Yfirlitsskýrsla um alþjóðamál

Fimmtudaginn 13. apríl 2000, kl. 11:24:47 (6517)

2000-04-13 11:24:47# 125. lþ. 100.1 fundur 612. mál: #A yfirlitsskýrsla um alþjóðamál# skýrsl, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 125. lþ.

[11:24]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljóst að þau ríki sem gagnrýnt hafa nýju ríkisstjórn í Austurríki vegna aðildar flokks Haiders hafa ekki lokað sendiráðum sínum þar sem þau hafa fyrir löngu opnað. Hins vegar held ég að það hljóti ekki að fara hjá því að menn reki upp stór augu þegar Íslendingar taka þá ákvörðun að breyta þeirri sendiskrifstofu sem þar er í formlegt sendiráð og taki upp slík samskipti við þessa nýju ríkisstjórn. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið ástæða til þess að doka eitthvað við með það.

Einhvern veginn situr það í mér, ég man ekki betur en að ég hafi lesið í blöðunum fréttir eftir þennan fund utanríkisráðherra Norðurlanda að þeir hefðu verið sammála í því að taka harða afstöðu gegn þróuninni í stjórnmálum í Austurríki og látið í ljós þá skoðun sína að þeim væri þetta ekki þóknanlegt og bæri að líta á þetta alvarlegum augum. Hvort um yfirlýsingu var að ræða eða ekki man ég satt að segja ekki. Ég hafði ekki fyrir því að fletta þessu upp en ég man ekki betur, hæstv. utanrrh., en að þetta mál hafi verið á dagskrá utanríkisráðherrafundar og þar hafi menn komist að sameiginlegri niðurstöðu, hvort sem það var í formi formlegrar yfirlýsingar eða ekki.