Flokkun eiturefna

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:07:36 (6501)

2000-04-12 15:07:36# 125. lþ. 99.6 fundur 496. mál: #A flokkun eiturefna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:07]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Virðulegi forseti. Tæp 40 ár eru síðan rannsóknir sýndu óyggjandi að reykingar geta valdið lungnakrabbameini. Á þeim 40 árum hafa rannsóknir leitt í ljós tengingu reykinga eða tóbaksnotkunar ásamt óbeinum reykingum við fjölmarga sjúkdóma og stöðugt bætast við nýjar upplýsingar eins og nýbirtar langtímarannsóknir Hjartaverndar sýna. Þess má geta að nikótín fellur undir skilgreiningu fíkniefna en segja má að hagsmunaaðilar hafi hindrað að nikótín sé rétt flokkað fram til þessa.

Herra forseti. Nikótín er fíkniefni en auk þess er það mjög sterkt eiturefni sem notað hefur verið m.a. sem skordýra- og illgresiseitur. Tóbaksreykur inniheldur efni sem myndast ýmist við háan eða ófullkominn bruna. Efnin eru í gas- og úðaformi eða föstum efnum og innihalda m.a. geislavirk efni. Sum þessara efna eru á skrá um heilsuspillandi efni í atvinnuumhverfi, svo sem akrolein, ammoníak, anilín, arsenik, bensópýren, blý, kadmíum og blásýra. Krabbameinsvaldandi efni eru m.a. pýren, kadmíum, bensópýren, vinýlklóríð og úretan.

Tóbak er eina löglega söluvaran sem er banvæn þegar hún er notuð nákvæmlega á þann hátt sem til er ætlast. Sönnunargögnin eru yfirþyrmandi. Reykingar valda 50% allra þeirra dauðsfalla sem segja má að séu óþörf, þ.e. að unnt hefði verið að koma í veg fyrir þau og helmingur þeirra dauðsfalla eru af völdum hjarta- og æðasjúkdóma.

Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna telur reykingar eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins í dag og það verði enn alvarlegra í Asíu og ýmsum þróunarlöndum á næstu áratugum. Á meðan tóbaksvarnir hafa aukist til muna í hinum vestræna heimi flytja tóbaksframleiðendur vöruna og framleiðsluna til þeirra ríkja sem standa varnarlausar gegn markaðssetningunni.

Herra forseti. Til að snúa vörn í sókn verður enn frekar að efla tóbaksvarnir og það verður helst gert með því að flokka tóbak og tóbaksreyk samkvæmt efnisinnihaldi. Því beini ég eftirfarandi spurningu til hæstv. umhvrh.:

Mun ráðherra beita sér fyrir því að flokka sígarettur og aðra vindlinga sem eiturefni með tilliti til þess að í tóbaksreyk eru a.m.k. 11 eiturefni og 40 krabbameinsvaldandi efni? Í fyrsta lagi innan lands með breytingu á löggjöf og í öðru lagi erlendum vettvangi með því að beita áhrifum þar sem Ísland á aðild eða getur haft áhrif á samþykktir og afgreiðslu. Hvaða lög og samningar eða samþykktir gætu hindrað það að íslensk löggjöf flokki tóbak sem eiturefni?

Herra forseti. Við þessa spurningu hefði mátt bæta við öllu öðru tóbaki, ekki eingöngu vindlum og sígarettum, en til að einfalda ráðherra svörin var það ekki gert.