Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:19:39 (6325)

2000-04-11 14:19:39# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:19]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Hér er til lokaumræðu lítið mál sem fjallar um almenna heimild til Landsvirkjunar að fara inn á fjarskiptamarkaðinn. Ég er ekki alveg sammála því sem kom fram í umræðunni að málið hafi verið vandræðalegt. Málið hefur fengið umfjöllun og ýmislegt nýtt komið fram eins og er eðlilegt í umfjöllun Alþingis og í starfi nefnda þingsins. Eftir þá umræðu telja flestir, a.m.k. nefndarmanna, að málið sé orðið það upplýst að þeir treysti sér til að taka afstöðu til málsins. Síðan kann menn að greina á um einstaka þætti þess eins og gengur og er ekkert óeðlilegt við það.

Það sem er kannski dregið fram á lokasprettinum eru tvö meginatriði, þ.e. annars vegar hvort verið sé að afgreiða opna heimild til Landsvirkjunar um að ráðstafa eigum sínum eða þá hversu langt það fyrirtæki eigi að ganga inn í fjarskiptaheiminn. Það hefur komið fram, herra forseti, að þetta litla frv. breytir í raun engu um það frá gildandi lögum. Rétt eins og Landsvirkjun án heimildar Alþingis tók stjórn fyrirtækisins þá ákvörðun að byggja upp dreifikerfi sitt með 150 km af ljósleiðurum, 32 örbylgjusendum og fleiru, til að tryggja fjarskipti á milli þeirra mannvirkja sem heyra undir Landsvirkjun.

Samkvæmt gildandi lögum þurfti ekki að bera það undir hv. Alþingi og með sama hætti getur stjórn þessa samvinnufélags má segja, sem er ekki eingöngu í eigu ríkisins heldur einnig sveitarfélaga, tekið ákvörðun um það hvernig eigum þess er ráðstafað, og hefur svo sem verið gert í sögu Landsvirkjunar. Þetta frv. breytir í rauninni engu um það. Hvort sem þetta frv. verður að lögum eða ekki, gæti Landsvirkjun eigi að síður tekið, ef stjórn sýndist svo, þá ákvörðun að selja eigur sínar, hverjar sem þær eru.

Hitt er svo annað mál að ef hv. Alþingi eða einstakir alþingismenn eru ósáttir við slíka ákvörðun er alltaf hægt að taka slíkt mál upp á Alþingi í umræðum og hefur nú annað eins gerst, m.a. að beina þá umræðum til hæstv. iðnrh. ef mönnum sýnist svo.

Hinn þátturinn sem hefur verið dreginn fram er hvort heimila skuli eitt eða tvö tíðnisvið hvað varðar öryggisþáttinn. Nú hefur það komið fram að ekkert útilokar það í rauninni í framtíðinni að tvö ólík kerfi geti talað saman, ef svo má að orði kveða, þar er fyrst og fremst spurningin um að þróa hugbúnað og er því almennt spáð að það muni gerast áður en varir. En meginatriðið í þessu er að það er dómsmrn. sem hefur í rauninni ábyrgð og forsjá á þessum öryggisþáttum. Þess vegna er það eðlilegt að dómsmrn. fylgist með því og úrskurði hvað þennan þátt varðar en ekki hv. Alþingi eða stjórn einstakra fyrirtækja. Það er í vinnslu eins og fram hefur komið hjá dómsmrn. og ákvörðun dómsmrn. mun örugglega byggja á því hver staðan er tæknilega varðandi þessi tvö kerfi og með öryggissjónarmiðin að grundvelli. Að mínu mati er því ekki ástæða til að óttast þann þátt, það er dómsmrn. sem fylgist með því og mun, trúi ég, bregðast við samkvæmt því sem eðlilegt er, þar sem öryggissjónarmiðin eru lögð til grundvallar.

Herra forseti. Hér er eingöngu verið að að fjalla um það almenna prinsipp, hvort Landsvirkjun eigi að geta haslað sér völl á fjarskiptamarkaði, ekki síst með hliðsjón af því hvort eigi að hleypa fyrirtækjum inn á það með dreifibúnað sem Landsvirkjun hefur byggt upp fyrir sig. Stjórn Landsvirkjunar virðist öll vera sammála um að fara þessa leið til þess að hleypa fjarskiptafyrirtækjum inn á dreifikerfið. Það er þá í rauninni stjórn Landsvirkjunar að ákveða hversu langt það fyrirtæki vill seilast inn á þetta.

Það er líka rétt að draga það fram, herra forseti, að Samkeppnisstofnun gegnir því hlutverki að fylgjast m.a. með því að ef Landsvirkjun fer í samstarf við önnur fyrirtæki, sé ekki verið að blanda fjármunum úr þessum almenna orkurekstri yfir í fjarskiptareksturinn. Það er mjög mikilvægt og það kemur reyndar fram í nál. meiri hluta hv. iðnn. þar sem áhersla er lögð á að fjármunum sé ekki blandað saman af ólíkum sviðum. Það er bæði Samkeppnisstofnun sem á að fylgjast með slíku og ekki síður Póst- og fjarskiptastofnun.

Einnig er rétt að draga það fram hér, herra forseti, að fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar segist í rauninni fagna slíkri samkeppni sem um er að ræða, m.a. með því að fyrirtækið geti nýtt sér þennan búnað og keppt á því dreifikerfi sem Landsvirkjun hefur byggt sig upp.

Rétt er að árétta það enn og einu sinni að það er dómsmrn. að fylgjast með því að öryggisþættinum á fjarskiptasviðinu sé ekki stefnt í hættu.

Aðalatriðið í málinu snýr að því að nýta þann vandaða og góða búnað Landsvirkjunar þannig að önnur fyrirtæki komist þar inn, landsmönnum öllum til góða, en ekki einungis að binda það hér við höfuðborgarsvæðið eins og m.a. kom fram í ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar. Ég tel að með því, eins og flestir ugglaust eru sammála um, að opna aðganginn að þessum búnaði og hleypa öðrum fjarskiptafyrirtækjum inn á hann, muni það þjóna landsmönnum öllum og það sé til hagsbóta fyrir landsmenn en til þess að slíkt sé hægt verður að breyta lögunum og það er kjarninn í þessu frv.