Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 14:40:47 (6332)

2000-04-11 14:40:47# 125. lþ. 97.16 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[14:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við, ég og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, skrifum undir þetta nál. Í því kemur fram eftirfarandi:

Með frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1998 er ríkisstjórnin að leggja til að skip sem voru við síldveiðar á árunum 1995, 1996 og 1997 fái veiðiheimildir afhentar af hálfu hins opinbera án endurgjalds og þurfi síðan ekki að veiða neitt en megi umsvifalaust selja allar þær veiðiheimildir sem þau fá. Önnur skip sem fá veiðiheimildir en voru ekki við síldveiðar á árunum 1995, 1996 eða 1997 mega hins vegar ekki framselja neitt heldur verða þau að veiða allt sem þeim verður úthlutað. Í desember árið 1998 féll frægur dómur, nr. 145, í Hæstarétti. Meginniðurstaða hans var sú að það samræmdist ekki atvinnufrelsis- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir gætu fengið veiðileyfi sem hefðu haldið skipum sínum til veiða á tilteknum árum. Í janúar sl. féll í undirrétti svokallaður Vatneyrardómur þar sem niðurstaðan er sú að sama eigi við um veiðiheimildir og það sem Hæstiréttur komst að niðurstöðu um varðandi veiðileyfi, að það samræmdist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

En þegar þetta nál. er lagt fram þá hefur Hæstiréttur ekki tekið afstöðu til Vatneyrardómsins.

Fyrir utan það siðleysi sem felst í að afhenda réttinn til veiðanna án endurgjalds keyrir um þverbak að ríkisstjórnin skuli leggja það til að síðan gildi ekki sömu reglur fyrir alla. Reglur ríkisstjórnarinnar fara eftir því hvort skip var við síldveiðar árið 1995, 1996 eða 1997. Það ræður hvernig þau eru meðhöndluð. Þetta eru töfraárin að mati ríkisstjórnarinnar, þau ár sem gefa rétt til úthlutunar ókeypis gæða sem síðar má selja. Ef viðskiptin með veiðiréttinn eru talin svona mikilvæg, af hverju eru veiðiheimildirnar þá ekki boðnar út þannig að allir sitji við sama borð?

Þegar lögin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum voru sett vorið 1998, fyrir tæpum tveimur árum, og leystu af hólmi þá aðferð að nota úthafsveiðilöggjöfina sem grundvöll veiðanna, lögðu jafnaðarmenn til að síldarkvótarnir yrðu boðnir út. Það var og í samræmi við sérstakt þingmál í þá veru sem þá hafði tvisvar verið flutt af jafnaðarmönnum. Það gekk út á að úthafslögunum yrði breytt þannig að heimilt yrði að bjóða síldarkvótana út. Í því áliti sem fulltrúar jafnaðarmanna í sjávarútvegsnefnd lögðu á sínum tíma fram við 2. umr. um frv. ríkisstjórnarinnar sem varð að lögum nr. 38/1998, um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, kemur m.a. fram að með þeirri skipan mála að veiðarnar yrðu boðnar út væri líklegast að þau markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiréttarins næðust fram.

Því áliti var jafnframt lýst að frv. væri bastarður, niðurstaða málamiðlunar stjórnarflokkanna sem gátu ekki komið sér saman um hvort veiðireynsla úr síldarstofninum ætti að mynda grunn að fastri aflahlutdeild eða ekki eins og meiri hluti nefndarinnar hafði áréttað sérstaklega við setningu úthafsveiðilaganna árinu áður. Nú virðist hins vegar samstaða um málið meðal stjórnarþingmanna. Veiðireynsla á ekki aðeins að mynda grunn að fastri aflahlutdeild og veiðirétti heldur fullkominn framsalsrétt, nánast eignarrétt sem er afhentur þeim ókeypis sem héldu skipum sínum til síldveiða á tilteknum árum. Gildandi lög segja að sjávarútvegsráðherra eigi fyrir 1. nóvember árið 2000 að leggja fram frv. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Því er ljóst að með þeim breytingum er verið að tjalda til einnar nætur. En þar sem ríkisstjórnin kýs, þrátt fyrir það, að ganga til breytinga á lögunum í þá veru sem áður er lýst munu fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni leggja fram brtt. við frv. ríkisstjórnarinnar og fylgja þannig eftir þeirri skoðun að líklegast sé að markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiheimilda fáist með því að bjóða veiðarnar út.

Undir þetta skrifum við hv. þm., Svanfríður Jónasdóttir og sá sem hér stendur.

