Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:43:32 (6490)

2000-04-12 14:43:32# 125. lþ. 99.2 fundur 513. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Út af fyrir sig hef ég skilning á því að mótaðar séu nýjar reglur í ljósi þess að við erum að veita mikið meira fjármagn til þessa málaflokks en við höfum gert áður en mér finnst það vera mjög gagnrýnisvert hversu hægt þetta mál hefur gengið.

Það er einfaldlega þannig að það lá fyrir að Alþingi mundi með einhverjum hætti verja meira fjármagni til þessa málaflokks vegna þess að búið var að ákveða það í byggðaáætluninni og það hafði líka verið ákveðið með þeirri byggðatillögu sem hæstv. forsrh. bar upp í ríkisstjórn og ríkisstjórnin samþykkti og allir stjórnmálaflokkar á Alþingi stóðu að. Þess vegna finnst mér að það sé mjög ámælisvert hversu hægt þetta verkefni hefur gengið. Nú liggur fyrir að þessi nýja nefnd á ekki að skila áliti fyrr en um miðjan júní. Hún hefur sárafáa mánuði til að vinna í þessu mikla verki. Hún á að skila áliti um miðjan júní og þá liggur fyrir að ákvarðana getur ekki verið að vænta fyrr en um mitt þetta ár. Það er því alveg ljóst mál að ákvarðanir sem leiða til lækkunar á orkukostnaði munu þá ekki koma til framkvæmda nema bara á hálfu þessu ári sem mér finnst ganga allt of hægt.

Fram kom að hluti af þessu verkefni á að vera að skilgreina þetta hugtak, meðaldýrar hitaveitur. Ég vek athygli á því að fyrirtækið Fjárhitun hf. fór yfir þetta mál í skýrslu í október 1997 og skilgreindi þetta hugtak. Það var þetta hugtak sem Fjarhitun vann sem við gengum út frá í okkar nefndarstörfum, bæði innan Byggðastofnunar og eins við mótun nefndar allra stjórnmálaflokka. Menn voru auðvitað ekkert að ganga að því gruflandi hvað þetta hugtak þýddi. Ég held því að við eigum að geta gengið mjög hratt til verka í þessum efnum.

Ég er alveg sammála því sem hæstv. iðnrh. stingur upp á í erindisbréfi sínu til nefndarinnar að auðvitað á Landsvirkjun í þessum efnum að koma að þessu verki. Það liggur fyrir og kemur fram í nýrri skýrslu sem var dreift til þingmanna núna fyrir nokkrum dögum að meðalverð frá Landsvirkjun til almenningsveitna á öllum þessum áratug hefur ekki lækkað um fimmeyring svo einkennilegt sem það er. Það er hið sama og það var árið 1990 eða þar um bil á sama tíma og verið er að gera miklar arðsemis- og hagræðingarkröfur til fyrirtækja almennt í landinu, þá vekur þetta mikla furðu. Auðvitað er sjálfsagt mál að Landsvirkjun komi af fullum krafti í það að lækka orkukostnaðinn í landinu og bæta þannig lífskjörin.