Landsvirkjun

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:32:35 (6329)

2000-04-11 14:32:35# 125. lþ. 97.15 fundur 198. mál: #A Landsvirkjun# (aðild að fjarskiptafyrirtækjum) frv. 14/2000, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Nei, í rauninni misskildi ég ekki spurningu hv. þm. Ég skil hana og skil alveg hvaða hugsun er þar á bak við. Við þurfum þá að hafa í huga að Íslendingar eru afskaplega fámenn þjóð. Það hefur komið fram, m.a. hjá þeim gestum sem ég nefndi áðan, að þeir telja afskaplega óskynsamlegt að fara að búa til fleiri þjóðvegi á fjarskiptamarkaðnum þar sem þessi er til staðar og það er hægt að nýta hann. Í þessu sambandi er líka rétt að árétta að Landsvirkjun verður ekki heimilt að styrkja þessa þjóðbraut með nokkrum hætti úr öðrum rekstri sínum heldur verður þá að reka hana sem sjálfstæða einingu og hleypa öðrum inn. Það er mjög skynsamlegt að nýta mjög dýran búnað sem er til staðar og getur tekið við þeim fyrirtækjum sem eru að keppa á fjarskiptamarkaðnum frekar en að leggja í dýran búnað sem þá hugsanlega nýttist afskaplega illa. Það væri hugsanlega offjárfesting eins og markaðurinn er núna og kæmi niður á neytendum. Ég skil hugsun hv. þm. en ég óttast það ekki og tek í rauninni undir það sem stjórnendur fjarskiptafyrirtækja segja almennt um þetta að þeir sjá að þarna verði opnað fyrir samkeppni sem nýtist vonandi landsmönnum öllum.