Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:35:44 (6486)

2000-04-12 14:35:44# 125. lþ. 99.2 fundur 513. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Í ályktun Alþingis í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 segir m.a. í 12. tölul., með leyfi forseta:

,,Áfram verði unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis. Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs.``

Við umfjöllun Alþingis um fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár var ákveðið að hækka fjárveitingu til niðurgreiðslu á rafmagni til hitunar á íbúðarhúsnæði úr 600 millj. kr. í 760 millj. kr. en ekki voru gerðar ráðstafanir vegna hitaveitna. Reglur um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar sem eru að stofni til frá 1986 þarf að endurskoða. Frá 1986 hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtækin veita nú afslátt á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis. Orkufyrirtækin telja að reglurnar séu ekki nægilega skýrar og þær takmarki möguleika sína til að draga úr kostnaði við rekstur og laga gjaldskrár að breyttum aðstæðum. Loks þarf að setja reglur um eftirlit með niðurgreiðslunum.

Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að tímabært sé að endurskoða reglurnar. Það stafar af tvennu. Í fyrsta lagi voru reglurnar settar þegar mun minna fjármagni var varið til niðurgreiðslu á rafhitun en nú er gert. Í öðru lagi var með nýrri byggðaáætlun sett fram nýtt stefnumið sem skýra þarf nánar. Til að vanda sem best allan undirbúning málsins hef ég skipað nefnd sem er nú að störfum og er henni ætlað að skila tillögum sínum fyrir 15. júní nk. Helstu verkefni nefndarinnar eru að skilgreina hvað átt er við með meðaldýrri hitaveitu, að meta hvort aðrar leiðir en beinar niðurgreiðslur eru heppilegri til að ná stefnumiði Alþingis einkum vegna þeirra sem búa við erfiðustu aðstæðurnar, að sú leið sem valin verður stuðli að því að orkan verði nýtt með þjóðhagslega hagkvæmum hætti, að fjalla um hvort breyta eigi þaki á niðurgreiðslunum en óvíst er að hækkun þaks eða afnám þess sé heppilegasta aðferðin til að mæta þörfum þeirra sem lakast eru settir og að kanna hvort taka eigi tillit til þess að gjaldskrár veitnanna eru mismunandi.

Nefndinni hefur einnig verið falið að ræða við Landsvirkjun og orkufyrirtækin um frekari þátttöku þeirra í lækkun húshitunarkostnaðar í samræmi við þáltill.

Spurt er: Hvað má ætla að húshitunarkostnaður lækki mikið á þessu ári?

Á þessari stundu er ekki hægt að segja til um það hve mikið húshitunarkostnaður lækkar á þessu ári. Það ræðst af nokkrum þáttum. Alþingi hefur þegar ákveðið að hækka niðurgreiðslurnar til rafhitunar um 160 millj. kr. eða um tæp 27%. Nefndinni sem ég gat um áðan hefur verið falið að ræða við Landsvirkjun og rafveitur um þátttöku þeirra í lækkun húshitunarkostnaðar. Áhrif af aðgerðum vegna stofnunar nýrra hitaveitna á köldum svæðum hafa ekki verið metin en alls hefur verið ráðstafað rúmlega 100 millj. kr. í þessu skyni til stofnunar þriggja hitaveitna frá því í desember sl.

Loks má nefna að ekki liggur fyrir hvort og þá hvernig tekið verður á vanda dýrari hitaveitna.

Spurt er: Verða mótaðar tillögur um aðgerðir svo að dýrari hitaveitur geti lækkað húshitunarkostnað?

Þegar nefndin sem er að fjalla um niðurgreiðslur á rafhitun íbúðarhúsnæðis hefur lokið störfum mun ráðuneytið kanna hvernig hægt sé að tryggja samkeppnisstöðu hitaveitna þar sem orkuverð yrði að óbreyttu ofan við niðurgreitt rafmagn.