Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 20:59:03 (6399)

2000-04-11 20:59:03# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[20:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði í októbermánuði sl. til að semja drög að heildarfrv. í framhaldi af því starfi sem áður hafði verið unnið í þessu efni og í framhaldi af þeim stjórnarskrárbreytingum sem hér voru afgreiddar á tveimur þingum sl. vor. Í þeirri nefnd skilaði ég séráliti til hæstv. forsrh. Ég ætla hér á eftir að gera lítillega grein fyrir því séráliti. Það mun síðan væntanlega birtast með þskj. þegar málið verður tekið til 2. umr. og frekari afgreiðslu.

Ég er þeirrar skoðunar, svo ég dragi saman heildarniðurstöðu mína í málinu, að þó þær breytingar sem hér er verið að leggja til hafi vissulega kosti og varðveiti að hluta þau markmið sem menn settu sér með þessu starfi, að draga úr misvægi atkvæða, varðveita jöfnuð milli flokka og hafi ýmsar reikningslega kosti ef svo má að orði komast, þá hefur þessi efnislega niðurstaða líka mikla galla. Mín niðurstaða er sú að gallarnir séu fleiri en kostirnir og að hægt væri að ganga mun betur frá þessari niðurstöðu en gert er í þessu frv., jafnvel innan þess stjórnarskrárramma sem staðfestur hefur verið.

[21:00]

Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil ekki belgingslegar umræður eins og af hálfu síðasta hv. ræðumanns, Guðmundar Árna Stefánssonar. Eða er hv. þm. á móti því að þingmenn reifi sjónarmið sín í málinu og það séu til fleiri skoðanir en hans? Lítur hv. þm. svo á að það sé til tjóns fyrir lýðræðið eða það sé óeðlilegt í máli af þessu tagi að einstakir þingmenn eða jafnvel þingflokkar fylgi sannfæringu sinni og hafi önnur sjónarmið en hv. þm. sjálfur? Ef þau eru málefnalega borin fram og rökstudd, er það þá óábyrgt? Ég held að hv. þm. ætti að gæta orða sinna og ég neyðist til þess að reka ofan í hv. þm. hreinar rangfærslur um t.d. aðkomu flokks míns að málinu, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, og mér þykir það miður. Ég tel að það sé í umræðum um stórmál af þessu tagi ekki málefnalegum skoðanaskiptum til framdráttar að vera með málflutning af því tagi sem hv. þm. var með hér áðan. Svo bið ég hv. þm. um eitt, og ekki síst af því hann er einn af forsetum þessa þings, ef hv. þm. á við tiltekna þingmenn eða flokka hér í salnum á hann að gjöra svo vel og nafngreina þá þannig að menn viti við hverja sé átt. Það er heldur heimóttarlegt orðalag að tala alltaf um þessa menn og hina og þessa þingmenn í staðinn fyrir að hafa kjark í sér til að nafngreina þá sem menn vilja vísa til. Ef ég mætti leyfa mér, herra forseti, að koma með þessa ábendingu til hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar.

Óhjákvæmilegt er af þessum ástæðum að taka nokkrar mínútur í að fara yfir aðdraganda málsins svo aðild okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sérstaklega okkar tveggja, mína og hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að þessu máli vegna forsögu þess. Sú nefnd sem vann undir forustu hv. þm. Friðriks Sophussonar, hæstv. fyrrv. ráðherra og núv. forstjóra Landsvirkjunar með meiru, hóf störf árið 1997. Ég hygg að ég fari rétt með að það starf hafi farið frekar rólega af stað. Ég hygg ég fari rétt með að tillögur mjög lausar í reipunum þar sem sýndar voru fjölmargar mögulegar niðurstöður, t.d. hvað varðaði kjördæmamörk, hafi fyrst verið sýndar mönnum þegar komið var fram um áramót eða komið var fram á útmánuði 1998. Ég hygg ég fari rétt með það að í þingflokki Alþb. og óháðra þar sem við sátum þá, ég og hv. þm., Ögmundur Jónasson, hafi síðast á vordögum 1998 verið kynntar lauslega margar mögulegar niðurstöður sem kæmu út úr þessu. Þar skildum við við málið á þeim vettvangi. Þegar nefnd Friðriks Sophussonar lauk störfum síðla haust 1998 vorum við ekki lengur í þeim þingflokki, ég og hv. þm. Ögmundur Jónassonar. Okkur voru aldrei á þeim vettvangi kynntar endanlegar niðurstöður nefndarinnar og þær voru ekki bornar undir okkur. Við áttum þar af leiðandi ekki á þeim vettvangi neina aðild að hinni endanlegu niðurstöðu og það er þar af leiðandi ómaklegt, mönnum fyrirgefst ef þeir vita ekki betur, en hér hef ég þá upplýst hvernig þetta bar að.

