Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 19:28:45 (6393)

2000-04-11 19:28:45# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[19:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki að tala um neinn flokksaga. Ég er að tala um samkomulag. Ég er að tala um samning. Ef það var þannig í Alþb. að aldrei hafi neitt verið samþykkt þá hefur afar undarlega verið að þessu staðið af hálfu Alþb. og við hefðum þá betur vitað það. Þetta snýst ekki um neinn flokksaga. (ÖJ: Hvað er maðurinn að tala um?) Þetta snýst um það, hv. þm., að gera samkomulag. Það er nú þannig, bæði að því er varðar stjórn landsins og lýðræðið almennt, að stundum þarf að gera samkomulag (ÖJ: Hvers vegna töluðuð þið ekki ...) og hópar fólks þurfa að koma sér saman um ýmsa hluti. Menn þurfa að komast að samkomulagi innan flokka og komast að samkomulagi á milli flokka. (ÖJ: Koma sér saman um að hlýða?) En ef vinstri grænir, eins og hv. þm. upplýsir hér, er þannig flokkur að enginn veit hvaða afstöðu hver og einn þingmaður mun taka þar, þá er hv. þm. að upplýsa það hér á Alþingi að ekki sé hægt að semja við þann flokk og það eru merkilegar upplýsingar. Það eru mjög merkilegar upplýsingar, hv. þm. Og það er náttúrlega út í hött að tala um lýðræðið eins og hv. þm. gerir.

Hv. þm. segist hafa verið óháður innan Alþb. Það er hið undarlegasta fyrirkomulag sem ég hef nokkurn tímann heyrt um að hægt sé að vera í ákveðnum þingflokki og í ákveðnum flokki og vera óháður innan hans. (ÖJ: Kannski með svipaða skoðun.) Ef allir hv. þm. vinstri grænna eru svona óþolinmóðir og hafa þessa afstöðu þá skil ég náttúrlega vel hvernig á því stendur að þessi þingflokkur kemur sér ekki saman um neitt annað en að vera á móti öllum málum hér á Alþingi.