Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 21:33:16 (6407)

2000-04-11 21:33:16# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, KHG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[21:33]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Nú er þetta mál komið til umræðu að nýju. Það var hér til umræðu á síðasta þingi fyrir alþingiskosningar og menn tókust á um það eins og það lá fyrir þá. Síðan hefur málið verið til meðferðar á nýkjörnu Alþingi í ljósi samþykktra stjórnarskrárbreytinga.

Niðurstaðan af umfjölluninni nú er mjög svipaðar tillögur og afgreiddar voru á fyrra þingi. Smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á fyrri tillögum, sem ég lagðist gegn, og breytingarnar eru ekki það miklar að það nægi til að snúa mér til fylgis við tillögurnar sem hér liggja fyrir. Því er nokkuð ofmælt sem hér kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni er hann gaf í skyn að þingmenn hefðu skipt um skoðun eða stæðu ekki við afstöðu sína frá fyrri umfjöllun málsins. Ég vil einfaldlega draga það fram svo það liggi ljóst fyrir að ummæli hans, að svo miklu leyti sem þeim var beint til mín, eiga ekki við rök að styðjast. Ég hef haldið skoðunum mínum í þessu máli skýrt fram og hef í umfjöllun málsins ekki snúið frá þeim. Það hélt ég að væri frekar til marks um að menn héldu sömu stefnu og þeir gáfu upp fyrir kosningar. (GÁS: Að skipta um flokk?) Það var líka fyrir kosningar.

Niðurstaðan er að mörgu leyti einföld ef málið er tekið saman. Það sem menn ætluðu að gera var að draga úr misvægi atkvæða sem kallað var. Ég lýsi ekki yfir andstöðu við það markmið. Ég tel að það hafi skekkst að mörgu leyti, misvægið hafi aukist frá því sem menn ákváðu á 6. áratugnum. Það er ekki hægt og ekki eðlilegt að andæfa breytingum á þeirri stöðu sem upp var komin. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að meiri hluti þjóðarinnar kjósi meiri hluta þingmanna. Á höfuðborgarsvæðinu býr meiri hluti þjóðarinnar og ekki eðlilegt að sá meiri hluti kjósi minni hluta þingmanna eins og verið hefur. Ég hef ekki verið í andstöðu við þann megintilgang málsins, að draga úr misvæginu.

Hins vegar hef ég skýrt haldið fram þeirri skoðun minni að það að misvægi sé fyrir hendi sé ekkert mannréttindabrot eða á neinn hátt sérstaklega slæmt mál. Það er auðvitað samkomulagsmál milli hinna pólitísku fylkinga hvert misvægið á að vera á hverjum tíma, hvað menn koma sér saman um í þeim efnum. En kerfi sem við styðjumst við, sem byggir á fulltrúalýðræðinu, eins og flest önnur lýðræðisríki í heiminum fylgir misvægi. Það er mjög mismunandi eftir ríkjum. Í sumum ríkjum er það mikið og öðrum ríkjum minna en ég hef hvergi rekist á að menn haldi því fram að slíkt kerfi sé ólýðræðislegt eða gangi á svig við eðlileg mannréttinda\-ákvæði. Mér finnst því og hef staðið vörð um það sjónarmið að það eigi að vera fulltrúalýðræði.

Breytingin að þessu leyti er hins vegar mjög róttæk. Hún bitnar mjög misjafnlega á íbúum þessa lands. Nú þegar flytja menn sex þingsæti af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið og innan fárra ára bætast tvö til viðbótar. Þannig verða á mjög stuttum tíma átta þingsæti flutt af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið. Sjö af þessum átta þingsætum koma af einu svæði á landinu. Sjö af þessum átta þingsætum koma af veikasta svæði landsins, norðvesturhluta landsins, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Það svæði hefur í dag 15 þingsæti og mun fara niður í átta þingsæti eftir kosningarnar 2007. Það mun missa um helming af þingstyrk sínum og vegna þess að við búum við fulltrúalýðræði þá skiptir þingstyrkur máli.

