Notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 16:33:35 (6359)

2000-04-11 16:33:35# 125. lþ. 97.20 fundur 233. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka hjá Veðurstofu Íslands# þál., Frsm. minni hluta ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[16:33]

Frsm. minni hluta umhvn. (Ásta Möller) (andsvar):

Herra forseti. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi nefnt vindstig sérstaklega í þessu samhengi í málflutningi mínum áðan. En það sem skiptir máli í þessu sambandi er að íslenskt mál sé lifandi mál og endurspegli þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

Ég mundi t.d. ekki mæla með því að tekinn væri upp þumlungur aftur en þumlungur var mælieining hins eldri tíma og ég veit hvað þumlungur þýðir. Ég veit og ég held að þjóðin viti hvað gola þýðir og andvari. En margir hafa kosið að nota þessi fallegu hugtök og fallegu orð í öðru samhengi eins og ég sagði áðan. Þeir hlógu að mér félagar mínir í umhvn. þegar ég nefndi að ég átti hest sem hét Gola og Gola átti folald með Kalda og afkvæmið heitir Dropi. Svo eru fleiri hestar í kringum mig sem heita Nökkvi og svo eru fleiri nöfn sem tekin eru úr veðurlýsingum. (Gripið fram í: Fimm metrar á sekúndu.) Ég hlakka til að eignast hesta sem heita Strekkingur, Stormur, Þeyr og Gaddur. Þannig erum við að viðhalda íslenskunni öðruvísi en með því að þvinga Veðurstofuna eða öllu heldur með því að Alþingi beini til umhvrh. að beina til Veðurstofunnar sem er fagleg stofnun, að taka upp ákvörðun sem þeir hafa byggt á faglegum rökum. Við höfum mismunandi skoðanir á þessu og það er allt í lagi. Það er ekkert að því og ágætt að skiptast á skoðunum um það.