Rétt er að það komi líka fram að gefnu tilefni og vegna ómaklegra ummæla hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og hæstv. utanrrh. í okkar garð, sem ekki eru innstæður fyrir, að ég átti fund með hæstv. forsrh. Davíð Oddssyni snemma hausts 1998. Á þeim fundi bar þá stöðu á góma sem var að koma upp í íslenskum stjórnmálum að aðild manna að þingflokkum var að riðlast og til var að verða nýr þingflokkur. Sá möguleiki var ræddur að við kæmum að þessu starfi á lokasprettinum en það varð sameiginleg niðurstaða okkar að það væri ekki hyggilegt, starfið væri of langt komið til þess. Það yrði þá bara að hafa sinn gang þó þessi nýi þingflokkur ætti ekki aðild að endanlegri niðurstöðu málsins. Þar með var alveg ljóst að við sem stofnun, sem þingflokkur, yrðum ekki aðilar að hinni efnislegu niðurstöðu né bundnir af henni. Þetta var forsrh. líka vel ljóst. Að þessu var því að mínu mati staðið fullkomlega í samræmi við aðstæður sem þarna voru komnar upp í íslenskum stjórnmálum. Ég bið menn að virða staðreyndir málsins og vera ekki að reyna að hengja menn ómaklega í einhverja niðurstöðu sem þeir áttu ekki aðild að að ganga frá. Það eru hinar sögulegu staðreyndir málsins. Er þá ekki hægt að ræða um það eins og það er? Fyrir utan það að í þessu máli er alveg ljóst að ýmsir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa persónulegar skoðanir á því máli.

Það kom einfaldlega á daginn að við flest sem skipuðum þingflokk óháðra síðasta vetur sl. kjörtímabils vorum mjög gagnrýnin á niðurstöðurnar og gátum ekki stutt þær. Að vísu voru þingmenn í röðum okkar sem gerðu það, en við vorum þar a.m.k. þrír sem vorum ákaflega gagnrýnir á þetta og það kom fram. Ég lít ekki svo á að það sé neitt vandamál að ræða um þessi mál ósköp einfaldlega í ljósi þeirra pólitísku og sögulegu staðreynda sem við stöndum frammi fyrir, að á lokaspretti þessarar vinnu á síðasta kjörtímabili átti sér stað mikið umrót í íslenskum stjórnmálum, aðild manna að þingflokkum og stjórnmálaflokkum var að stokkast upp. Það hefur viss áhrif á það hvernig aðkoma flokka að þessum hlutum var.

Ég vísa þar af leiðandi algjörlega til föðurhúsanna og tek því fremur þunglega, herra forseti, þegar menn saka okkur, eða ég tók það tíl mín og flokks míns, um að vera að hlaupast burt frá samkomulagi. Sé átt við mig og hv. þm. Ögmund Jónasson í því sambandi, þá er það rangt. Við áttum ekki aðild að frágangi neins samkomulags um þetta, það hefur allan tímann legið ljóst fyrir. Ég get tekið forsrh. til vitnis um það, honum var ljóst bæði haustið 1998 og eins þegar hann endurskipaði nefnd núna á sl. hausti nákvæmlega hvernig þessir hlutir væru. Hann taldi eftir sem áður rétt að þeir þingflokkar, eins margir og kæmust að, sem ættu nú sæti á Alþingi kæmu að þessu starfi, þó að ljóst væri að aðkoma þeirra væri mismunandi. Ég tel mig hafa unnið af heilindum í nefnd undir forustu hæstv. fjmrh. og þessi aðstaða mín eða aðkoma að málinu var algjörlega ljós frá upphafi í þeim efnum. Ég tel því gífuryrði hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar algjörlega innstæðulaus í þessum efnum og sömuleiðis hæstv. utanrrh. Ég er ekki að hlaupast frá samkomulagi, ég hef ekki lagt það í vana minn frekar en ganga á bak orða minna og ætli það verði ekki fyrr sem hæstv. utanrrh. hlaupist á brott úr kjördæmi sínu en að ég hlaupi yfirleitt frá samkomulagi sem ég hef gert.

