Starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:03:20 (6499)

2000-04-12 15:03:20# 125. lþ. 99.3 fundur 517. mál: #A starfsgrundvöllur lítilla iðnfyrirtækja á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Á 123. löggjafarþingi á síðasta ári var lögð fram till. til þál. sem hér var rædd og tekið var undir hana af nánast öllum þingmönnum af miklum fögnuði. Tillagan var lögð fram af ríkisstjórninni og auðvitað fyrir kosningar svo ekki færi á milli mála hjá hv. kjósendum hver væri vilji ríkisstjórnarinnar.

Í tillögunni stendur m.a. að hún hafi það markmið að treysta búsetu á landsbyggðinni. Einnig stendur þar að: ,,Unnið verði markvisst að aukinni fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Þróunarstofur verði efldar og þannig treystur grundvöllur til nýsköpunar og aukinnar fjölbreytni. Hlutverk þeirra verði meðal annars að auka samkeppnishæfni atvinnulífs á landsbyggðinni og aðstoða fyrirtæki við öflun verkefna og styrkja innan lands sem utan. Tryggt verði að aðstoðin skili sér til starfandi fyrirtækja jafnt sem nýrrar atvinnustarfsemi. Til að treysta þessi markmið verði leitað samstarfs við háskóla og rannsóknastofnanir.``

Áður hefur verið lesið upp úr þessari þáltill. í umræðunni og það kom fram fyrr á fundinum að m.a. var samþykkt lækkun húshitunarkostnaðar sem afskaplega hægt hefur gengið að koma í framkvæmd. Nú kemur í ljós hjá hæstv. iðnrh. að skilyrði er að halda útboð fyrir allar framkvæmdir sem eru meira virði en 5 millj. kr. Ég held að þetta 5 millj. kr. mark hljóti að hafa verið fryst í nokkur ár vegna þess að það tekur ekki nokkru tali að verið sé að senda slík smáverkefni sem hér um ræðir til Litháen þegar á sama tíma þarf að leggja niður lítil iðnfyrirtæki á landsbyggðinni og þarna er það ríkið sem stendur að málum. Ég vonast til að þetta verði tekið til endurskoðunar eins og hæstv. iðnrh. gaf reyndar fyrirheit um í máli sínu.