Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:13:17 (6339)

2000-04-11 15:13:17# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hlusta á þessar umræður í ljósi þess að álíka mál liggur einnig fyrir samgn. Það segir kannski til um víðfeðmi vandans þegar þetta atriði snertir störf a.m.k. tveggja ráðuneyta ef ekki fleiri.

Út af því sem hv. síðasti ræðumaður, Kolbrún Halldórsdóttir, sagði hér vildi ég aðeins benda á að fyrir samgn. liggur frv. til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði, með síðari breytingum. Þar segir í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta var samið í samgrn. í kjölfar starfs viðræðunefndar sem sett var á fót vorið 1999 sem hafði það hlutverk að sporna gegn starfsemi svonefndra ,,erótískra`` veitingastaða. Nefnd þessi var skipuð fulltrúa Reykjavíkurborgar, dómsmrn., félmrn. og samgrn. Niðurstaða nefndarinnar var meðal annars sú að nauðsynlegt væri að breyta lögum um veitinga- og gististaði, nr. 67/1985, á þann veg að flokkum veitingastaða yrði fjölgað. Telur nefndin að með því móti væri sveitarstjórnum veitt úrræði til að geta haft áhrif á hvar slík starfsemi færi fram. Nefndin telur að í núgildandi lagaumhverfi skorti slík úrræði en með flokkun veitingastaða gætu sveitarfélög á grundvelli b-liðar 3. gr. laga nr. 36/1988, um lögreglusamþykktir, kveðið á um opnunar- og lokunartíma nektardansstaða. Jafnframt telur nefndin að sveitarfélög gætu kveðið á um það í skilmálum aðal- eða deiliskipulags hvar heimilt sé að reka slíka staði ...``

Ég geri mér fulla grein fyrir því að vandinn er kannski ekki þarna þó reynt sé að stemma stigu við honum heldur fremur hjá Útlendingaeftirlitinu. En mér þykja það mjög alvarleg orð sem hér féllu úr þessum ræðustól hjá hv. þm. áðan. Hún sagði að mikill möguleiki væri á því, og nærri fullyrti, að hér væru í gangi fölsuð vegabréf. Hvar er þá Útlendingaeftirlitið á vegi statt? Sami hópur og hér talar gegn þessu segir hins vegar að allt of hart eftirlit sé með útlendingum þegar aðrir en nektardansmeyjar koma til landsins. Nokkuð eru þingmenn orðnir sjálfum sér ósamkvæmir.