Herra forseti. Varðandi það að skrýtið sé að um þetta mál séu skiptar skoðanir verð ég að segja alveg eins og er að það væri sérkennilegt ef menn næðu því að lenda hér breytingu á kosningalögum og kjördæmaskipan án þess að uppi væru um það deildar meiningar enda kemur á daginn að einstakir þingmenn úr öllum flokkum nema þá þessari óskaplega ábyrgu Samfylkingu, sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson upplýsti sennilega svona tuttugu sinnum í ræðu sinni að væri alveg sérstaklega ábyrgur flokkur, vissi ég þó ekki að hún væri orðin til enn þá sem slík, munu fylgja sannfæringu sinni og ekki kjósa eins og kannski meiri hluti félaga þeirra í þingflokkum. Það á við um þingmenn bæði úr Sjálfstfl. og Framsfl. og voru þeir þó kannski höfuðaðilarnir að samkomulagi stjórnarflokkanna.

Það er að sjálfsögðu ekki þannig að þó menn lendi pólitísku máli af þessu tagi séu allir þvingaðir til að fylgja þeirri niðurstöðu og það er ekki þannig að endurtekin umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar á síðara þingi sé formsatriði. Það er heldur ekki þannig að þessi útfærsla á grundvelli stjórnarskrárrammans sé sú eina sem komi til greina. Ég hef einmitt reynt að undirstrika að þó að ég sé ósáttur við þann stjórnarskrárramma sem búið er að ganga frá, þá er samt innan hans hægt að ganga frá að mínu mati betri útfærslu á málinu en lögð er til í frv., í þessu gamla svokallaða samkomulagi. Ég hef lagt í það vinnu að útfæra það og hér eru þær tillögur í séráliti mínu. Ég held því að hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni væri nær að virða þá viðleitni sem þar var sýnd til þess að sýna möguleika, aðra möguleika sem þó virða þá niðurstöðu sem fengin er samkvæmt stjórnarskrárbreytingu, halda til haga þeim jöfnuði milli flokka sem þarf að nást þarna og eru vel innan marka þess misvægis atkvæða sem stjórnarskrárramminn setur, reyndar ívið betri þær tillögur sem ég hef flutt, en þær sem á að lögfesta með þessu frv. ef af verður.

Herra forseti. Niðurstaða mín er sem sagt sú að þó að þessi niðurstaða, þessi tillaga hér, hafi að sjálfsögðu ákveðna kosti, og ég endurtek að hún hefur fyrst og fremst stærðfræðilega kosti, reikningslega kosti, þá hefur hún líka stóra galla. Ástæðan fyrir því að ég setti mig strax á móti þeim hugmyndum sem reifaðar voru í tillöguformi á lokaspretti vinnu nefndar Friðriks Sophussonar í síðasta skipti sem mér voru kynntar þær, og ef minni mitt svíkur ekki var það á vordögum 1998, var m.a. ákaflega óheppilega dregin kjördæmamörk á landsbyggðinni. Það hefur allan tímann verið niðurstaða mín að það væri of vond niðurstaða sem þar væri í sjónmáli, byggðapólitískt séð og af ýmsum fleiri ástæðum, til þess að hún væri ásættanleg, menn yrðu bara einfaldlega að vinna þessa vinnu. Það getur ekki verið þannig, herra forseti, að þó að mönnum sé mikið í mun að ná fram breytingum á kjördæmaskipan og draga úr misvægi atkvæða þá séu menn þvingaðir til þess að samþykkja stórgallaða niðurstöðu bara af því að einhverjir hafi komið sér saman um það. Ég spyr bara á hvaða brautum menn eru í röksemdafærslu sinni ef þeir ætla eins og þeir tveir hv. síðustu ræðumenn, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og hæstv. utanrrh., að bregðast í raun og veru ókvæða við að það skuli fyrirfinnast önnur sjónarmið en þau að þetta eigi bara að ganga í gegn umyrðalaust. Mér hugnast ekki mjög sú framsetning mála af þeirra hálfu.

