Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 21:53:37 (6408)

2000-04-11 21:53:37# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, EKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[21:53]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við erum komin að ákveðnum þáttaskilum í umræðunni um kjördæmamálið með því að við ræðum það kosningalagafrv. sem hér liggur fyrir og er afrakstur af margra mánaða vinnu sem á rætur sínar fyrst og fremst að rekja til þeirra breytinga sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili á stjórnarskránni með því að horfið var í meginatriðum frá því fyrirkomulagi sem ríkt hefur á undanförnum 40 árum og hefur verið að festa sig í sessi og á flestan hátt að reynast betur eftir því sem árin hafa liðið. Við gerum okkur grein fyrir því að þegar við erum að gera stórar breytingar á kjördæmaskipaninni hverju sinni hefur það mikla röskun í för með sér. Okkur er það öllum ljóst þegar við lítum til baka til ársins 1959 að þetta var heilmikið átak og kostaði gríðarleg átök, ekki bara innan stjórnmálaflokka heldur innan þeirra eininga sem urðu til þegar þau kjördæmi voru sköpuð eftir að þær kjördæmabreytingar gengu fyrir sig fyrir rúmlega 40 árum.

Við þekkjum það sem höfum búið úti í þessum kjördæmum að þetta gekk alls ekki átakalaust fyrir sig. Það tók mjög langan tíma að reyna að setja niður þá togstreitu sem myndaðist milli kjördæmanna, og ég hygg að ekki séu mjög mörg ár síðan að í flestum kjördæmunum hafi menn verið komnir að því að setja niður þær deilur sem settu oft mark sitt á kjördæmin í öndverðu. Það er það sem ég óttast mjög, virðulegi forseti, að þegar við göngum inn í þetta nýja umhverfi sem er greinilega að fæðast með þessari kjördæmaskipan þá eigum við eftir að upplifa þessa reynslu að nýju, þau miklu átök sem munu skapast á milli einstakra hluta innan þessara stóru kjördæma.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að þeirri nefnd sem starfað hefur að gerð kosningalöggjafarinnar núna hafi verið nokkur vorkunn vegna þess að hún fékk það veganesti og henni voru settar þær reglur sem voru í raun og veru ákveðnar með sjálfri stjórnarskrárbreytingunni. Ég hef stundum sagt það þannig að upphafið að ógæfunni var sú heimskulega markmiðssetning að reyna að negla það inn í kjördæmaskipanina að þetta svokallaða misvægi kjósenda yrði aldrei meira en 1:2 eða þar um bil. Þar með var búið að koma í veg fyrir það sem var æskilegasti kosturinn, að viðhalda í meginatriðum þeirri kjördæmaskipan sem hafði verið að festast í sessi á undanförnum áratugum og var að reynast æ betur. Ef við hefðum tekið þá ákvörðun á sínum tíma að segja sem svo: Við skulum fallast á þá pólitísku málamiðlun milli tveggja ólíkra sjónarmiða að misvægið verði ekki 1:1,8 eða 1:2 heldur 1:2,5 þá hefði verið unnt, eins og hér var sýnt fram á mjög rækilega á sínum tíma í umræðunni um kjördæmaskipanina, að varðveita í stórum dráttum þá kjördæmaskipan sem við höfum búið við á undanförnum 40 árum og ég hef verið að lýsa með nokkrum orðum.

En með þeirri ákvörðun sem var illu heilli tekin á Alþingi að breyta þessu þá gerðist það að búið var í rauninni að eyðileggja þessi litlu kjördæmi. Þau voru orðin svo smá og rytjuleg að þau voru ekki lengur á vetur setjandi. Þá stóðu menn einfaldlega frammi fyrir því vali að þurfa að skella saman nokkrum kjördæmum og búa til eitt stærra í staðinn.

Ég hélt því alltaf fram þegar þessi umræða átti sér stað á sínum tíma að í mínum huga væri það ekkert aðalatriði nákvæmlega hvar mörkin væru dregin. Úr því að menn færu í þann ólukkufarveg að breyta vægi atkvæða með þessum hætti, ganga svona langt í þessum efnum, þá væri það í mínum huga ekkert stóra málið hvort til að mynda kjördæmamörkin væru dregin við Tröllaskaga eða við botn Hrútafjarðar eða annars staðar. Mér fannst þetta aldrei vera stóra málið í þessari umræðu. Búið var að taka þá stóru ákvörðun að stækka kjördæmin, hverfa frá því sem hefur verið aðal þessarar kjördæmaskipunar, að treysta samband kjósenda og þingmanna og þá var í sjálfu sér í mínum huga fyrst og fremst einhvers konar púsluspil að raða saman og búa til einhverjar einingar sem menn teldu skástar við þessar aðstæður. Ég hygg að það hafi verið það sem í raun og veru var hið stóra verkefni þeirrar nefndar sem skilaði af sér þessum tillögum, þ.e. að ljúka púslinu þannig að sæmilega heilleg mynd yrði eftir á landakortinu.

