Vinnuvélanámskeið

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:23:01 (6482)

2000-04-12 14:23:01# 125. lþ. 99.1 fundur 431. mál: #A vinnuvélanámskeið# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Spurt er: Hvaða aðilar hafa leyfi til þess að halda vinnuvélanámskeið, a) frumnámskeið, b) grunnnámskeið B?

Vinnueftirlit ríkisins veitir leyfi til að halda vinnuvélanámskeið. Sú heimild byggir á 49. gr. laga um aðbúnað, hollustuætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, en þau lög heyra undir félmrh. Þar sem þekking og færni í beitingu þessara tækja er hagsmunamál iðnaðarins er e.t.v. ekki óeðlilegt að iðnrh. láti í ljós skoðun sína á málinu.

Í framangreindum lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum segir í 49. gr., með leyfi forseta:

,,Stjórn Vinnueftirlitsins setur reglur um kennslu, þjálfun og próf, er gefi til kynna næga hæfni og þekkingu þeirra aðila, sem óska eftir leyfi til að mega stjórna eða fara með tilteknar vélar, enda sé ekki kveðið á um slík leyfi í öðrum lögum.``

Á grundvelli þessa byggja reglur um réttindi til að stjórna vinnuvélum, nr. 198/1983, með síðari breytingum nr. 24/1999. Þar kemur fram að náms- og þjálfunarkröfur miðast við stærð og gerðir viðkomandi vinnuvéla og er skilið á milli þriggja flokka sem nefnast frumnámskeið, grunnnámskeið og framhaldsnámskeið. Grunnnámskeið voru upphaflega tekin upp í samvinnu iðnrn. og aðila vinnumarkaðarins, en flutt síðan til Iðntæknistofnunar. Frá 1983 hefur öðrum aðilum einnig verið heimilt að halda slík námskeið, að uppfylltum settum hæfniskröfum.

Frumnámskeið er námskeið í öryggismálum og slysavörnum sem Vinnueftirlitið heldur. Því lýkur með prófi er gefur rétt til verklegrar þjálfunar undir umsjón kennara sem lýkur með verklegu prófi. Frumnámskeið er aðeins haldið af Vinnueftirliti ríkisins og hafa ekki aðrir rétt til þess. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur sóst eftir leyfi til þess að fá að halda frumnámskeið.

Grunnámskeið eru ekki haldin af Vinnueftirlitinu, námskeiðin þurfa aftur á móti að vera viðurkennd af þeim samkvæmt fyrirliggjandi námskrá. Um námsefni og framkvæmd fer eftir ákvörðun verkefnisráðs sem skipað er fulltrúum frá Vinnueftirliti ríkisins, Verkamannasambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands, þ.e. samtökum atvinnulífsins. Að lokinni þjálfun og prófi öðlast þátttakendur réttindi til að stjórna öllum algengustu vinnuvélum sem eru í almennri notkun.

Réttindi frá Vinnueftirliti ríkisins til að halda grunnnámskeið hafa fimm aðilar, þ.e. Iðntæknistofnun, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, en þau námskeið eru valgrein fyrir nemendur skólans, Nýi ökuskólinn, Klettagörðum Reykjavík, Ökuskólinn á Akureyri og Ökuskóli Suðurlands, Selfossi. Framhaldsnámskeið eru fyrir þá sem æskja réttinda til að stjórna stærstu vinnuvélunum. Slík námskeið hafa ekki verið haldin.

Spurt er: Hvaða rök eru fyrir því að slík námskeið séu skipulögð og haldin af stofnun ríkisins, svo sem Iðntæknistofnun, Vinnueftirliti ríkisins og Bændaskólanum á Hvanneyri?

Meginástæða þess að vinnuvélanámskeið eins og mörg önnur sérhæfð námskeið eru haldin af stofnun ríkisins liggur í þeirri sögulegu staðreynd að á þeim tíma sem þau voru sett á fót var enginn annar sem gat tekið slík verkefni að sér. Auk þess er eðlilegt að Vinnueftirlitið annist frumnámskeiðin um öryggismál og slysavarnir. Þau byggja nær alfarið á þeirri reynslu sem fengist hefur af eftirliti með vinnuvélum og rannsókn vinnuslysa á þeirra vegum. Frumnámskeiðin eru haldin um allt land af starfsmönnum umdæmisskrifstofu Vinnueftirlitsins sem eru á níu stöðum á landinu.

Hvað varðar Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri þá er almennt viðurkennt að nauðsynlegt er fyrir verðandi bændur að hafa haldgóða þekkingu á þeim vinnuvélum sem er óaðskiljanlegur þáttur í daglegum búrekstri þeirra. Réttindanámskeið er hluti af viðameira námi á búnaðarnámsbraut.

Fræðslustarf Iðntæknistofnunar stendur á gömlum merg og hefur námsefni fyrir vinnuvélanámskeið verið þar í stöðugri þróun og hafa aðrir sem síðar hafa haslað sér völl á þessu sviði notið mikils gagns af frumherjastarfi Iðntæknistofnunar. Þessi starfsemi Iðntæknistofnunar á enn fullan rétt á sér eins og vikið verður að hér á eftir.

Spurt er: Telur ráðherra að slíkt námskeiðshald eigi að vera á vegum ríkisins? Ef ekki, mun ráðherra beita sér fyrir breytingum á því?

Almennt talið verður að telja eðlilegt að stofnanir ríkisins séu ekki í atvinnustarfsemi sem aðilar á hinum almenna vinnumarkaði geta sinnt betur og fyrir minna fé. Því verður að gera þær kröfur til ríkisstofnana að þegar um er að ræða samkeppnisrekstur eða starfsemi sem gæti verið í samkeppni á frjálsum markaði sé slík starfsemi rekin að öllu leyti á jafnréttisgrundvelli og án allrar opinberrar meðgjafar. Iðntæknistofnun sem hefur um árabil haldið grunnnámskeið hefur rækilega gætt þess hin síðari ár að ekkert opinbert fé fari til að greiða niður þessi námskeið.