Rembingur hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og tal um ábyrga annars vegar og ekki ábyrga flokka eða þingmenn hins vegar var í hæsta máta óviðeigandi og það skyldi nú ekki vera að það væru þunnir veggir og tiltölulega gagnsæir í því húsi sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson býr í í þessum efnum.

Herra forseti. Rétt til að rifja örstutt upp megingagnrýni okkar í fyrsta lagi á stjórnarskrárrammann sem hefur nú verið lögfestur. Mér er að sjálfsögðu ljóst að hann er frágengið mál en ég held að sé rétt samt að halda því til haga samhengisins vegna að við gagnrýndum þar sérstaklega tiltekna þætti. Við gagnrýndum þar í fyrsta lagi að menn hefðu gefið sér of stífar forsendur í sambandi við að öll kjördæmi landsins þyrftu að vera jafnstór í skilningnum jafnmargir þingmenn. Þar hefði verið skynsamlegra að leyfa eitthvað meiri sveigjanleika þó það hafi vissulega kosti að mismunurinn sé ekki of mikill og það sé hárrétt að það kallar á meiri jöfnunarþörf eða fjölgun jöfnunarsæta ef þar er leyft meira svigrúm en ég held að niðurstaðan af því að skoða landakortið og skoða búsetuþróun eins og hún hefur orðið í landinu, illu heilli, sé sú að það sé ekki hægt að ná fram skynsamlega landfræðilega dregnum og afmörkuðum kjördæmum nema að kaupa það eitthvað á kostnað sveigjanleika í stærð kjördæma. Það er bara þannig. Nema gera landið allt að einu kjördæmi.

Í öðru lagi gagnrýnum við þá furðulegu niðurstöðu að skipta einu sveitarfélagi landsins, Reykjavík, í tvennt. Það er ekki bara einhver meinbægni eða tilraun til að gera út á einhverja pólitíska óánægju af okkar hálfu. Er það virkilega svo að menn telji það engin efnisrök í málinu? Finnst engum það vandræðaleg niðurstaða að taka eitt sveitarfélag landsins og kljúfa það upp og hafa svo kjördæmamörkin í því sveitarfélagi á flakki eftir því hvernig íbúaþróun milli vesturbæjar og austurbæjar eða norðurvangans og suðurvangans í sveitarfélaginu þróast? Nei, auðvitað er þetta vandræðaniðurstaða. Menn geta sagt sem svo: Ekki var um annað að ræða, það varð að hafa þetta svoleiðis. Gott og vel, en menn eiga ekki að vera að gera lítið úr því eða telja það eitthvað ómálefnalegt innlegg að minna á þá vandræðalegu niðurstöðu.

Ég minni að lokum á harða gagnrýni okkar á 5% þröskuldinn sem við teljum of háan og ólýðræðislegan. Hann getur leitt til þeirrar niðurstöðu að framboð sem fær rétt tæp 5% atkvæða í landinu, fær einn þingmann kjörinn, kjördæmakjörinn. Það framboð fær hins vegar ekki þau tvö jöfnunarsæti í viðbót sem það ætti rétt á og það finnst okkur ólýðræðislegt. Eins og úrslit síðustu kosninga ættu að hafa sýnt erum við ekki að þessu sérstaklega af umhyggju fyrir okkur sjálfum, ekki reyndist þörf á því eins og sumir reyndu nú að láta liggja að í umræðum um þetta í marsmánuði fyrir rúmu ári. Staðreyndin er sú að með því að taka þetta dæmi sjá menn í raun hversu ankannaleg niðurstaða þetta væri; að flokkur sem á rétt samkvæmt fylgi í landinu á þremur þingmönnum, nær kjördæmakosnum manni en er sviptur sínum tveimur jöfnunarmönnum út á þennan þröskuld af því hann er hafður svona hár. Hann er mun hærri en víðast hvar annars staðar í kringum okkur, að undanskildu Þýskalandi þar sem þessi þröskuldur er 5% en þar eru þó vissir möguleikar til að koma að mönnum með öðrum hætti.

