Kosningar til Alþingis

Þriðjudaginn 11. apríl 2000, kl. 22:58:20 (6412)

2000-04-11 22:58:20# 125. lþ. 97.23 fundur 522. mál: #A kosningar til Alþingis# (heildarlög) frv. 24/2000, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 125. lþ.

[22:58]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa því yfir að ég mun styðja málið. Mikið starf hefur verið unnið til að ná þessari niðurstöðu og það ber að þakka og ekki síst formanni kosningalaganefndarinnar, hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde. Það hefur verðið erfitt verk að ná þessari niðurstöðu. En niðurstaðan náðist miðað við þær forsendur sem lagt var upp með, þ.e. að jafna vægi atkvæða á milli kjördæma.

Hæstv. forseti. Ég mun sætta mig við þessar niðurstöður þó svo að ég hafi aldrei verið fullkomlega sátt við nákvæmlega þessar forsendur sem lagt var upp með en við vitum að öll stjórnmálasamtök í landinu hafa ályktað í þessa veru. Það var því augljóst mál að það þyrfti að vinna að því að finna lausn sem flestir gætu sætt sig við.

En það er, hæstv. forseti, eitt sem ég er afskaplega ósátt í þeim rökum sem koma fram í þessu frv. og ég vil vitna í grg. með 6. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Meðan frumvarp þetta var í smíðum kom bæjarstjórnin á Hornafirði hins vegar á framfæri einkar afgerandi niðurstöðum skoðanakönnunar, er hún lét gera meðal kosningarbærra manna í sveitarfélaginu, á því hvort þeir teldu að sveitarfélagið ætti frekar að tilheyra Suðurkjördæmi en Norðausturkjördæmi. Af þeim sem afstöðu tóku galt yfirgnæfandi meiri hluti jáyrði við þeirri spurningu eða rúmir 62 af hundraði.``

Við getum svo sem spurt okkur að því, hæstv. forseti, hvað við getum kallað yfirgnæfandi meiri hluta í þessu sambandi, 62%. En það er rétt að fara yfir hvernig sú niðurstaða var fengin að sveitarfélagið Hornafjörður skyldi tilheyra Suðurkjördæmi.

[23:00]

Það var sem sagt gerð skoðanakönnun. Forsagan að því var sú að ályktun kom frá bæjarstjórn Hornafjarðar þar sem hún áskildi sér rétt til þess að hafa skoðun á kjördæmamörkum þegar niðurstaða kjördæmanefndarinnar svonefndrar lá fyrir, en þá var Austur-Skaftafellssýsla sett með Suðurkjördæmi. Menn voru ekki alveg sáttir við þetta og bæjarstjórnin ákvað að hún hefði eitthvað um þetta að segja, sem er ágætt mál. En síðan kemur fram það frv. sem fylgdi stjórnarskrárfrv. og þar var sú niðurstaða fengin að Hornafjörður skyldi vera með Norðausturkjördæmi.

Bæjarstjórnin ákvað að hún þyrfti samt sem áður að hafa skoðun á þessu og var það í sjálfu sér ágætt mál. En bæjarstjórninni tókst ekki að komast að niðurstöðu og hún ákvað þá að láta gera skoðanakönnun. Sú skoðanakönnun var gerð. Það var Price Waterhouse Cooper sem gerði þá skoðanakönnun, Sveitarfélagið Hornafjörður, spurningavagn, í desember 1999. Niðurstaða var fengin. En, hæstv. forseti, bæjarstjórninni tókst heldur ekki þá að mynda sér skoðun á því hvort sveitarfélagið ætti að tilheyra Norðausturkjördæminu eða Suðurkjördæminu. Það varð til þess að hún ákvað að senda niðurstöðu skoðunakönnunarinnar, senda skoðanakönnunina, þessa bók, til kosningalaganefndarinnar. Þessi niðurstaða úr skoðanakönnuninni lá þá fyrir hjá nefndinni.

