Atvinnuréttindi útlendinga

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:21:37 (6343)

2000-04-11 15:21:37# 125. lþ. 97.17 fundur 261. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (undanþágur) frv. 41/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:21]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hér hafa verið afar fjörugar umræður um nál. varðandi breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Málið er auðvitað að þessi breyting er til komin vegna þeirra erlendu dansara sem hér eru. Áður féllu þeir ekki undir neina skilgreiningu aðra en að vera listamenn, gátu komið hingað til lands, verið í fjórar vikur og farið svo út aftur.

Ég lít á þetta sem hluta af því að fylgjast með þessum dönsurum og veita þeim stuðning. Þær hafa hingað til komið sem listamenn án þess að hafa leyfi og verið þessar fjórar vikur. Núna geta þær komið, þurfa að uppfylla ákveðnar skyldur og fá ákveðin réttindi. Það má þess vegna sjá fyrir sér að þær geti leitað til stéttarfélaga, fengið túlkaþjónustu og annað sem þær gátu ekki áður vegna þess að þær áttu þess hvergi kost. Ég sé ekki betur en þarna sé stuðlað að því að hægt verði að fylgjast með þeim þeim til góðs.

Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um yfir 800 dansara á ári sem koma til landsins. Það hefur stundum verið talað um að þetta skiptist í þrjá hópa þ.e. frá Evrópu, af EES-svæðinu og síðan baltnesku löndin. Þróunin hefur orðið sú að þessi hópur er helst frá baltnesku ríkjunum og Rússlandi. Þess vegna er kannski enn mikilvægara að reyna að tryggja rétt þeirra hér vegna þess að í þessum hópi er líka stéttskipting eins og í mörgum öðrum hópum samfélagsins. Einnig er talað um að það sé orðið minna umleikis af fé, þær fái ekki eins mikið greitt núna og áður.

Orsök alls þessa má rekja til tveggja hluta. Þessir dansstaðir í miðbænum voru opnaðir og sveitarfélagið Reykjavík hafði ekki nein tæki í höndunum til þess að reyna að stýra því. Þá var brugið á það ráð að stofna vinnuhóp til að skoða hvað hægt væri að gera. Ég kom inn í þingið með umræðu utan dagskrár um verslun með manneskjur eða mannsal, um hvað gerðist á þessum stöðum. Mér finnst réttarstaða þessara kvenna skipta meginmáli.

Í nefndinni komu fram tillögur. Í fyrsta lagi að veita sveitarfélögum stýritæki til að stjórna því hvernig miðbæir þeirra líta út og hvernig leyfi þessi staðir eigi að hafa. Það frv. hefur verið til umfjöllunar í samgn. og líka í félmn. Í annan stað var sú breyting sem hér er gerð. Það má vel vera að það sé hægt að ganga lengra en mig langar að vita hvernig. Þetta er ein leiðin, að taka þá sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins og krefja þá um atvinnuleyfi og dvalarleyfi. Við getum líka fremur stutt þær þegar við vitum hverjir eru í landinu og getum fylgst betur með málunum. Það finnst mér skipta máli gagnvart þessum konum. Mér finnst að fólk megi ekki tapa sér í því að við göngum ekki nógu langt og gerum ekki nóg. Þetta eru þau tvö skref sem stíga á núna og ég er þeim afskaplega fylgjandi.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði áðan af hverju íslenskar stúlkur dönsuðu ekki á þessum stöðum. Kannski er það vegna þess að þær gætu komist að einhverju sem hægt væri að grauta í. Það getur verið ein ástæðan. Mér finnst hins vegar spurning hvort við eigum að berjast fyrir því að þær fái þarna vinnu. Ég fæ ekki betur séð en símaklámið sé aðaliðngrein íslenskra kvenna. Það verður mjög fróðlegt að sjá þegar úttekt hefur verið gerð á því vændi sem til er. Þá höfum við kannski eitthvað meira til að sjá hvar þurfi að grípa inn í, hvar við getum verið með forvarnir þannig að það er mjög margt í pípunum. Þetta eru tvær tillögur, þ.e. breyting á atvinnuréttindum útlendinga og svo hins vegar þetta með næturklúbbana þannig að sveitarfélögin hvort sem það er Akureyri, Reykjavík, Hafnarfjörður eða Keflavík geti nýtt þetta sem stýritæki. Ég held að það sé mjög erfitt og við sjáum hvort sveitarfélögin finna einhverjar leiðir í því. Ákveðnir staðir eru komnir til að vera og þá er spurning hvernig við ætlum að hafa eftirlit með þeim.

Aðalvandamálið, t.d. í Finnlandi, voru þessir beru barir svokölluðu þar sem þjónar, aðallega konur, voru alltaf berar að ofan. Þeir spruttu upp eins og gorkúlur. Ég held að þeir hafi verið 100 í Helsinki einni. Fólk gat ekki farið og drukkið einn bjór öðruvísi en að vera alltaf með brjóst ofan í glasinu. Þannig má sjá að þetta gengur í eins konar bylgjum. Það má kannski segja sem svo að staðan á Íslandi núna sé eins og staðan var í Danmörku fyrir 30 árum síðan. Þetta er nákvæmlega eins og þegar klámbylgjan reið þar yfir. Ég veit ekki hvort ég hafi gaukað þessari hugmynd að nýjum skemmtanahöldurum í Reykjavík, ég veit það ekki, en þetta var vandamál sem Helsinkiborg tók á sem sveitarfélag. Við eigum auðvitað líka að læra af þeim sem tekist hafa á við þetta.

Ég lýsti mig samþykka þessu nál. Ég sá enga ástæðu til þess að hafa fyrirvara við að ekki kæmi fram í 1. gr. að beinlínis væri talað um dansara nektardansstaðanna. Það getur líka vel verið að eitthvað nýtt komi upp þar sem ekki eru bara einhverjir dansarar. Eins og ég sagði í fyrri umræðunni þegar málið var kynnt veit maður ekki hvort þetta endar sem einhverjir þjóðdansar á þessum stöðum. Við getum ekki heldur tryggt það.

Ég og við fulltrúar Samfylkingarinnar lýstum okkur sammála þessu nál. Þetta er rétt skref og ég vona svo sannarlega að það gefist vel. Ég veit að við eigum eftir að skoða þessi mál mun nánar í tengslum við önnur frv. sem liggja fyrir í þinginu.