[21:15]

Varðandi kjördæmamörkin og gagnrýnina á þau, herra forseti, þá er þar kannski þrennt efst í mínum huga. Í fyrsta lagi verður til afar víðlent, landfræðilega og samskiptalega, tiltölulega ósamstætt Vesturkjördæmi. Það kjördæmi verður því miður frá byrjun veikt. Og það kjördæmi miðað við núverandi búsetuþróun mun væntanlega verða fyrsta kjördæmið til að tapa mönnum, jafnvel strax í öðrum kosningum gæti þetta kjördæmi, ef svo heldur sem horfir, tapað tveimur mönnum. Það er ekki góður frágangur á máli af þessu tagi að leggja upp með slíkt, að kjósa meiri fjölda þingmanna í fyrstu kosningunum í ljósi þess að þeir detta síðan niður strax í næstu. Við þekkjum það, m.a. af leiðinlegri reynslu í Norðurl. e. því svo illa tókst nú til við kjördæmabreytinguna 1983 að 7. þingsæti Norðurl. e. fluttist úr því kjördæmi strax í öðrum kosningum frá breytingunum eftir að þær tóku gildi. Þar með hallaði á það kjördæmi landsbyggðarinnar sem hafði langflest atkvæði á bak við hvern sinn þingmann.

Í öðru lagi kemur út úr þessu sú stórmeingallaða niðurstaða, sérstaklega í byggðapólitísku tilliti að kjördæmamörk verða á miðju Norðurlandi, þar sem síst skyldi ef menn vildu búa til sterk kjördæmi á landsbyggðinni með öfluga þungamiðju, þ.e. Akureyri, sem einhverja viðspyrnu og eitthvert mótvægi í byggðapólitísku tilliti. Það er eins óskynsamlegt og nokkuð getur verið að hafa jaðar um miðja landsbyggðina á Tröllaskaga, þar sem átti að vera miðjan í stóru og öflugu landsbyggðakjördæmi, og þess vegna mun stærra en Norðlendingafjórðungur einn ef út í það er farið að stækka kjördæmið hressilega á annað borð, sem er svo allt annað mál og umdeilanlegt.

Í þriðja lagi nefni ég það sem ég hef þegar gert með vandræðaganginn með skiptingu Reykjavíkur. Aðaltillaga mín, herra forseti, er því sú að reyna innan ramma stjórnarskrárbreytinganna sem þegar hafa verið gerðar, að útfæra kjördæmamörkin þannig að út úr því komi skynsamleg niðurstaða. Að til verði Vesturkjördæmi, Norðurkjördæmi, Suðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavík í einu kjördæmi. Þessi kjördæmi verði með sjö þingmönnum í tilviki Vesturkjördæmisins, níu í Norðausturkjördæminu, sjö í Suðausturkjördæmi og Suðurkjördæminu, ellefu í Suðvesturkjördæminu, þ.e. Reykjavík án Suðurnesja sem mundu fylgja Suðurkjördæminu og 22 í Reykjavík, í einu sameinuðu kjördæmi, 16 kjördæmakjörnir og þá að vísu yrðu að vera þar sex jöfnunarmenn til að ná fullum jöfnuði. Þetta gefur mesta misvægi upp á 1,86 og er vel innan þeirra marka sem þarna eru sett. Í séráliti mínu í kosningalaganefnd hæstv. fjmrh. er þetta nánar útfært og sýnt í töflum og kortum.

Ég hef einnig, herra forseti, útfært tillögur sem sýna vegna vandræðagangsins með skiptingu Reykjavíkur aðra mögulega lausn í því tilviki, sem væru þrjú kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu öllu, dregin þannig að horft sé fram hjá sveitarfélagamörkum og búin séu til þrjú nokkuð jafnstór og vel landfræðilega samstæð kjördæmi úr þessu borgarsvæði sem hér er. Ég tel það skárri niðurstöðu fyrir alla en þessa vandræðaskiptingu Reykjavíkur. Þar með yrði t.d. eyjan Seltjarnarnes hluti af vestanverðri Reykjavík o.s.frv. Mér finnst það miður að menn skuli hafa bitið sig svo fasta í svokallað samkomulag eða telja það slíkt drengskapar- og hetjuskaparmál að berja hið svokallaða gamla samkomulag í gegn óbreytt, eins og heyra mátti á hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, að enginn hljómgrunnur skuli eiginlega hafa fengist fyrir skoðun tillagna af því tagi. Ég vona, herra forseti, að það fáist hins vegar hér í umfjöllun þingsins.