Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 17:11:25 (6375)

2000-04-11 17:11:25# 125. lþ. 97.21 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[17:11]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fyrst nokkur orð um hvers vegna þetta lagafrv. er komið fram. Það er flutt í framhaldi af niðurstöðu Félagsdóms sem sýknaði Félag íslenskra leikskólakennara af kröfum stefnanda, sem var launanefnd sveitarfélaga fyrir hönd Árborgar, um að uppsagnir nokkurra leikskólakennara yrðu dæmdar brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings og því ólögmæt vinnustöðvun. Þetta er ein ástæðan fyrir því að þetta frv. er komið fram. Önnur ástæðan er sú að menn kveðjast vilja samræma þær reglur sem gilda um vinnustöðvanir hjá opinberum starfsmönnum og eru skilgreindar og lögfestar í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, við það sem tíðkast á almennum vinnumarkaði og er lögfest í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Menn segja að nú sé nauðsynlegt að jafna þann mun sem er að finna á milli þessara tveggja kerfa. Staðreyndin er sú að talsverður munur er þarna á milli og hallar þar í flestu á opinbera starfsmenn sem búa við mun þrengri reglur í þessum efnum en tíðkast á almennum vinnumarkaði. Og sú lagabreyting sem hér er lögð til gengur í þrengingarátt gagnvart opinberum starfsmönnum.

Ég hef áður harmað þann ásetning hæstv. fjmrh. að lögfesta þessar breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og tel ástæðu til þess að nú hinkri menn ögn við og langar mig til að nefna þrjár ástæður til þess.

Í fyrsta lagi vil ég minna á að lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna urðu til í kjölfar samninga um það efni. Þeir samningar höfðu staðið á árinu 1986 og í nóvembermánuði það ár var undirritað samkomulag á milli samtaka opinberra starfsmanna --- BSRB og BHM áttu þar hlut að máli --- og handan borðsins var fjmrn. og sveitarfélögin. Þau komust að sameiginlegri niðurstöðu og beindu því síðan til löggjafans að fá hana lögfesta.

Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að ég tel mikilvægt að viðhafa önnur vinnubrögð en hér eru lögð til og byggja á einhliða breytingum á lögunum án þess að leitað hafi verið nægilega eftir samstarfi og samráði um þær breytingar og um það gert samkomulag.

[17:15]

Önnur ástæða fyrir því að ég tel hyggilegt að endurskoða þann ásetning hæstv. fjmrh. að fara fram með þessa lagabreytingu á þessu stigi er sú að fram hefur komið mjög eindreginn vilji af hálfu allra hluteigandi aðila og þá ekki síður frá samtökum launafólks til að ráðast í heildarendurskoðun á lögunum. Þetta hefur komið fram hjá BSRB, BHM og Kennarasambandi Íslands.

Í þriðja lagi tel ég ástæðu fyrir ríkisstjórnina og hæstv. fjmrh. að endurskoða og íhuga hvort ekki sé ráð að fara aðrar leiðir í þessum efnum þar sem fram hefur komið fjöldi greinargerða frá samtökum launafólks þar sem þessi vilji er ítrekaður, þ.e. að ráðast í slíka endurskoðun á lögunum. Ég held að verði lögfestingu þessa frv. skotið á frest þá muni það auðvelda þetta starf.

Ég ætla þess vegna að leyfa mér að beina því til ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. að þetta verði tekið til skoðunar áður en málið kemur til 3. umr. og helst verði ákvörðuninni skotið á frest. Þetta er viðamikið mál og mörg skjöl sem fylgja því. Vilji minn og rökstuðningur hefur komið fram við fyrri umræðu málsins en á þessu stigi vildi ég leggja áherslu á þessi sjónarmið, þessa beiðni til ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh., að endurskoða afstöðu sína til þessa lagafrv.