Nú liggur fyrir, eins og menn hafa komið að í umræðunni, að staða þessara kjördæma í byggðalegu tilliti er ákaflega misjöfn. Það fer ekkert á milli mála að hér er að fæðast kjördæmi sem á mjög alvarlega undir högg að sækja að flestu leyti hvað byggðaþróun áhrærir. Þar á ég við það kjördæmi sem virðist nú að muni ganga fljótlega undir nafninu Norðvesturkjördæmi og er í meginatriðum Vesturland, Vestfirðir og Norðurland vestra að undanskildum Siglufirði.

Það liggur alveg fyrir að byggðaþróunin á þessu svæði hefur verið mjög alvarleg. Þar hefur verið að halla á, þar hefur verið mjög mikil búseturöskun, neikvæð búseturöskun. Það er ljóst mál að miðað við þær forsendur og það sem búið er að ákveða í stjórnarskránni mun ekkert líða á löngu þar til þetta kjördæmi verður enn þá fátækara af þingmönnum en þó gerist eftir næstu kosningar.

Núna er það þannig að þessi þrjú kjördæmi hafa á að skipa 15 þingmönnum. Eftir næstu kosningar verða þessi kjördæmi með 10 þingmenn. Ég hygg að það sé eftir þarnæstu kosningar eða þar um bil sem þessum þingmönnum mun síðan fækka um einn ef ekki tvo miðað við þá þróun sem er að verða í byggðalegu tilliti. Rödd þessa kjördæmis, rödd þessa svæðis, verður auðvitað veikari á Alþingi sem þessu nemur.

[22:00]

Auðvitað eru engin rök að segja sem svo, eins og menn segja stundum, að menn verði að hefja sig yfir kjördæmamörkin og tala fyrir hönd alls landsins. Við þekkjum það af reynslu á Alþingi að þó að við þingmenn séum fyrst og síðast talsmenn þjóðar okkar þá erum við líka á vissan hátt að reyna að gæta ákveðins jafnvægis í umræðunni vegna þess sem við erum að upplifa. Við erum að færa ákveðna reynslu inn í umræðuna og ákveðinn sjónarhól sem annars væri ekki til staðar í umræðunni. Fyrir vikið verður umræðan í þinginu ekki jafneinsleit og hún ella væri. Þess vegna skiptir svo miklu máli að raddir heyrist sem víðast að. Þess vegna er það mikið áhyggjuefni þegar við upplifum það og sjáum það fyrir okkur að þetta svæði muni veikjast.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um þetta mál. Ég tel að stóru ákvarðanirnar hafi þegar verið teknar og sú kjördæmaskipan sem við stöndum frammi fyrir í tillöguformi sé í sjálfu sér ekkert ólógískari niðurstaða af þeim forsendum en ýmislegt annað. Við verðum með allt annað samband kjósenda og þingmanna. Að vísu verður reynt að koma til móts við þetta vandamál með því að fjölga eða setja af stað kerfi aðstoðarmanna sem ég held að sé nauðsynlegt og forsenda fyrir því að reyna að rækta eitthvert lágmarkssamband kjósenda og þingmanna sem er mjög mikilvægt. Engu að síður erum við að fara inn í allt annan veruleika.

Hv. 3. þm. Reykv., hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde, nefndi það réttilega að sá sem hér stendur hafi lagt fram á sínum tíma frv. og reyndar endurflutt á þessu þingi varðandi möguleika manna á að kjósa í heimahúsum þegar um veikindi er að ræða. Nú er það þannig að gildandi kosningalög gera ráð fyrir því að menn þurfi að vita um veikindi sín a.m.k. með viku fyrirvara fyrir kjördag. Nú vitum við að veikindi gera ekki alltaf boð á undan sér og fólk lendir í því að veikjast. Eins og staðan er í dag í kosningalöggjöfinni þýðir þetta bara það að menn missa sjálfkrafa kosningarréttinn nema menn geti örugglega séð til þess að veikindi gerist með viku fyrirvara.

Ég met það mikils að nefndin sem hefur verið að störfum leggur til að draga úr þessu og opna þann möguleika að menn veikist nú bara með fjögurra daga fyrirvara og hafi þá dálítinn möguleika á því að kjósa umfram það sem núna er í dag. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að það ætti að skoða það að ganga enn þá lengra í þessum efnum. Það eru helg mannréttindi fólks að fá að kjósa og ég tel þess vegna að kjörstjórn á hverjum stað og kjörstjórar verði einfaldlega að búa sig betur út, fjölga starfsfólki sínu til að tryggja það að menn geti kosið alveg fram á kjördag. Það eru auðvitað þau tilvik sem geta komið upp að eðlilegt sé að gera þessar kröfur.