Með þessari breytingu eru menn að veikja stöðu veikasta svæðis landsins mjög mikið án þess að gefa því svæði neina viðspyrnu með öðrum aðgerðum. Þess vegna er andstaðan við þetta mál mest á þessu svæði og hún gengur í gegnum flokkana. Andstaðan er ekki bundin við flokka heldur svæðið.

Stuðningurinn er auðvitað mestur hjá þeim sem njóta góðs af breytingunni. Annars staðar á landsbyggðinni hafa menn unað breytingunni af því að þeir sleppa sæmilega með hana. Þannig eru staðreyndir málsins. Það verður að hafa þessa yfirsýn til að skilja afstöðu manna. Ég tel ekki eðlilegt að ég sem þingmaður úr veikasta kjördæmi landsins fagni breytingum sem gera íbúa þessa landsvæðis hálfu máttlausari á löggjafarsamkomunni en þeir eru í dag. Mér er lífsins ómögulegt að sjá ljósið í þeirri breytingu fyrir þá kjósendur sem ég er umbjóðandi fyrir.

Þar fyrir utan hef ég ýmislegt við hinar endanlegu tillögur að athuga. Ég vildi rekja það í fáeinum orðum. Í fyrsta lagi vil ég benda á að tillögurnar eru ekkert fullgerðar. Menn hafa í raun ekki lokið þessu máli. Augljósasta dæmið um það er tillagan um skipan höfuðborgarsvæðisins í kjördæmi. Hún ber það með sér að málinu er ekki lokið. Menn ætla að búa til kjördæmi úr þessu samfellda svæði, þrjú kjördæmi sem eru ákaflega einkennilega saman sett. Eitt kjördæmið er í fjórum pörtum utan um hitt. Það þýðir einfaldlega að menn hafa ekki lokið málinu. Það eru auðvitað ekki meðmæli með tillögunum. Annað sem er slæmt við tillögurnar er að menn búa til þrjú kjördæmi á landsbyggðinni og ekkert þeirra hefur neina þá pólitísku vigt sem þarf til að vera í fremstu röð íslenskra stjórnmála. Það skiptir ekki bara máli hvaða þingsætafjöldi er í hverju kjördæmi, þar skiptir líka máli styrkurinn úr hverju kjördæmi og hann ræðst auðvitað af íbúafjölda.

Miðað við tillögu þá sem fyrir liggur eru þrjú kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu mjög fjölmenn. Þrjú kjördæmi á landsbyggðinni eru miklu fámennari. Það þýðir að pólitíska þyngdin færist inn á höfuðborgarsvæðið í miklu ríkari mæli en verið hefur. Ráðherrastöður og forustumenn flokkanna verða fyrst og fremst af þessu svæði. Þannig mun þróunin verða. Áhrif landsbyggðarinnar munu því minnka, jafnvel þó ekki sé alls staðar um að ræða fækkun á þingsætum. Þess vegna varpa ég fram hugmynd um að breyta tillögunum sem menn voru búnir að koma sér saman um fyrir síðustu alþingiskosningar til að búa til landsbyggðakjördæmi sem væru fjölmenn og hefðu jafnmarga þingmenn og kjördæmi höfuðborgarsvæðisins. Þau væru þannig að pólitískum styrk að úr því kjördæmi kæmu ævinlega forustumenn í flokkunum eða ráðherraefni. Þannig gætum við betur tryggt áhrif landsbyggðarinnar á framgang mála en þær tillögur gera sem hér liggja fyrir.

Ég vil gera fáeinar athugasemdir. Í lýsingum á þessum tillögum segir að þær séu til þess fallnar að einfalda kosningakerfið vegna þess að ekki þurfi að beita jafnflóknum aðferðum og nú tíðkast við úthlutun þingsæta, þá einkum jöfnunarþingsæta. Það sem menn eru þarna að hnýta í er hin sérkennilega úthlutun jöfnunarsæta sem stuðst hefur verið við síðan 1987, sem þýðir að þegar breyting hefur orðið á jöfnunarsæti í einu kjördæmi þá hefur orðið breyting í öðrum kjördæmum, þremur til fjórum öðrum kjördæmum. Menn hafa sagt sem svo: Kjósendur í einu kjördæmi hafa ekki yfirlit yfir það hver verður á endanum þingmaður út á mitt atkvæði. Hann getur verið í allt öðru kjördæmi.

