Eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli

Miðvikudaginn 12. apríl 2000, kl. 15:39:01 (6511)

2000-04-12 15:39:01# 125. lþ. 99.11 fundur 456. mál: #A eldsneytisafgreiðsla á Egilsstaðaflugvelli# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 125. lþ.

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Það var ánægjulegt að heyra að dælurnar eru komnar til landsins og að þær muni anna helmingi meira en þær gera í dag. En ég gat ekki heyrt í máli hans hvort hann hefði áhuga á að koma að endurbyggingu tankanna með því að setja þá framkvæmd inn á flugmálaáætlun eins fljótt og mögulegt væri.

Ég vil nefna aftur þann mismun sem er á bensínverðinu. Það er nógu erfitt fyrir heimamenn að standa að og koma á áætlunarflugi, millilandaflugi, ferjuflugi eða hverju sem er til að auka umsvifin á heimavelli okkar, hvort sem þeir staðir heita Egilsstaðir, Akureyri eða annað, þó ekki komi til viðbótar mismunur á þotueldsneytinu sem er náttúrlega óþolandi fyrir alla aðila sem vilja standa í slíkum rekstri. Ég hvet því ráðherra til þess að taka aftur upp samninga við olíufélögin og fá með einhverjum hætti jöfnunarverð á bensínið. Það er alveg rétt að því meiri notkun sem er á vellinum, því auðveldara eða því viljugra er olíufélagið til að auka þjónustuna og lækka verðið.

En það má líka horfa á uppskipunina á þotueldsneytinu. Verið er að keyra eldsneytið yfir hálft landið og flutningskostnaður og virðisaukaskattur bætist við eldsneytisverðið á flugvöllum utan höfuðborgarsvæðis og Keflavíkur.

Ég vil líka benda á að með Schengen-samningnum verður flugvöllum úti á landi gert mun erfiðara að standa í millilandaflugi en hingað til.