Húshitunarkostnaður

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 14:45:56 (6491)

2000-04-12 14:45:56# 125. lþ. 99.2 fundur 513. mál: #A húshitunarkostnaður# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[14:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Alltaf má deila um hvort brugðist er nægilega fljótt við. Sá ráðherra sem hér stendur hefur haft í ýmsu að snúast. Reyndar féllu þau orð í ríkisstjórn þegar ég kom með málið þar inn að það væri sérstaklega til fyrirmyndar hversu fljótt væri brugðist við þannig að ég tel að þetta sé alveg innan marka þó að auðvitað hefði mátt koma fyrr fram tillaga um nefndarskipan.

Ég vil bara taka undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þingmönnum, að þetta mál er stórt mál á landsbyggðinni. Hins vegar tel ég alveg nauðsynlegt að fara í ákveðna vinnu til þess að þessu verði betur fyrir komið til framtíðar en hefur verið, ekki síst hvað varðar þetta ákvæði í byggðaáætlun Alþingis um meðaldýrar hitaveitur. Það er ekki skilgreint í dag og þess vegna verður að taka á því. Þar þurfum við að fá viðbótarfjármagn í þennan geira og það vil ég leggja mikla áherslu á vegna þess að í fjárveitingum í ár er einungis gert ráð fyrir niðurgreiðslum vegna rafhitunar þannig að viðbótarfjármagn þarf að fást til þess að taka á vanda dýrra hitaveitna. Þetta hef ég látið koma fram í ríkisstjórn.

Um orð hv. þm. Péturs Blöndals vil ég segja að nefnd hefur verið að störfum sem hefur verið að fara ofan í hugmyndir um að virkja bæjarlækinn. Það er svo sem ekki nýtt mál á Íslandi. Það hefur verið gert í áratugi. En það hefur verið nefnd að störfum sem hefur farið ofan í þá þætti og framtíðarhugmyndir sem mætti hafa í þeim efnum.

Um rekavið er það að segja að hann er nýttur til hitunar húsnæðis á landsbyggðinni. Auðvitað getur hann aldrei verið neitt aðalatriði í þeim efnum en hann getur virkilega verið til þess að skerpa á og spara. Ég veit að margir nota sér það.

Fjárhagsvandi Rariks er mál út af fyrir sig sem ekki verður leyst í þessari umræðu en er að sjálfsögðu mál sem krefst úrlausnar.