Að lokum eitt, virðulegi forseti, hér hefur nokkuð verið fjallað um þessi mál í samhengi við byggðamálin. Ég var á sínum tíma formaður nefndar sem hæstv. forsrh. skipaði í tengslum við kjördæmabreytinguna og við lögðum fram mjög ítarlegar tillögur sem algjör pólitísk samstaða varð um. Það sem var einkenni þessara tillagna var tvennt. Annars vegar vorum við að reyna að freista þess að snúa við eða treysta stöðu landsbyggðarinnar áður en til þess kæmi að hér brysti á nýtt kjördæmafyrirkomulag þar sem staða landsbyggðarinnar væri orðinn breytt, og enn fremur hitt sem höfuðáhersla var lögð á og það var að við bentum á það að staða landsbyggðarinnar væri svo alvarleg að tímasetning aðgerðanna væri aðalatriði. Þess vegna væri ekki bara um það að ræða að við legðum til að auka fé til vegamála, lækka orkukostnað, lækka kostnað við skólagöngu barna og ungmenna úr dreifbýlinu og fjölga störfum á landsbyggðinni og breyta á vissan hátt tekjuskiptingu sveitarfélaganna heldur sögðum við að til að þetta hefði einhverja þýðingu yrði þetta að gerast strax. Ef ekki þá yrði þetta of seint.

Virðulegi forseti. Enda þótt ýmislegt hafi verið gert í þessum efnum vantar heilmikið á enn þá. Við höfum séð það, sem betur fer, að fjármagn til vegamála hefur verið aukið um 500 millj. kr. Við höfum séð að í fjárlagagerðinni hefur verið varið verulega auknu fé til niðurgreiðslu á rafhitun á hinum köldu svæðum en því miður er ekki fimmeyringur farinn að skila sér enn þá í buddu neytenda. Enn þá eru þessir peningar til varðveislu í ríkissjóði vegna þess að ekki hefur verið tekin ákvörðun hvernig ætti að sjá til þess að peningarnir færu til lækkunar á húshitunarkostnaði.

Við höfum sem betur fer séð að gríðarlega mikið fé hefur verið veitt til viðbótar til að jafna námskostnað. Við höfum líka séð að tekið hefur verið skref í þeim efnum að jafna ferðakostnað hjá fólki sem þarf að sækja sér læknishjálp suður yfir heiðar. En ekkert hefur verið gert í því að fjölga störfum á landsbyggðinni eins og settar voru fram mjög ákveðnar tillögur um og ákveðið verklag sem var mótað í þessu sambandi. Þess vegna, virðulegi forseti, hlýt ég að ganga eftir því sem formaður nefndarinnar að áður en málið verður afgreitt í vor verði frá því gengið, alveg eins og hæstv. forsrh. ætlaðist til, að málinu verði lokið þannig að við þurfum ekki að vera að berja á því fram eftir þessu kjörtímabili að efndar verði tillögur sem forsendan var að væru gerðar strax. Það er alveg ljóst að ef sú nefnd, sem þarna er verið að vitna til, hefði ætlast til að tillögurnar yrðu framkvæmdar á til að mynda heilu kjörtímabili hefðum við einfaldlega komið með allt öðruvísi tillögur. Við vorum hins vegar ekki að leggja fram slíkar tillögur. Þær tillögur sáum við í byggðaáætluninni sem Alþingi hefur þegar samþykkt. Við vorum hins vegar að búa til tillögur sem höfðu þann meginútgangspunkt að tafarlaust væri farið í þær til að þær gætu borið árangur. Við vorum þeirrar skoðunar að staðan í byggðamálum hafi verið slík og því miður er það enn þá þannig og hefur síst farið batnandi, að ef menn ætli að grípa til aðgerða sem hafi eitthvert bit þá verði menn, eins og menn sögðu, að setja járnkarlinn í tannhjólið strax og stoppa þróunina.

Virðulegi forseti. Ég vil því hvetja til þess að sú nefnd sem fær málið til meðhöndlunar gangi þannig frá því. Ég geri mér grein fyrir því að það er gríðarlega mikill stuðningur við málið í þinginu almennt talað. Enda þótt menn séu ekkert sérstaklega ánægðir með þessar tillögur þá er búið að skapa um þær þá pólitísku samstöðu að þetta kosningafyrirkomulag verður í meginatriðum svona, hvort sem mér líkar það betur eða verr, en þá verða menn að gefa sér að það sem var hluti af því pólitíska samkomulagi sem náðist um málið þó að það hafi ekkert verið altækt þá var það býsna víðtækt, var að efna fyrirheit sem við gáfum öll, fulltrúar allra stjórnmálaflokka sem sátu þá á Alþingi með tilstyrk hæstv. ríkisstjórnar, og ég veit að það var full meining á bak við að þetta yrði að veruleika.

Virðulegi forseti. Þetta læt ég nægja um kosningalögin. Ég tel að þau spretti af þeirri slæmu ákvörðum sem við tókum með því að ganga svo langt í því að jafna vægi atkvæða. Ég tel að full rök séu með því að ganga miklu skemur í þessum efnum og tel að ofuráhersla á kröfuna um svokallað jafnt vægi atkvæða sé hálfgert tildur eins og menn hafa túlkað þetta og það sé ýmislegt annað sem eigi að hyggja að þegar verið er að móta kosningalöggjöfina eins og ég hef margoft farið yfir úr þessum ræðustóli.