Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:15:47 (6323)

2000-04-11 14:15:47# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hægt er að taka undir margar af þeim hugleiðingum sem komu fram hjá þingmanninum en fyrst og fremst að kjarninn í því hvernig hann sér málið er einfaldur, þ.e. að Landsvirkjun leigi aðgang að þessu dýrmæta kerfi.

Ég ætla að minna á það að þegar mælt var fyrir þessu máli við 1. umr. var þetta ekki einu sinni nefnt. Þessi þáttur málsins kom fyrst fram við yfirferð á málinu í iðnn. Það var aðeins rætt um möguleika Landsvirkjunar að eiga í fjarskiptafyrirtækjum og við vitum vegna hvers, það er vegna þess að það mál var komið í gang.

Ég vil líka taka undir að þetta er ekki beinlínis fyrirtæki á markaði, þegar stóru orkufyrirtækin eru bakhjarlarnir og bakhjarlar sameignarfyrirtækjanna, sem þarna eru búin til, eða hlutafélaganna, eru svo Nokia og Mobira og önnur slík stórfyrirtæki erlendis.

Út af orðum þingmannsins vil ég endilega benda á að Landsvirkjun tók þátt í undirbúningi málsins í upphafi hvað varðar neyðar- og öryggisvörsluna sem þátttakandi með þeim öryggisaðilum sem undirbjuggu að Ríkiskaup byðu þennan þátt út, drógu sig ekki út úr því fyrr en eftir á og ákváðu að bjóða í líka. Þegar þeir töpuðu því útboði fyrir Irju, nú Línu.Neti, ákváðu þeir að halda áfram og koma sér inn á þetta neyðar- og öryggisband og hafa þess vegna keypt annað kerfi.

Okkur er eiginlega sagt að Alþingi eigi ekki að vera að skipta sér af þessu, við höfum hins vegar dregið fram margar skrýtnar hliðar málsins. Þess vegna er málið ekki einfalt, en kjarninn, þ.e. að leigja aðgang að þessum línum og ljósleiðara á hálendinu, er einfalt mál og það býst ég við að margir styðji.