[14:45]

Ég mæli fyrir þessari brtt. á þskj. 929. Þar er lagt til að 1. gr. frv. orðist svo:

,,B-, c- og d-liður 2. gr. laganna orðast svo:

b. Bjóða skal allar veiðiheimildir er í hlut Íslands koma til leigu á opnum markaði sem öll fiskiskip sem leyfi hafa til síldveiða skv. a-lið þessarar greinar hafa jafnan aðgang að.

Takmarkaðar aflaheimildir sem Íslendingum verður heimilt að veiða innan lögsögu annarra ríkja skulu aðgreindar eftir hafsvæðum og boðnar fram sérstaklega.

Skulu hæstbjóðendur hljóta veiðiheimildirnar í samræmi við tilboð sín, þó skal hvert skip ekki fá úthlutað meira en 7.000 tonnum.

c. Heimilt skal að framselja til annarra skipa sem leyfi hafa til síldveiða skv. a-lið þessarar greinar allt að 50% þess aflamarks sem skip hefur fengið úthlutað.

d. Sjávarútvegsráðherra skal setja með reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Ráðherra skal fela til þess færum aðila að sjá um framkvæmd útboðsins og innheimtu leigugjaldsins en hefur eftirlitsskyldu varðandi framkvæmdina. Þeir fjármunir sem innheimtast vegna leigugjaldsins skulu renna í ríkissjóð.``

Þessar tillögur eru í samræmi við það frv. til laga um stjórn fiskveiða sem Samfylkingin hefur lagt fram á hv. Alþingi.

Röksemdirnar á bak við það aflahámark sem þarna er lagt til, að ekkert skip geti veitt meira en 7.000 tonn, eru að þau skip sem mest veiddu á sl. ári fiskuðu um 7.000 tonn. Okkur finnst ástæða til þess, verði veiðarnar boðnar út, að gera það ekki þannig að einn aðili geti hrifsað til sín allar veiðiheimildir á meðan menn hafa ekki reynslu af því fyrirkomulagi sem þarna er lagt til.

Síðan er lagt til að 50% aflamarks verði framseljanlegt. Það er einfaldlega í samræmi við þær reglur sem gilda almennt um framseljanleika aflamarks í kerfi því sem hér gildir um stjórn fiskveiða.

Með þessu móti fengju allir sem hyggja á síldveiðar jafnan kost á að nálgast veiðiheimildir. Satt að segja hef ég ekki séð neinar hugmyndir sem uppfyllt geta svo eðlileg jafnræðisskilyrði í þessum atvinnuvegi. Ég hef ekki séð neinar aðrar tillögur sem betur geta komið á einhverju réttlæti og jafnræði hvað varðar aðganginn að þessum atvinnuvegi.

Mér finnst það fyrir neðan allar hellur hvernig menn hafa frá upphafi, þegar kom til að við gætum aftur farið að veiða úr þessum stofni, gjörsamlega gengið fram í því að koma lagi á eignarhald útgerðanna á þessum fiskstofni sem menn vita í dag nákvæmlega ekkert um hve stór getur orðið. Þeir sem eignast hlutdeild í þessum stofni geta eignast gífurleg verðmæti upp á framtíðina.

Hver segir að síldveiðar við Ísland geti ekki orðið miklar aftur? Þá hafa þeir sem núna eru að veiðum við Ísland og hafa sinnt því að veiða síld, eignast þann stofn. Þetta er náttúrlega þvílíkt hneyksli. Það nær ekki nokkurri átt hvernig menn fara hér með sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og reyna purkunarlaust að koma þeim í hendurnar á einkaaðilum. Menn skammast sín ekkert fyrir þetta, finnst þetta bara allt í lagi og tala um þetta eins og það skipti litlu máli.

Enginn getur spáð um það í dag hversu miklar þessar síldveiðar geta orðið. Þó svo væri þá eru þessar aðferðir fyrir neðan allar hellur og fyrir neðan virðingu hv. Alþingis, að koma þvílíkum verðmætum sem þarna geta hugsanlega verið á ferðinni í hendur einkaaðila. En það er svo sem í samræmi við hugsunarháttinn á bak við allt þetta eignarhaldsfyrirkomulag í sjávarútvegi sem búið er að vera að skrökva inn á þjóðina í gegnum tíðina.

Ég tel að Alþingi ætti að skoða það alvarlega að koma þarna á jafnrétti og jafnræði. Það er auðveldast að gera með þessu fyrirkomulagi sem við leggjum hér til.