyrirkomulag t.d. á rekstri Landsvirkjunar, að það yrði opinbert fyrirtæki í eigu ríkis og borgar og bæjar. Ég hef líka sagt það í ræðustóli að ég aðhyllist það, og berst eindregið fyrir því, að síminn og pósturinn séu opinberar stofnanir sem þjóni landinu öllu.

En að öllu skoðuðu í þessu máli tel ég mjög mikilvægt varðandi uppbyggingu á þessu fjarskiptasviði að ekki verði gengið þannig frá málum að þetta einskorðist við suðvesturhornið. Staðreyndin er sú að þetta nýja TETRA-kerfi um almannaþjónustuna er bara komið í notkun hér. Það kom fram á fundi iðnn. í morgun að t.d. stjórn almannavarna, með sína fimm starfsmenn hér, getur að vísu haft samband innan suðvesturhornsins, en síðan verður hún að nota aðra tækni til þess að hafa samband vestur á firði. Ég held ég hafi skilið það rétt.

Að þessum orðum sögðum hef ég sem sagt skrifað undir nál. meiri hlutans með fyrirvara um það að ég er hlynntur því að þessar stofnanir okkar séu í opinberri eigu. Hins vegar geri mér grein fyrir því að ég og félagar mínir við höfum ekki afl til þess að ráða því nú um stundir. Þakka ykkur fyrir.