Eftirlit með útlendingum

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 15:43:36 (6350)

2000-04-11 15:43:36# 125. lþ. 97.18 fundur 328. mál: #A eftirlit með útlendingum# frv. 25/2000, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[15:43]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um breytingu á lögum um eftirlit með útlendingum. Þetta frv. er eitt af fleiri frv. sem hafa verið til meðferðar hjá nefndinni vegna fyrirhugaðrar þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu.

Við meðferð málsins hjá nefndinni kom berlega í ljós að mikil þörf er á heildstæðri löggjöf um málefni útlendinga hér á landi. Það kom m.a. skýrt fram í máli þeirra gesta sem nefndin fékk á sinn fund. Núgildandi lög eru að stofni til frá 1965 en þá voru þau sett til að laga íslenska löggjöf að nýgerðum samningi Norðurlandanna um afnám vegabréfaskyldu. Bent var á að frv. þetta breytti í raun litlu um það lagalega tómarúm sem hér væri til staðar um öll helstu grunnatriði sem varða lagalega stöðu útlendinga, meðferð á málum þeirra, komu og dvöl í landinu og brotthvarf héðan. Schengen-samstarfið gerir ráð fyrir að í hverju aðildarríki fyrir sig sé fyrir hendi heildstæð löggjöf um réttindi og stöðu útlendinga. Nefndin telur afar brýnt að löggjöf á þessu sviði verði endurskoðuð í heild nú þegar, bæði vegna stöðu mála innan lands og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Því er það sérstakt fagnaðarefni að hæstv. dómsmrh. ætlar að leggja fram frv. á næsta þingi um málefni útlendinga eins og hann hefur þegar boðað hér á hinu háa Alþingi.

Á fundi nefndarinnar kom ábending frá flugmálastjóra varðandi 7. gr. 1. mgr. frv. um að líklegt væri að í framtíðinni komi haldlagning lögreglu á farseðlum ekki til með að stöðva farþega. Byggist þessi ábending á þeim breyttu viðskiptaháttum í flugi sem öðrum þáttum viðskiptalífsins. Líklegt er að rafrænir farseðlar taki við af pappírsútgáfu þeirra í náinni framtíð. Má því telja að haldlagning lögreglu á farseðlum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. frv. nái til farseðla eða ígildi þeirra.

Að mati nefndarinnar er gildistökuákvæði frv. ekki nægilega skýrt. Með því að heimila dómsmrh. að ákveða hvenær lögin öðlist gildi er verið að framselja heimild löggjafans til að ákvarða um gildistöku laga. Um meðferð Schengen-upplýsingakerfisins var svipað gildistökuákvæði. Því var breytt í yfirferð nefndarinnar og hefur það frv. verið staðfest sem lög frá Alþingi. Hér gilda sömu röksemdir og um það gildistökuákvæði.

Fram kom að hér er um sérstakt vandamál að ræða því ekki liggur fyrir hvenær Ísland muni hefja þátttöku í Schengen-samstarfinu. Í grg. með frv. var tekið fram að fyrirhugað sé að Norðurlöndin hefji þátttöku haustið 2000. Nú er verið að ræða um að það verði hugsanlega 25. mars árið 2001. Eftir því hvernig undirbúningi miðar gæti þó verið hugsanlegt að fresta þátttökunni. Af þeirri ástæðu er lagt til að ráðherra ákveði hvenær lögin öðlist gildi. Röksemdirnar með þessu eru því ósköp skýrar.

Herra forseti. Í máli Páls Hreinssonar sem kom á fund nefndarinnar kom skýrt fram að ákvæðið eins og það er í frv. brýtur ekki í bága við stjórnarskrána ef bætt yrði við að lögin yrðu birt í A-deild stjórnartíðinda. Hins vegar kom einnig fram í máli hans að slíkt valdframsal löggjafans eigi að vera alger undantekning. Það var því mat nefndarinnar að þrátt fyrir að gildistökuákvæði frv. stæðist stjórnarskrá væri ákvæðið óheppilegt. Hér er um að ræða algera undantekningu frá því sem almennt tíðkast sem er ekki í samræmi við þá lagahefð sem skapast hefur hér á landi, að Alþingi ákveði hvenær lög sem það hefur samþykkt öðlist gildi. Vegna almenns réttaröryggis verður að vera skýrt hvenær og hvernig lög taka gildi. Ekki síst þarf að birta þau með lögformlegum hætti svo almenningur geti kynnt sér efni þeirra.

Herra forseti. Í ljósi þessa er lagt til að skýrt verði kveðið á um hvenær lögin öðlist gildi. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.