Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:27:20 (6326)

2000-04-11 14:27:20# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:27]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur sennilega fengið meiri umræðu en menn ætluðu að það fengi í byrjun. Ég tel að það sé aðeins af hinu góða því það er ýmislegt í þessu sem kannski mátti betur ræða en menn ætluðu í upphafi.

En það sem mig langaði að spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason um, sem er formaður iðnn. og hefur haldið utan um þetta mál, er fyrst og fremst að það fjarskiptakerfi sem á nú að taka undan Landsvirkjun og reka í sjálfstæðu hlutafélagi, hefur vitaskuld verið byggt upp í skjóli einokunar. Við erum að tala um fjarskiptakerfi sem hefur verið byggt upp í skjóli einokunar, sem getur hugsanlega orðið til þess að skapa auknar tekjur fyrir Landsvirkjun, og það er út af fyrir sig ekkert nema af hinu góða. En kjarni málsins er sá hvort með þessu sé verið að koma í veg fyrir að aðrir aðilar geti tekist á við fyrirtæki eins og Landsvirkjun og hugsanlega byggt upp fjarskiptakerfi því það er eitt af því stóra sem við horfum fram á í komandi upplýsingabyltingu, þ.e. að við getum jafnvel komið upp einhvers konar samkeppni milli fjarskiptakerfa. En það geta náttúrlega verið miklar hömlur á því að af því geti orðið ef við erum að byggja upp fjarskiptakerfi og selja inn á þau kerfi sem hafa byggst upp í skjóli einokunar.

Því beini ég því til hv. þm. Hjálmars Árnasonar hvort hann óttist ekki að með þessari aðferð, þ.e. að nota fjarskiptakerfi sem hefur byggst upp í skjóli einokunar, geti það orðið mjög samkeppnishamlandi þegar fram líða sundir.