Gott og vel. En tillögurnar sem hér liggja fyrir eru sama annmarka háðar, jöfnunarsætin eru samtengd á milli kjördæma. Það þýðir að ef breyting verður á jöfnunarþingsæti í einu kjördæmi þá kallar það á breytingar í hinum. Menn hafa með öðrum orðum ekki náð að einfalda kerfið eins og þeir stefndu að að þessu leyti.

Í öðru lagi segja menn að það verði að vera sem jafnastur fjöldi þingmanna í hverju kjördæmi til að ná eftirtöldum markmiðum:

Að tryggja jafnræði á milli þingmannahópanna. Að það verði nokkurn veginn jafnauðvelt að ná kjördæmakosningu, óháð kjördæmum. Í þriðja lagi til þess að tryggja jöfnuð á milli stjórnmálaflokka.

Við skulum skoða hvernig niðurstaðan er þegar að er gáð. Verður þingsætafjöldi kjördæmanna sem jafnastur samkvæmt tillögunum? Svarið er nei. Eftir tvennar kosningar þá munu þingmannahóparnir líta þannig út: 8 þingmenn í einu kjördæmi, í öðru 10, þá 10, 11, 11 og svo 13. Fjórar mismunandi tölur birtast okkur í sex kjördæmum. Kjördæmin hafa minnst 8 þingmenn og mest 13 þingmenn. Þetta getur ekki heitið að sem jafnastur fjöldi þingsæta sé í hverju kjördæmi. Markmiðið sem menn setja sér næst ekki.

[21:45]

Þá spyr ég: Leiðir það af sér, eins og sagt er í skýrslu kjördæmanefndarinnar fyrri, að fyrst ekki er jafn fjöldi þingmanna í kjördæmunum verði misvægi á milli flokka? Ég lagði þá spurningu fyrir reiknimeistara nefndarinnar og hvort það mundi þá ekki gerast úr því að þingsæti úr Norðvesturkjördæminu færu strax niður í átta en í Suðvesturkjördæminu upp í þrettán, að það leiddi af sér það sem varað er við í skýrslunni sem ég vitnaði til, að misvægi mundi verða á milli flokka.

En á bls. 23 í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Eftir því sem fækkar í kjördæmunum þeim mun fleiri jöfnunarsæti þarf til að jafna milli flokka.``

Og á bls. 25: ,,Ekki verður fram hjá því horft að sé eitt af landsbyggðarkjördæmunum minnkað með afgerandi hætti er líklegt að fjölga þyrfti jöfnunarsætum til að tryggja jöfnuð á milli stjórnmálaflokka.``

Með öðrum orðum ef ekki er jafn fjöldi þingmanna í kjördæmunum leiðir það af sér að fjölga þarf jöfnunarsætunum til þess að missa ekki málið út í misvægi milli flokka.

Svar reiknimeistara okkar við þessu er að jafnvel þó að þetta gerist, að þingsætum fækki svona mikið í einu kjördæminu og fjölgi svo mikið í öðru verði ekki misvægi milli flokka. Eða svo ég vitni orðrétt í svarið:

,,Ekki er meiri hætta á að ójöfnuður myndist milli flokka við þessa tilfærslu en þegar er fyrir í kerfinu.``

Með öðrum orðum er borin til baka röksemdafærslan í sjálfri skýrslunni sem er undirstaðan að tillögunni. Vegna þess að þingmenn verða mismargir í kjördæmunum verður misjafnlega auðvelt að ná kjördæmakosningu, hinn náttúrulegi þröskuldur verður misjafn. Þar með eru fokin út um gluggann öll þau markmið sem menn setja sér með tillögugerðinni.

Hvers vegna eru menn þá að smíða tillögur út frá þessum forsendum þegar þær svo hrynja allar í höndunum á mönnum á skömmum tíma? Þá eru menn ekki að gera tillögur á réttum forsendum.