Það voru 402 sem tóku afstöðu í þessari skoðanakönnun, 429 svöruðu en 402 tóku afstöðu. Það voru sem sagt 250 manns eða 62% sem komust að þeirri niðurstöðu að það væri sennilega best að tilheyra Suðurkjördæminu. En spurningin var svohljóðandi: ,,Telur þú að Austur-Skaftafellssýsla hefði frekar átt að tilheyra Suðurkjördæmi er næði frá Hvalnesskriðum í Lóni í austri til Reykjanestáar í vestri?`` Þetta var spurningin sem menn tóku afstöðu til og niðurstaðan varð þessi: 250 manns guldu því jáyrði en 123 sögðu nei.

Hæstv. forseti. Við getum svo spurt okkur að því þar sem kosningalaganefndin komst að þessari niðurstöðu, hvort þetta séu nú almennt vinnubrögð sem menn eiga að viðhafa. Eigum við að keyra af stað skoðanakannanir til þess að komast að svona niðurstöðum? Hefðum við ekki átt að spyrja fleiri í þessu máli, hafa svona almenna skoðanakönnun um landið um það í hvaða kjördæmi menn vildu vera?

Ég tel það ekki vera góða niðurstöðu að nota þetta plagg sem rök fyrir þessu, af því að þetta eru einu rökin sem eru hér upp talin fyrir því að sveitarfélagið Hornafjörður skuli tilheyra Suðurkjördæmi. Það er ekki minnst á samgöngumál og það er ekki minnst á nein önnur mál sem geta talist þessu að einhverju leyti til gildis.

Hæstv. forseti. Við getum svo sem rætt um það hvernig menn hafa byggt upp samstarf sveitarfélaga í kjördæmum, hvernig menn hafa byggt upp starf félagasamtaka og hvernig menn hafa byggt upp starf innan kjördæmisráða stjórnmálaflokka. En ég ætla svo sem ekki að tíunda það. Það er þá augljóst að menn þurfa að tengjast nýjum böndum í aðrar áttir en verið hefur. Ég tel þetta óþarfa rask sem engin ástæða er til þess að hlaupa í.

Ef við lítum næst á það, hæstv. forseti, hver tilgangurinn var með þessari kjördæmabreytingu. Jú, tilgangurinn var að jafna vægi atkvæða. Jöfnun á vægi atkvæða var einmitt ástæðan þess að menn fóru í þessar breytingar. En með þessari ráðstöfun mun þingmaður færast mun fyrr úr Norðausturkjördæminu, væntanlega í Suðvesturkjördæmi. Samkvæmt niðurstöðu kosninganna 1999 er augljóst að miðað við þá íbúaþróun sem við þekkjum núna mun Norðvesturkjördæmi missa einn þingmann, a.m.k. árið 2007, og sennilega mun Norðausturkjördæmi líka missa jöfnunarmann sinn árið 2007.

Vorum við ekki að tala um að jafna vægi atkvæða? Er nú ákaflega skynsamlegt að þurfa að fara að raska þessu strax eftir fá ár? Erum við ekki með þessu að reyna að vinna aðeins til framtíðar?

Þess vegna segi ég, hæstv. forseti, að mér finnst þetta ekki skynsamlegt og hefði talið mun heppilegra að sveitarfélagið Hornafjörður yrði í Norðausturkjördæminu. Ég tel nauðsynlegt að það komi hér fram.

Ég tek það fram samt sem áður, enn og aftur, að ég styð málið. Ég geri mér það ljóst að búið er að vinna mikið í því að ná þessari niðurstöðu og styð þess vegna málið með fyrirvara um þessi kjördæmamörk.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum minna á tillögur nefndar Einars Kristins Guðfinnssonar, sem hér voru nefndar fyrr í kvöld, um byggðamálin. Ég tel nauðsynlegt að menn vinni af einurð að því að fylgja þessum tillögum eftir, vinna að byggðamálunum. Ég treysti því að ríkisstjórnin vinni af fullri einurð að því að leysa byggðamálin.