Eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:30:17 (6508)

2000-04-12 15:30:17# 125. lþ. 99.11 fundur 456. mál: #A eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Frá því að Egilsstaðaflugvöllur var gerður að alþjóðaflugvelli hefur verið áhugi hjá heimamönnum á að koma á reglulegu millilandaflugi frá flugvellinum. Fyrir nokkrum árum reyndi lítil ferðaskrifstofa að koma á áætlunarflugi til Evrópu og nýlega hefur verið stofnað flugfélag, flugfélagið Jökull, sem hyggst markaðssetja alþjóðaflugvöllinn á Egilsstöðum. Fyrir utan kostnað við markaðssetningu á nýjum ferðakostum og hugsanlegum útflutningi matvæla hefur það aukið erfiðleika heimamanna að dælur við þotur eldsneytistanka eru kraftlitlar og lengri tíma hefur tekið að dæla á flugvélar á Egilsstaðaflugvelli en í Keflavík. Lítil afköst dælukerfisins hefur verið eitt helsta vandamál í að afgreiða þotur á Egilsstaðaflugvelli á undanförnum árum.

Það getur tekið um 40 mínútur að dæla því eldsneytismagni sem þarf til áframhaldandi flugs. Það er ekki eini mismunurinn því að töluverður verðmunur er á þotueldsneyti eftir því hvar það er afgreitt því að flutningskostnaði er bætt við verð hvers lítra. Sem dæmi má nefna að í Keflavík kostar lítrinn af þotueldsneyti 32,78 kr. en á Egilsstöðum 44,35 kr. Olíufélögin hafa skipt með sér þjónustu við flugvelli landsins og hefur Olíufélagið Skeljungur um langt árabil annast eldsneytissölu á Egilsstaðaflugvelli og á þar alla aðstöðu til að geyma og afgreiða flugvélaeldsneyti. Til hafði staðið að endurnýja alla aðstöðu þegar nýr flugvöllur var tekinn í notkun. Hætt var við þær áætlanir þar sem þjónustan fór minnkandi. Framkvæmdir hafa eingöngu verið þær nauðsynlegustu aðgerðir sem snúa að mengunarvörnum. Þarna er kominn hnútur sem þarf að leysa. Því verri sem þjónustan er við afgreiðslu eldsneytis, því erfiðara er að koma á og auka millilandaflug og því minni er salan o.s.frv.

Ljóst er að eldsneytisaðstaðan á Egilsstaðaflugvelli er ekki með þeim hætti sem æskilegast væri. Staðsetning geym\-anna er óheppileg miðað við núverandi flugvélastæði og hún uppfyllir ekki ýtrustu flugöryggiskröfur varðandi fjarlægð frá flugbraut og jafnframt er æskilegt að hægt sé að geyma meira magn eldsneytis á staðnum því að óviðunandi er að varaflugvöllur fyrir Keflavík sé vanbúinn eldsneyti.

Herra forseti. Ég beini því svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. samgrh. um eldsneytisafgreiðslu á Egilsstaðaflugvelli:

,,Hver eru viðbrögð ráðherra við óskum flugfélagsins Jökuls um að birgðastöð fyrir eldsneyti verði skilgreind sem búnaður á varaflugvellinum og að í framhaldi af því verði ráðist í hönnun og byggingu á aðstöðu til geymslu á a.m.k. 100.000 lítrum af JET A-1 þotueldsneyti og 20.000 lítrum af bensíni (LL100)?``