Þannig mun verða eftir tvennar kosningar að í Norðvesturkjördæmi landsins, þar sem verður komið niður í átta þingsæti, mun þurfa 11,1% atkvæða til að fá örugglega kosinn kjördæmaþingmann. En í Suðvesturkjördæminu sem verður með 13 þingsæti mun ekki þurfa nema 7,1% atkvæða til að fá örugglega kosinn þingmann. Munurinn þarna á milli eru 4% og það er töluvert mikill munur, sérstaklega þegar menn segja að tillögurnar séu gerðar til þess að ekki eigi að vera munur, að annars vegar þurfi 7,1% atkvæða og hins vegar þurfi 11,1% atkvæða. Menn komast örugglega með kjördæmakosinn mann í Suðvesturkjördæminu á minna fylgi. En til þess að fá það fylgi sem dugir örugglega ekki til að fá kjördæmakosinn mann í Norvesturkjördæminu er 7,7%. Fái framboð 7,7% fylgi og minna fær það örugglega ekki kosinn mann. En fái það 7,1% í Suðvesturkjördæminu fær það örugglega kosinn mann á minna fylgi en menn fá örugglega ekki kosinn mann í Norðvesturkjördæminu. Hver eru þá örlög á þeim forsendum sem menn reisa tillögurnar á?

Þetta segir mér, herra forseti, að menn eiga að hugsa tillögurnar út frá þeim veruleika sem menn eru í raun að draga upp. Það leiðir til annarrar skiptingar en þarna er gert ráð fyrir.

Mér finnst það til að gera málið enn ógeðfelldara eða meira óaðlaðandi að ætla sér að tæta út úr Norðvesturkjördæminu, þessu aumasta kjördæmi landsins þar sem slegið er saman þremur fámennum kjördæmum, þar sem fólki mun fækka að öllu óbreyttu, hvergi neinn staður þar sem veruleg fjölgun er fyrirsjáanleg, þá ætla menn að taka út úr því einn kaupstað, Siglufjörð, og færa hann yfir í Norðausturkjördæmi og veikja það enn meira. Hver eru áhrifin af þeirri breytingu, að flytja Siglufjörð yfir í Norðausturkjördæmið? Áhrifin eru þau að flytja eitt þingsæti af landsbyggðinni til Reykjavíkur, vegna þess að Norðvesturkjördæmið fer strax niður fyrir þau mörk að misvægið verður meira en 1:2 miðað við Suðvesturkjördæmið og Reykjavík. Það tapast því þingsæti af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið við þessa breytingu.

Af hverju eru menn að gera svona tillögu til að veikja veikasta svæðið meira en nauðsynlegt er samkvæmt því sem menn ætla sér að gera? Ég átta mig bara ekki á því. Mér er sagt af spakvitrum mönnum að þetta sé gert til þess að tryggja jarðgöng til Siglufjarðar úr Eyjafirði. Er það rétt? Eru menn að gefa eitt þingsæti af norðvesturhluta landsins til Reykjavíkur til að tryggja jarðgöng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar? Mér finnst það ákaflega skrýtin tilhugsun en þetta er sú skýring sem ég hef þó helst fengið á tillögunni.

Ef menn vilja færa Siglufjörð austur fyrir þá hefði ég talið eðlilegra að menn flyttu þetta þingsæti strax í Norðausturkjördæmið og hefðu þá 11 þingmenn í því og 9 þingmenn í Norðvesturkjördæminu. Þá héldu menn lengur einu þingsæti meira á landsbyggðinni en samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir og m.a. Samfylkingin hrópar húrra yfir eins og upplýst var hér áðan af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni.

Það er ekki allt skynsamlegt í þessu. Að lokum til að sýna að menn hafa nú húmor, ef menn leggja af stað til þess að draga úr misvægi og hafa það minna en 1:2, þá taka menn upp reglu sem heitir ,,Borda-reglan`` sem er þannig að menn búa til nýtt misvægi sem er 1:4. Sá kjósandi sem vill breyta lista hefur fjórfalt meira vægi en sá kjósandi sem vill kjósa listann óbreyttan. Það er dálítið merkileg niðurstaða.